30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. meiri hl. samgmn. hefur lagt til, að frv. til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 18. júní 1969, verði samþ. Hér er vitanlega sjálfsagt og eðlilegt að samþykkja þetta frv., því hvað sem því líður, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þessi l. væru pappírsgagn, þá vita allir, að þessi l. gerðu sitt gagn, þegar þau voru sett, og komu í veg fyrir, að flugflotinn stöðvaðist. Þess vegna er sjálfsagt og eðlilegt að staðfesta þessi l. með því að samþykkja þetta frv.

Hv. 6. þm. Reykv. fullyrti, að flugfélögin hefðu samið við flugliðana um allt önnur kjör en felast í brbl. Mér er kunnugt um, að einhverjir samningar fóru fram, m.a. að lengja vinnutíma flugmanna og borga þeim fyrir þá aukavinnu, sem þeir legðu á sig. Hins vegar var ríkisstj. ekkert með í því samkomulagi, og ríkisstj. hefur aldrei blandað sér inn í frjálsa samninga atvinnurekenda og launþega. Það var ekki fyrr en það var ljóst, að flugflotinn mundi stöðvast, að þessi brbl. voru gefin út. Ég sé, að þeir félagar, hv. 4. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv., brosa að þessu, en það er þeim ekki of gott. Ríkisstj. gaf þessi brbl. út til þess að koma í veg fyrir, að flugið stöðvaðist á s.l. vori.

Nú er sagt, að Loftleiðir hafi gert nýja samninga við flugliða í sambandi við þotuflug, og í fréttatilkynningunni er sagt, að það sé um mjög háar launagreiðslur að ræða. Ríkisstj. hefur ekki haft afskipti af þessum samningum. Það eru samningar á milli Loftleiða og þotuflugmanna væntanlega. Ég hef hitt forstjóra Loftleiða, eftir að þessir samningar voru gerðir, og spurt hann nokkuð um það, hvernig þetta væri. Hámarkslaunin koma eftir að starfstíminn er 24 ár. Launin hjá þotuflugmönnum eru frá 50 þús. og upp í 105 þús. eftir starfsaldri. Þetta eru há laun á okkar mælikvarða. Það er reiknað með, að Loftleiðir geti tekið þotur í notkun á N.-Atlantshafinu og einnig á suðurleiðinni á milli Lúxembúrg og Bahamaeyja, sem þeir reyndar eru byrjaðir á. Þeir þotuflugmenn, sem verða á syðri leiðinni, verða langdvölum fjarri Íslandi, og ég geri ráð fyrir því, að þeir flugmenn, sem fljúga á norðurleiðinni og suðurleiðinni, skiptist á og þessir samningar og þessi háu laun séu að nokkru leyti ákveðin með það fyrir augum, að þessir Íslendingar verði mánuðum saman erlendis án þess að koma heim, og þar sé að nokkru leyti fengin skýringin á þessum háu launum, sem ég ætla ekki að leggja neinn dóm á og ríkisstj. hefur ekki haft nein afskipti af.

Hv. 6. þm. Reykv. talar hér um kaupkröfur lögfræðinga og minntist eitthvað í því sambandi á framkvæmdastjóra Sjálfstfl., og náttúrlega hlyti Sjálfstfl. að bera ábyrgð á þessari kröfu hans. Þetta er nú dálítið langsótt hjá hv. þm. Ég held, að hér í landi sé svokallað lögfræðingafélag, stéttarfélag, og það ber fram sínar óskir, en það á ábyggilega langt í land, að þær óskir verði samþykktar, og Sjálfstfl. ber enga ábyrgð á því, þótt framkvæmdastjóri Sjálfstfl. sé í þessu félagi og beri fram óskir þessa stéttarfélags. Þetta veit hv. 6. þm. Reykv., þótt hann sé nú að reyna hér í Alþ. að gera sér mat úr því, en ég þekki a.m.k. einn lögfræðing, sem er flokksbróðir hv. 6. þm. Reykv., og ég gæti nú bezt trúað því, að hann væri ekki eftirbátur í kröfugerðinni. Sjálfsagt eru þeir miklu fleiri í flokki lögfræðinga, sem mundu vilja taka undir þetta.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég vil þakka meiri hl. hv. n. fyrir að leggja til, að frv. verði samþ. Brbl. gerðu sitt gagn. Brbl. eru fyrir utan það, sem nú er á dagskrá í sambandi við Loftleiðir og þotuflugið, sem verður að miklu leyti utan Íslands, og við vitum það allir í þessari hv. d., að íslenzkt efnahagskerfi þolir ekki þessar háu launagreiðslur. Þær byggjast á því, að flugmennirnir dveljist langdvölum erlendis og vinni utan Íslands við það að flytja erlenda farþega. En það væri ábyggilega æskilegt, að við gætum unnið að því sameiginlega að treysta svo undirstöður íslenzks atvinnulífs, að það gæti hækkað laun, ekki til flugmanna, heldur fyrst og fremst til þeirra, sem eru lægst launaðir.