30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. flugmálarh. er fáum mönnum líkur. Við erum hér að ræða um frv. til l. frá hæstv. ríkisstj. þess efnis, að frjálsir samningar tiltekinna aðila skulu bannaðir og í staðinn skuli koma gerðardómur. Samt stendur hæstv. ráðh. hér í ræðustól og segir: „Ríkisstj. hefur aldrei blandað sér í frjálsa samninga atvinnurekenda og verkalýðsfélaga.“ Staðreyndir eru þær, að þessi ríkisstj. hefur gert þetta oftar en nokkur önnur ríkisstj. í sögu landsins, og hún hefur gert þetta að fastri reglu sérstaklega í sambandi við flugfélögin og það að svo fastri reglu, að flugfélögin voru farin að reikna með þessu eins og öruggum hlut og voru alls ekki til viðræðna um neina raunverulega samninga, vegna þess að ráðamennirnir vissu, að l. mundu koma. Það var það, sem olli því, að flugliðar brugðust eins harkalega við og allir vita.

Hæstv. ráðh. sagði, að l. hefðu þrátt fyrir allt gert sitt gagn, þegar þau voru sett. Tilgangur l. var tvíþættur, annars vegar að koma í veg fyrir 48 stunda vinnudeilu, verkfall, sem boðað hafði verið, og í öðru lagi að tiltaka, að kaup og kjör flugliða skyldu vera í samræmi við launa- og kjarabreytingar, sem um hafði verið samið áður við verkalýðsfélögin. Þetta var hinn tvíþætti tilgangur brbl. En hvorugu þessu var náð. Vinnustöðvun flugliðanna fór fram nákvæmlega eins og flugliðarnir höfðu boðað, og nýr samningur var gerður nokkrum dögum síðar um allt annað en það, sem í gerðardómnum felst. Það er ekkert eftir í þessum l., ekki snefill, og einnig af þeirri ástæðu er sjálfsagt að fella þessi brbl., hvort sem menn eru að meginreglu á móti slíkri íhlutun stjórnarvalda, eins og ég er, eða menn eru það ekki. Þessi brbl. hafa ekkert gildi lengur, nákvæmlega ekkert.

Hæstv. ráðh. svaraði nokkuð fsp. minni um það, hvaða mat hann hefði á kaupi því, sem um hefði verið samið í sambandi við þotuflug. Hann rökstuddi kaupið í ýmsum atriðum, þarna væru nýjar og flóknar vélar, meiri kunnátta og meiri ábyrgð, og þarna væri um að ræða fjarveru frá Íslandi langtímum saman. Mér dettur ekki í hug að gagnrýna þessi sjónarmið og hef ekki gert það. En þessi sjónarmið eiga við fleiri en flugmenn eina. Það er almenn regla í öllum störfum á Íslandi um þessar mundir, að vélar þær, sem menn vinna með, verða sífellt fullkomnari og flóknari, og það þarf meiri kunnáttu til þess að fara með þær. Það er ágætt, að sú regla sé viðurkennd, að eftir því sem mönnum er trúað fyrir flóknari tækjum, eigi þeir að fá hærra kaup. Og það eru býsna margir aðilar á Íslandi, sem verða að vinna langtímum saman fjarri heimilum sínum. Þannig er ástatt um flesta sjómenn okkar, um farmenn okkar og um fjölmarga aðra launamenn, sem verða að sækja vinnu til staða, sem eru mjög fjarri heimilunum. Það er ágætt að fá viðurkennda þá reglu, að menn eigi að fá hærra kaup, miðað við þær aðstæður. Og í þessu er fólgin þessi viðurkenning, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það stendur í brbl. ríkisstj., að kaup og kjör flugliða séu fordæmi fyrir aðra launamenn.

Ég veit það fullvel, að framkvstj. Sjálfstfl. bar ekki fram kröfur sínar um launakjör lögfræðinga í nafni flokksins. Hann bar þær fram, vegna þess að hann var formaður í stéttarfélagi lögfræðinga. En ég geri ekki ráð fyrir, að sá ágæti maður hafi neitt tvískiptan persónuleika. Hann hlýtur að hafa sömu skoðun á þeim kröfum, sem hann telur rétt að bera fram fyrir hönd Lögfræðingafélagsins og þegar hann starfar innan Sjálfstfl. Hann hlýtur einnig sem framkvstj. Sjálfstfl. að telja þetta launakerfi eðlilegt. Og ef þetta launakerfi er eðlilegt fyrir lögfræðinga í opinberri þjónustu, sem ég er ekki að draga í efa, þá leiðir af því ákveðnar ályktanir fyrir aðra launamenn í þjóðfélaginu. Þetta þarf hæstv. ráðh. að gera sér fullkomlega ljóst.