16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1970

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Á þskj. 196 ber ég fram ásamt 1. þm. Austf., 5. þm. Austf. og 4. þm. Austf. eina litla brtt. og vil ég leyfa mér að gera grein fyrir henni með örfáum orðum.

Fjárl., sem nú er fjallað um, eru mjög yfirgripsmikil og hv. fjvn. vannst ekki tími til að bera fram till. um nokkra þætti fjárlagafrv. fyrr en nú við 3. umr. Þannig er því farið um fjárveitingar til fyrirhleðslna. Það var fyrst á fundi í gær, að því þskj. var útbýtt, þar sem sundurliðun á þessum fjárveitingum liggur fyrir. Það mun mörgum finnast, að þær fjárveitingar séu of smáar, miðað við þau verkefni, sem leysa þarf af hendi í þessu efni, en út í það ætla ég ekki að fara. Ég veit, að hv. fjvn. hefur gert sitt bezta að taka tillit til þeirra erinda, sem fyrir henni lágu og hefur reynt að gæta þar jafnræðis, eftir því sem kostur var á. En við að athuga þessar till. þá virðist okkur flm. brtt. á þskj. 196, að það hafi fallið niður liður, sem við teljum mjög nauðsynlegt, að komi inn í þennan kafla um fyrirhleðslur. Það er fyrirhleðsla við Skarðsá í Breiðdal. Þetta er ekki stórt verk, en þó þess eðlis, að dómi okkar flm. þessarar till., að full þörf er á, að það verði unnið á næsta ári. Þeir, sem þarna eiga hlut að máli heima í héraði, fóru þess á leit við okkur þm. Austf., að fjárveiting yrði tekin upp í þessu skyni í fjárl. ársins 1969, en það erindi barst okkur þá mjög seint í hendur og hafði það áhrif á, að það tókst ekki að taka þetta upp í fjárlög þessa árs. Þó að þessi liður hafi ekki komið inn í fyrirhleðslukaflann í till. fjvn., þá viljum við vænta þess, að þessi litla till. okkar mæti góðum skilningi hér við lokaafgreiðslu málsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál.