16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 580, hefur n. orðið sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. svo langt sem það nær, en við þrír nm., fulltrúar Framsfl. í n. og ég, skrifum þó undir nál. með fyrirvara, það sem sá fyrirvari merkir er í stuttu máli það, að við teljum, að nauðsyn beri til, að þegar nú er loks farið af stað til þess að endurnýja togaraflotann, þá sé ríkisstj. heimilað að láta smíða fleiri skip og af fleiri stærðum en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það sætir vissulega nokkrum tíðindum fyrir okkur, sem nú í áratug a.m.k. höfum barizt fyrir því eftir föngum, að hafizt verði handa um endurnýjun togaraflotans miðað við nútímaskip í þeim efnum. Það má segja, að það séu um það bil 10 ár síðan slík barátta hófst fyrir alvöru. Mér er ákaflega vel kunnugt um það, að uppi hafa verið hafðar þær röksemdir gegn því, að togaraflotinn yrði endurnýjaður, að ekki hafi verið rekstrargrundvöllur fyrir togara og ekki áhugi á því hjá einstaklingum, útgerðarfélögum eða bæjarútgerðum að kaupa skip. Það má segja, að þetta hafi verið rétt, svo langt sem það nær, að þannig hafi verið að útgerðinni búið, að þessi áhugi hafi ekki verið ýkjamikill. En það er í sjálfu sér ekki neitt nýtt, þó að ríkið verði að hafa forgöngu um endurnýjun togaraflotans. Margir minnast þess, að því var einnig svo háttað eftir lok síðustu heimsstyrjaldar, þegar við sátum uppi með gamla og úrelta togara og þeim hafði enn fremur fækkað mjög, þá virtist ekki vera um skeið, þegar stríðinu lauk, sérlega mikill áhugi hjá einstaklingum eða jafnvel bæjarfélögum eða geta til þess að hefjast handa. Það var í rauninni ekki fyrr en Alþ. og ríkisvaldið hófst handa og ákvað að kaupa mikið af nýjum skipum, að áhuginn kom í ljós hjá þeim, sem síðar keyptu skipin.

Það verður einnig að segjast, að það hefur ekki verið gert mikið af ríkisins hálfu á undanförnum árum til þess að búa þannig að togaraútgerð, að það væri sérstaklega þægilegt fyrir einstaklinga eða bæjar- og sveitarfélög ellegar þá félagsútgerðir að endurnýja togaraflotann eða kaupa ný skip. Það hefur svo sem ekki alltaf verið sérstaklega mulið undir togaraútgerðina af hálfu hins opinbera.

Ég skal ekki fara langt út í þá sálma að nefna atriði í sambandi við þetta, sem þó skiptir verulegu máli. Allir vita, að útfærsla landhelginnar hafði á sínum tíma mjög veruleg neikvæð áhrif á útgerð togara. Sú útfærsla var af öllum talin nauðsyn, þótt síðar hafi verið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort ekki væri fært að heimila togurum takmörkuð og tímabundin afnot af hinni íslenzku fiskveiðilandhelgi. En það var ekki aðeins þannig, að togararnir yrðu að búa við skert fiskimið, heldur var það þannig um nokkuð langt skeið, ég hygg árin 1951–1957, að þeim báðum meðtöldum, að þá gilti hér lægra fiskverð fyrir fisk úr togurum en fyrir fisk úr öðrum skipum. Þetta nam mjög miklum upphæðum á þeirra tíma mælikvarða og mundi, að því er reiknað hefur verið út, nema svo sem eins og einum milljarði kr. eða rúmlega það þessi mismunur, sem umreiknað væri í það gengi, sem við búum við í dag. Þá má aðeins geta þess, að útflutningsgjöld þau, sem þessir fáu togarar, sem nú er haldið úti, verða að greiða, nema á þessu ári, að því er talið er, 37 millj. umfram það, sem rennur aftur til togaranna af þessum lið. Í fyrra var svo bætt við nýjum pinkli, að vísu ekki stórum, þar sem er um að ræða skattgjald á afla togaranna og útgerð þeirra til greiðslu á fæðiskostnaði bátasjómanna. Þessi pinkill nemur 10–12 millj. á ári. Ég vil aðeins geta þessa í sambandi við það, sem hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðh. við 1. umr. þessa máls, og oftar, bæði fyrr og síðar, að grundvöllur til þess að kaupa nýja togara og reka þá, hafi ekki verið fyrir hendi. Það er margt, sem því veldur og þar á meðal og e.t.v. ekki sízt verðbólguástandið og viðreisnarstefnan og svo þessi stefna að leggja hina og þessa pinkla á útgerðina.

Við, sem höfum skrifað undir nál. með fyrirvara, flytjum tvær brtt. við þetta frv., og um þær vil ég nú fara nokkrum orðum.

Við 1. umr. þessa máls kom í ljós, að enda þótt ekki sé í sjálfu frv. eða einstökum greinum þess neinu slegið föstu um stærðir eða gerðir þeirra skuttogara sex, sem ætlunin er að heimila ríkisstj. að láta smíða samkv. frv., þá er skýrt frá því í grg., að hér sé átt við skip af stærðinni um 59 metra löng, en þar mun vera um að ræða eitthvað nálægt 1100 tonna skip. Það er einnig upplýst, að þessi stærð skipa og þessi fjöldi skipa, sex, er hvort tveggja við það miðað, að áhugi virðist vera vaknaður fyrir því að fá keypt fjögur skip af þessari gerð hingað til Reykjavíkur, eitt skip til Hafnarfjarðar og eitt til Akureyrar. En jafnframt er upplýst, að ýmsir aðrir útgerðarstaðir á landinu og þá alveg sérstaklega nokkrir staðir á Norður- og Austurlandi hafa sýnt verulegan áhuga á því að eignast skuttogara, en þá gjarnan minni skip en þau 1100 tonna skip, sem um ræðir í þessu frv. Það er engan veginn algerlega nýtt af nálinni, að þessi áhugi sé fyrir hendi. Ég hygg, að á sumum stöðum hafi undirbúningur að því að eignast skuttogara af 400–500 tonna stærð hafizt fyrir alllöngu, jafnvel einu eða tveimur árum. En það er upplýst, að í þessu frv. er alls ekki gert ráð fyrir því að mæta óskum þessara aðila né annarra, sem kynnu að vilja eignast skip af einhverjum öðrum stærðum en þessi 1000–1100 tonna skip, sem við er miðað í sambandi við heimildina til að smíða þessa sex skuttogara.

Hæstv. sjútvrh. kom á fund sjútvn. í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og þar var hann inntur eftir því, hvað ríkisstj. hefði ákveðið að gera eða hygðist gera til þess að mæta óskum þessara aðila á Norður- og Austurlandi og að ég hygg einnig aðila á Vesturlandi, sem hafa sýnt áhuga á öðrum stærðum skuttogara en hér um ræðir. Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að engin endanleg ákvörðun hefði verið tekin um það, hvort þessir aðilar fengju einhverja fyrirgreiðslu eða hver sú fyrirgreiðsla yrði, en lét þau orð falla, sem hv. frsm. n. viðhafði hér einnig, að á þær málaleitanir yrði litið með velvilja. Hæstv. ráðh. gat þess, að fyrir lægi fjárhagsáætlun um rekstur þessara 1000–1100 tonna skipa, en engin rekstraráætlun, að því er mér skildist, um skip af öðrum stærðum. Ég hygg nú að vísu, að ýmsir þeir aðilar, sem áhuga hafa á slíkum skipakaupum, hafi gert rekstraráætlanir, en það, sem ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi átt við, er það, að trúnaðarmenn ríkisstj. hafa ekki einhverra hluta vegna gert enn þá rekstraráætlanir varðandi önnur skip en þessi 1100 tonna, en hitt virðist bíða einhverra hluta vegna, hverjar sem ástæðurnar eru.

Ég tel ástæðu til þess að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvrh., hvort hann við þessar umr. eða við meðferð málsins, áður en það fer út úr Alþ. nú, telur sér fært að gefa um það yfirlýsingu fyrir ríkisstj. hönd, að ef svo færi, þegar fjárhagsáætlun um til að mynda 400–500 tonna skip eða skip af minni gerðum en þessi 1100 tonna, lægi fyrir og sýndi ekki lakari rekstrarmöguleika en fjárhagsáætlunin í sambandi við 1100 tonna skipin, þá fengju hin minni skip ekki lakari fyrirgreiðslu af opinberri hálfu en þessi 1100 tonna skip, sem frv. beinist að. Ég teldi það miklu máli skipta, ef hæstv. ríkisstj. fengist til að gefa einhverja slíka viljayfirlýsingu, að hún mundi beita sér fyrir þessu, ef þetta kæmi í ljós, þegar rekstraráætlunin lægi fyrir, sem vonandi þarf ekki að taka allt of langan tíma. Þetta mundi að mínum dómi og okkar, sem skrifum undir nál. með fyrirvara, opna möguleika fyrir því að flýta fyrir því, að slík skip af öðrum stærðum yrðu keypt til landsins, en á því teljum við mikla þörf.

Að vísu teljum við, að allra einfaldast og eðlilegast væri, að hv. Alþ. samþykkti fyrri brtt. okkar, sem einmitt opnar þennan möguleika, samþykkti að heimila ríkisstj. að láta smíða allt að 12 skip og þá væri stærðin ekki bundin í frv. fremur en nú, en þarna væri um að ræða eða gæti verið um að ræða allt niður í 400–500 tonna skip, þó að einnig kæmi til mála einhver millistærð, ef það sýndist ráðlegast, eins og jafnvel sumir virðast telja, að kæmi mjög til greina, að hentaði á ákveðnum stöðum, e.t.v. 700–800 tonna skip.

Síðari brtt. okkar á þskj. 581 er á þá lund, að það lán, 7.5% af byggingarverði skipanna, breytist úr þessu dálítið óvenjulega láni, sem ekki á að greiða fyrr en allar aðrar skuldir skipanna eru greiddar, breytist í hlutafjárframlag. Við teljum, að þetta sé í alla staði eðlilegri og viðfelldnari aðferð en þetta framlag, sem kallað er lán að vísu, en getur varla miðað við okkar miklu áhættuútgerð kallast annað en framlag eða styrkur. Við teljum þetta sem sagt skemmtilegri og viðfelldnari aðferð, og það gefur líka hinu opinbera nokkur tækifæri til þess að fylgjast með rekstri þessara skipa, sem óneitanlega njóta mjög mikilvægrar fyrirgreiðslu, þótt ég sé sízt að telja hana eftir. Það gæti einnig að því leyti til orðið íslenzkri togaraútgerð lyftistöng, að það mundi væntanlega geta aukið skilning hins opinbera eða þeirra aðila, sem fara með þessi mál af opinberri hálfu, á vandamálum þeim, sem togaraútgerðin og sjávarútvegurinn eiga við að glíma hverju sinni.

Jafnframt höfum við talið rétt að gera þarna á þá breytingu, að um aukinn stuðning geti verið að ræða, eða 10%, þegar um bæjarútgerðir eða útgerðarfélög, sem bæjar- og sveitarfélög standa að, er að ræða. Þarna gæti hvort tveggja komið til greina, bein eignarhlutdeild, sameignarhluteign með bæjarfélögum eða þá hlutafélögum, þar sem bæði bæir eða viðkomandi sveitarfélög, ríkið og einstaklingar eru hluthafar. Ég legg áherzlu á það, að við, sem að þessum brtt. stöndum, teljum, að ríkið verði að koma til móts við óskir þeirra bæjar- og sveitarfélaga, sem hafa sýnt eða sýna á næstunni áhuga á togaraútgerð og vilja með því móti taka þátt í þeirri nauðsynlegu endurnýjun togaraflotans, sem allt of lengi hefur beðið. Við teljum, að við verðum í þessu efni að vera nokkuð stórtækir vegna þess, hve langur tími hefur liðið án þess, að neitt hafi verið gert í þessum efnum.

Ég skal á það benda, að verði fyrri brtt. okkar samþ., þ.e.a.s. að veita heimild til þess að smíða allt að 12 skuttogara, þá leiðir af henni, að fyrirsögn frv. verður að breyta í samræmi við það, þar sem í stað sex skuttogara kæmi þá kaups á 12 skuttogurum.

Ég skal aðeins nefna það, að í sambandi við afgreiðslu þessa máls hefur verið rætt nokkuð um áhuga þeirra aðila, sem hafa stofnað hlutafélag til kaupa á verksmiðjutogara eða stórum togara, 2700 tonna. Þar er um að ræða ýmsa áhugamenn um sjávarútvegsmál, fyrrv. skipstjóra og frammámenn í Farmanna- og fiskimannasambandi. Fyrir forgöngu þessara aðila hefur verið stofnað hlutafélagið Úthaf, og það hefur nú snúið sér til þingflokkanna um fyrirgreiðslu í sambandi við hugmyndir um kaup á slíku verksmiðjuskipi. Við lítum þannig á, sem undir þetta frv. skrifum með fyrirvara, að það sé ekki rétt að blanda hugsanlegum stuðningi við Úthaf hf. eða hugsanlegri aðild ríkisins að kaupum á verksmiðjutogara saman við þetta mál, sem hér er um að ræða. En við viljum láta það koma skýrt fram, að við erum jákvæðir í því máli að því leyti, að við teljum ástæðu til, að það verði kannað nákvæmlega, hvort ríkið gerist ekki á einhvern hátt aðili að kaupum á einum slíkum togara í tilraunaskyni, og teljum, að það mál eigi að taka upp sérstaklega.

Að síðustu vil ég aðeins segja þetta: Við erum orðnir ákaflega seinir, að því er tekur til endurnýjunar togaraflotans, og við megum þess vegna ekki vera allt of smátækir, þegar við loksins hefjumst handa. Skipin, sem nú verða á næstu vikum eða mánuðum gerðir samningar um, eru ekki strax komin í gagnið. Það tekur eitt og hálft til tvö ár að smíða hvern togara, þannig að jafnvel þau skip, sem samið kynni að verða um nú á næstu vikum, koma ekki í gagnið fyrr en í allra fyrsta lagi í árslok 1971, en þó sennilega ekki fyrr en snemma árs 1972. Enn fremur legg ég enn áherzlu á það, sem ég hef nú reynt að færa nokkur rök að, að ekki hentar öllum, hvar sem er á landinu, sama skipastærðin, og okkur er nauðsyn á því að fá reynslu af fleiri en einni stærð og gerð togskipa. Þessir staðir úti á landi, sem hafa með vaxandi áhuga verið að undirbúa kaup á hinum minni togurum, eru margir þannig settir, að þar eru til stór hraðfrystihús og þar er til staðar fólk, sem á vissum árstímum a.m.k. skortir atvinnu, en hráefni er af skornum skammti. Og það mælir allt með því, að það sé ekki aðeins réttmætt að líta með velvilja á erindi þessara aðila, heldur sé nauðsynlegt að rétta þeim alla þá hjálparhönd, sem framast er unnt.

Ég get í sjálfu sér ekki séð, hverjar ástæður hæstv. ríkisstj. eða hæstv. sjútvrh. gæti haft gegn því að fá þá heimild, sem um getur og um er að ræða í fyrri brtt. okkar á þskj. 581. Hér er vissulega orðalagið á þá lund, að hér sé um heimild að ræða, og það er frá mínu sjónarmiði alveg tvímælalaust, að sé hæstv. ríkisstj. verulega alvara með að vilja styðja útgerðarstaðina úti á landi, þá ber henni nú að gera annað tveggja, að fallast á þessa brtt. okkar, fá þar með heimildina í lög, ellegar þá að gefa yfirlýsingu eitthvað í þá átt, sem ég var að spyrja um áðan.

Það liggur fyrir, að hæstv. sjútvrh. segir, að þetta mál með hin minni skip og útgerðarstaðina, sem ég hef margoft vikið að úti á landi, sé ekki enn nægilega kannað af hálfu trúnaðarmanna ríkisstj., það sé ekki eins vel kannað og 59 metra skipin. Hæstv. ráðh. segir, að þetta mál verði kannað og það verði litið á þetta mál með velvilja. Nú geta niðurstöður könnunar og niðurstöður fjárhags- eða rekstraráætlunar sýnt tvennt: annars vegar það, að æskilegt sé að láta smíða skip af þessum stærðum. Ef það verður niðurstaðan, er þá ekki bezt að hafa heimildina í lögum og geta notað hana, eftir því sem reynslan eða könnunin sýna að rétt sé og ástæða sé til? Í öðru lagi gæti niðurstaða könnunarinnar orðið á þá lund, að ekki sé grundvöllur fyrir því að kaupa skip af þessum stærðum. Þá er það vitanlega algerlega í höndum hæstv. ríkisstj. að nota ekki þessa heimild til þess að kaupa þá fleiri togara en þá sex, sem hún virðist þegar vera ákveðin í að láta smíða.

Ég vil biðja hv. alþm. og hæstv. ráðh. að hugsa sig nú vel um, áður en felld verður till. okkar þremenninganna um þessa heimild til handa ríkisstj. að láta smíða allt að 12 skuttogara af mismunandi stærðum. Ég sé ekki hættuna af því að samþykkja slíka heimild. Annaðhvort leiðir niðurstaðan í ljós, að rétt sé að nota hana að fullu, ellegar þá að niðurstaðan leiðir það í ljós, að það sé ekki rétt, og þá lætur ríkisstj. það ógert og skýrir frá sínum sjónarmiðum og viðhorfum, þegar þau liggja ljóst fyrir. En ég óttast, að verði þetta frv. afgr. óbreytt, eins og hv. meiri hl. sjútvn. leggur til, þá heimili það aðeins kaup eða smíði sex togara allra af sömu stærð, og þá frestast það sennilega um hálft til eitt ár hið minnsta, að eitthvað meira verði gert í þessum togarakaupamálum, sem svo mikil nauðsyn er á að okkar dómi að verði nú staðið nokkuð myndarlega að að bæta úr vanrækslu undanfarinna ára. Ég tel algerlega ástæðulaust, að Alþ. skilji þannig við þetta mál, að slíkur frestur gæti verið yfirvofandi. Þess vegna tel ég eðlilegt, að hv. Alþ. samþykki brtt. okkar þremenninganna á þskj. 581.