16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. sjútvrh. telur sig ekki hafa umboð og hefur vafalaust ekki umboð frá ríkisstj. til þess að gefa slíka yfirlýsingu, er ég innti hér eftir. Hann svaraði því hins vegar ekki, hvers vegna hann og hæstv. ríkisstj. gætu ekki við það unað að fá hina rýmkuðu heimild og hafa það að sjálfsögðu, þar sem um heimildarákvæði er að ræða, í hendi sér, á hvern hátt sú heimild yrði veitt.

En það, sem kom mér til þess að standa hér upp, voru aðallega nokkur ummæli hv. síðasta ræðumanns, 7. landsk. Mér líkaði satt að segja heldur illa upphafið á ræðu hans, en hún fór nú vel batnandi, eftir því sem á leið, og var orðin ágæt í lokin. Hann hóf mál sitt eiginlega á því, að hann ætlaði að færa rök að því, að þetta hefði nú allt, sem við teljum hafa miður farið, orðið okkur til góðs, vegna þess að ef við hefðum slysazt til þess á undanförnum 10 árum að hefja endurnýjun togaraflotans, þá væru þau skip orðin úrelt í dag. Ég vil nú aðeins segja í sambandi við þessa röksemdafærslu, að mér er að vísu fullkunnugt um það, að þarna gerist stórbreyting og raunar má kannske kalla það byltingu í togaraútgerð, þegar það tekst raunverulega að veiða fisk, svo að öruggt sé, með flotvörpu. En ég vil hins vegar almennt segja það, að tækniframfarir á flestum sviðum eru svo örar, að ef við ættum að lifa eftir þeirri kenningu, að t.a.m. fiskiskip geti orðið gamaldags eða kallazt gamaldags eftir eitt, tvö eða fimm ár, þá gætum við aldrei endurnýjað flotann, því að framfarirnar verða árlega, meiri og minni að vísu. Ég vil aðeins í því sambandi benda á það, að við erum að tala um þessi 20 og 22 ára gömlu skip, þessa togara, sem bæði ég og aðrir erum að staglast á, að séu orðnir gamlir og úreltir, og þeir eru það. En hvað gera ekki þessir togarar undanfarna mánuði og jafnvel undanfarin ár? Ég var að tala við togarasjómann fyrir þremur dögum. Hann er að vísu ekki á neinu af þessum elztu skipum, heldur einum af þessum 10 ára togurum. Þeir voru úti núna, þeir voru á veiðum í 8 daga. Þeir komu með 400 tonn af fiski eftir 8 daga, dekkið allt hvítt af fiski. Þetta eru nú úreltu skipin að vísu, en þó hafa þau þessa möguleika. Það eru þess vegna engin rök fyrir því, þó tækniframfarir verði, hafi orðið og verði vafalaust framvegis, að það sé hægt að bíða eftir þeim. Það verður að endurnýja flotann og miða við hina beztu og fullkomnustu tækni á hverjum tíma.

Hv. 7. landsk. þm. kom inn á það í lok ræðu sinnar, að það væri mjög æskilegt, að tvö af þessum sex skipum, sem frv. gerir nú ráð fyrir, verði smíðuð innanlands, ef möguleikar eru á því. Ég tel það einnig mjög æskilegt, að þetta verði athugað. En í þessu sambandi vil ég þó leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að enn þá tiltækilegra ætti þó að verða að tryggja það, þó að til þess þurfi ýmsar fjárhagslegar ráðstafanir, það að 400–500 tonna skipin, sem ég hef hér sérstaklega mælt fyrir, eða önnur skip, minni en 1100 tonna skipin, yrðu smíðuð hér innanlands, og ég held, að nokkur undirbúningur sé í sambandi við það. Þess vegna vil ég vænta þess, að hann geti að athuguðu máli fallizt á að opna í þessu frv. möguleika fyrir því, að 400–500 tonna skipin verði einnig keypt, og þess verði þá freistað a.m.k. að byggja þau eða einhver þeirra innanlands. En ég mun síður en svo draga úr því, að jafnframt verði allir möguleikar athugaðir í sambandi við það, hvort hægt væri að smíða, eins og hann nefndi, svo sem eins og tvö af þessum stærri skipum hér innanlands og fá þar með samanburð bæði um kostnað og gæði.