25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um kaup á sex skuttogurum á þskj. 501. N. hefur klofnað um afstöðu sína til málsins, og tala ég hér eingöngu fyrir hönd meiri hl. n., þegar ég mæli með því, að frv. verði samþ., eins og það liggur fyrir. Hins vegar hygg ég, að mér sé óhætt að segja, að þrátt fyrir það að n. varð ekki sammála um að mæla með frv., þá séu aðrir nm., þeir sem minni hl. n. skipa, ekki andvígir frv. svo langt sem það nær, heldur vilji þeir freista þess að bera fram við það brtt.

Það er víst enginn ágreiningur um það, að togaraútgerð á Íslandi hefur haft mjög mikla þýðingu fyrir uppbyggingu þessa lands og þá ekki sízt fyrir uppbyggingu stærstu kaupstaðanna á landinu hér við Faxaflóa. Togaraútgerðin er því afar mikilvæg fyrir þjóðarbúið, og þótt svo hafi gengið um nokkuð langt skeið, að togaraflotinn hafi ekki verið endurnýjaður, þá hefur það ekki verið af því, að mönnum hafi ekki verið ljós þessi mikla þýðing togaraútgerðarinnar. Hins vegar hefur ýmislegt valdið því, að afkoma togaraútgerðarinnar hefur verið mjög erfið, og þess vegna hefur ekki um nokkurt skeið verið verulegur áhugi á því, að auka togaraútgerðina eða endurnýja togaraflotann. Þvert á móti hefur togaraflotinn minnkað úr rúmlega 50 skipum niður í um 20 skip, eins og hann er núna, og þau 20 togskip, sem nú stunda veiðar, eru mörg hver orðin nokkuð við aldur. Þess vegna er ljóst, að þótt það átak verði gert, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þarf enn að gera betur að því er varðar endurnýjun togaraflotans. Það hefur, sem betur fer, glæðzt mjög afli hjá togurunum á þessu og s.l. ári, og hygg ég, að afkoma þeirra sé um þessar mundir mun betri en hún hefur verið um langt skeið.

Það er svo um útgerð togara eins og annarra skipa, að misjafnt er, hvaða stærðir og gerðir skipa menn vilja nota. Menn hafa misjafnar skoðanir á því, og þótt niðurstaðan af þeim undirbúningi, sem þetta frv. hefur hlotið, hafi verið sú, að ríkisstj. vildi greiða fyrir smíði á sex 1000 lesta skuttogurum, þá hafa ýmsir aðilar í landinu áhuga á útgerð togskipa af annarri stærð. Hef ég þá í huga, að það mun hafa komið fram áhugi a.m.k. á fimm stöðum á landinu fyrir kaupum á minni togskipum, þ.e.a.s. 500–600 tonna skipum. Athugun á smíðiskostnaði þeirra skipa og rekstrargrundvelli, sem þau kunna að hafa, er enn mjög skammt á veg komin. Þó mun það vera svo, eins og hæstv. sjútvrh. upplýsti við 1. umr. þessa máls, að Efnahagsstofnunin hefur gert nokkra athugun á þeirri hlið málsins. Þær niðurstöður, sem hún kann að hafa komizt að, munu þó ekki enn hafa verið kannaðar eða yfirfarnar, þannig að á þessu stigi málsins telja menn ekki, að unnt sé að gera ráð fyrir smíði þessara skipa í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Hins vegar hef ég orð hæstv. sjútvrh. fyrir því, og hann mælti á þá leið í Ed., þegar þetta mál var til umr. þar, að það mundi verða tekið með vinsemd og velvilja á þessu máli, þegar athugun á því og undirbúningi væri lengra komið, þótt ekki þyki að þessu sinni tiltækilegt, að tengja það því frv., sem hér er til umr.

Þeir staðir, sem mér er kunnugt um að hafa í athugun eða hafa sýnt nokkurn áhuga á kaupum skipa 500–600 tonna, eru Siglufjörður, Norðfjörður, Sauðárkrókur, Akureyri og Ísafjörður. Ég vil fyrir mitt leyti treysta því, að enda þótt þetta mál, sem ég hef gert hér að umtalsefni, verði ekki tengt afgreiðslu þessa frv., þá fái þeir staðir, sem ég nefndi, og aðrir, sem þess kynnu að óska, fyrirgreiðslu, er sé a.m.k. á borð við það, sem gert er ráð fyrir að veita samkvæmt frv. um kaup á sex 1000 tonna skuttogurum.

Það var rætt við sjútvn. beggja d. um hugsanlega fyrirgreiðslu hins opinbera við kaup á stórum úthafstogara, verksmiðjuskipi, sem yrði keypt á vegum hlutafélags, er stofnað hefur verið í þeim tilgangi. Það er ekki hljómgrunnur fyrir því hjá meiri hl. sjútvn. að mæla með því, að fyrirgreiðsla við kaup á slíku skipi verði tengd afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. telur málið ekki hafa verið kannað eða undirbúið svo sem skyldi, til þess að unnt sé á þessu stigi að taka afstöðu til þess. Hins vegar er það mín skoðun, að vel geti komið til álita um slík skip eins og minni togskip, að athuga um kaup á því, þegar málið hefur verið betur kannað en nú liggur fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða gr. frv. í einstökum atriðum. Ég vil aðeins geta þess í sambandi við 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkissjóði sé heimilt að leggja fram allt að 7.5% byggingarkostnaðar skipanna á byggingartíma þeirra, að þetta er hugsað þannig, að á sjálfum byggingartímanum greiðist 5%, en um það leyti sem skipið er að verða tilbúið á veiðar greiðist 2.5%. Með þessu fyrirkomulagi hefur mér verið tjáð, að komið hafi verið verulega til móts við óskir hugsanlegra kaupenda skipanna, því að í upphaflegum tillögum var gert ráð fyrir, að 2.5% greiddust ekki fyrr en nokkrum árum eftir að smíðinni lyki. Hins vegar er nú gert ráð fyrir, að 7.5% verði að fullu greidd, þegar skipið er tilbúið á veiðar.

Það var spurt um það í hv. sjútvn., hvernig hugsað væri að haga framkvæmd á því gengisákvæði, sem gert er ráð fyrir í síðustu málsgr. 3. gr. Ég kynnti mér þetta eftir föngum hjá þeim, sem hafa fjallað um frv. áður, og fékk þá skýringu á þessu atriði, sem ég hygg að sjútvn. sem heild geti aðhyllzt. Það mun ekki ætlazt til þess, að gengisáhættuákvæðið fylgi þeim lánum, sem um er að ræða, lengur en svo, að það hvíli á þeim, meðan þau erlendu lán, sem tekin kunna að verða, eru í umferð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, herra forseti, en mæli með því fyrir hönd meiri hl. sjútvn., eins og ég tók fram í upphafi, að frv. verði samþ. óbreytt.