22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar samningar voru gerðir í febrúarmánuði 1969 á milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna um kjör bátasjómanna, þá var það eitt af samkomulagsatriðum samningsaðila, að þeir beittu sér fyrir því, að bátasjómönnum yrði með lögum tryggð aðild að lífeyrissjóði togarasjómanna og undirmanna á farskipum.

Í samkomulagi þessu var m.a. kveðið á um iðgjaldagreiðslur sjómanna og útgerðarmanna, sem áttu að hefjast í ársbyrjun 1970. Í miðlunartill. þeim, sem sáttasemjari ríkisins lagði fram til lausnar kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum og Alþ. lögfesti skömmu síðar, voru sams konar ákvæði um lífeyrisréttindi. Til þess að hrinda áleiðis þessum samkomulagsatriðum fól hæstv. félmrh. sérstakri n. í september 1969 að semja lagafrv. um aðild bátasjómanna að lífeyrissjóði togarasjómanna. Ráðh. skipaði n. þessa með þeim hætti, sem segir í grg. frv. þess, sem hér liggur fyrir, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það nánar.

Í grg. er gerð rækileg grein fyrir því, hvernig n. þessi starfaði, og sé ég heldur ekki ástæðu til þess að fara út í það í einstökum atriðum, en í n. varð ágreiningur, sem rétt er að vekja athygli á, um tvö atriði frv. Annars vegar varð ágreiningur um heimild til stofnunar sérsjóða í einstökum byggðarlögum, og voru það sérstaklega Vestmanneyingar, sem lögðu áherzlu á, að heimild yrði til stofnunar sérsjóða, en það varð mikil andstaða gegn því hjá ýmsum aðilum í umræddri n. og þá fyrst og fremst fulltrúum sjómannasamtakanna, sem töldu æskilegast, að þessum sjóðum yrði ekki dreift, heldur yrði einn sameiginlegur sjóður. Í annan stað var einnig deilt um aðild að stjórn sjóðsins, og komu fram raddir í þá átt að breyta nokkuð skipan stjórnarinnar frá því, sem nú er, eftir að þetta væri orðinn sameiginlegur sjóður allra sjómanna. Það er einnig nákvæmlega frá því greint í grg. með frv., hvernig þessum ágreiningi var háttað og hvernig skipting nm. varð í afstöðunni til þessa ágreiningsatriðis.

Frv. er þannig orðað, að tekin var til greina skoðun meiri hl. n., sem í rauninni var álit n. allrar, þegar til úrslita dró varðandi þessi tvö ágreiningsatriði. Annars vegar er gert ráð fyrir því í frv., að ekki verði fallizt á sjónarmiðið um sérsjóði, og hins vegar er gert ráð fyrir því, að gerð verði sérstök breyting á skipan þeirrar stjórnar, sem sjóðurinn hefur, þó að fram komi, að það hafa verið nokkrar vangaveltur um það, hvað eðlilegt væri í þessu efni.

Frv. er lagt hér fram fyrir hv. þd. í því formi, sem n. gekk frá því, og álit n. er sameiginlegt, þótt hún tilgreini, að þessi ágreiningsatriði hafi komið fram.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara sérstaklega að lýsa skoðunum mínum varðandi þessi ágreiningsefni, en tel rétt, að það verði athugað í þeirri hv. n., sem málið fær til meðferðar, og þá rætt við þá nm., sem undirbjuggu málið. Ég tel það mikils virði og reyndar óumflýjanlegt, að ekki verði farið að gera neinar mikilvægar breyt. á þessu frv. nema í samráði við þá n., vegna þess, eins og ég gat um, að hér er ekki um venjulegt stjórnarfrv. að ræða eða till. ríkisstj., heldur er hér um að ræða frv., sem byggist á sérstöku samkomulagi, sem gert var í sambandi við kjaradeilur. Það skiptir því höfuðmáli, að málið verði afgr. frá þinginu í því formi, sem aðilar telja að sé í samræmi við það, sem um var samið.

Það eru að vísu vissar kvaðir, sem með þessu falla á ríkissjóð, en talið er, að þær séu litlar. Þær eru efnislega hinar sömu og komið hafa fram í sambandi við annað frv., sem hér liggur fyrir um lífeyrissjóð verkamanna. Til þess að gera mögulegt að hefja lífeyrisgreiðslur svo tímanlega sem samkomulagið gerði ráð fyrir, — en það mun ekki verða um neinar verulegar kvaðir í því efni að ræða, — tel ég ekki að af þeirri ástæðu sé frambærilegt að raska því samkomulagi, sem þarna hefur verið gert, og því sé nauðsynlegt við alla meðferð málsins að gæta þess að gera ekki á því breyt., nema gætt sé þess, að það valdi ekki nýjum vandræðum í sambandi við það samkomulag, sem gert var og frv. byggist á.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og væri mjög æskilegt, að hægt væri, svo fljótt sem auðið er, að afgreiða frv. úr n., þar sem gert er ráð fyrir, að lífeyrissjóðurinn taki nú þegar til starfa.