13.04.1970
Efri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er fyrst og fremst vegna fyrri brtt. á þskj. 539 frá hv. fjhn., sem ég kveð mér hér hljóðs í sambandi við umr. um lífeyrissjóðsmálin almennt, sem átt hafa sér stað að undanförnu, svo og þetta frv. sérstaklega. Eftir að það kom fram, þá hefur komið upp skoðanaágreiningur meðal manna um það, hvernig þessum málum ætti að skipa, og þá fyrst og fremst um það, hvort þau eigi að miða við að notfæra sér sjóði fyrir tiltekna stétt manna, sem séu þá sjóðir, sem taki til alls landsins, þ.e. allir einstaklingar í sömu atvinnustétt séu þá í þessum sjóði, sem sé eins konar landssjóður, eða hvort það eigi að byggja upp að hinu leytinu sjóði, sem bundnir séu við byggðarlögin, þar sem allar stéttir manna í viðkomandi byggðarlagi séu saman í sjóði. Þetta eru náttúrlega tvær ólíkar stefnur, og persónulega hallast ég fremur að því að hafa þetta landsskipulag á, að sama stétt manna um allt land væri þá í sama sjóði, er síðar komist svo langt, að það verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. En hvað sem um það má segja, hvort heldur menn aðhyllast þetta landsskipulag fyrir hverja stétt út af fyrir sig eða byggðarlagasjóði, þar sem margar stéttir eigi saman aðild að lífeyrissjóði, þá finnst mér, að lakast af þessu öllu sé, þegar verið er að blanda þessum tveimur kerfum saman, og það er einmitt gert hér í þessu frv., að vísu að takmörkuðu leyti, því að í niðurlagi 2. mgr. 2. gr. frv., þar sem fjallað er um bátasjómenn, segir, að ráðh. sé heimilt að ákveða, að sjómenn, sem þessi mgr. tekur til og lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum, skuli vera utan við sjóðinn, enda komi fram um það eindregnar óskir frá félögum sjómanna og útvegsmanna á þessum stöðum og forsvaranlega sé frá lífeyrissjóðsmálum hlutaðeigandi manna gengið að dómi ráðh., segir í frv. — Ég er andvígur þessu ákvæði frv. og hefði helzt viljað fella það út. En þarna má þó segja, að ráðh. sé heimilt að víkja frá því, að allir sjómenn séu í þessum landssjóði, og ráðh. sé heimilt að stíga þetta víxlspor, en hann geti líka látið þetta ógert. En í brtt. n. er gengið það lengra að minni hyggju, að ráðh. er skyldaður til að stíga þetta víxlspor, ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi, og það finnst mér stefna í öfuga átt, og þess vegna mun ég greiða atkv. á móti þessari brtt.