16.04.1970
Neðri deild: 75. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um lífeyrissjóð togarasjómanna, sem hér liggur fyrir, er til komið vegna samninga, sem gerðir voru um aðild bátasjómanna að lífeyrissjóði í sambandi við samkomulag útvegsmanna og bátasjómanna í kjaradeilu þessara aðila nú á s.l. vetri. Hér er því um staðfestingu á þessu kjarasamkomulagi að ræða, sem ríkisstj. hefur talið sér skylt að beita sér fyrir, enda hlutaðist hún til um það í framhaldi af þessu samkomulagi, að n. yrði skipuð til að undirbúa málið, og er frv. óbreytt, eins og það kom frá þessari n. Svo sem gerð er grein fyrir í grg. frv. voru nokkur ágreiningsatriði í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi það, hvort rétt væri að bátasjómenn fengju aðild að lífeyrissjóði togarasjómanna. Niðurstaðan varð sú hjá sjómannasamtökunum, að það væri rétt að hafa þessa tilhögun á, og byggist frv. á því. Í öðru lagi komu fram óskir um, að heimilt yrði að stofna sérsjóði, en frv. byggist á því, að allir sjómenn verði aðilar að þessum eina sjóði, lífeyrissjóði togarasjómanna. Þetta stafaði m.a. af því, að á einstaka stöðum, og mun það fyrst og fremst hafa verið í Vestmannaeyjum, var það komið langleiðis að byggja upp sjóði með nokkuð víðtækara hætti, þ.e.a.s. sem bæði útvegsmenn og sjómenn voru aðilar að. Vestmanneyingar hafa lagt á það mikið kapp, að það yrði veittur réttur til þess að hafa sérsjóði starfandi í einstökum byggðarlögum.

Þegar n. gekk frá frv. til ríkisstj. þá varð hins vegar niðurstaðan sú að taka ekki tillit til þessara óska, heldur halda fast við það, að það yrði einn sjóður, sem allir sjómenn yrðu aðilar að.

Í Ed. var hins vegar gerð breyt. á frv., einmitt í sambandi við þetta atriði, á þann veg, að samþ. var, að ráðh. skyldi ákveða þá, að þeir sjómenn, sem lögskráðir væru í tilteknu byggðarlagi eða landshluta, geti verið utan við sjóðinn, ef fram koma um það óskir frá félögum sjómanna og útvegsmanna á þessum stöðum, enda sé þá forsvaranlega frá lífeyrismálum hlutaðeigandi manna gengið, eins og það er orðað í brtt., sem samþ. var. Með þessari breyt. er opnuð leið til þess, að það sé heimilt í þessum einstöku byggðarlögum að hafa sérsjóði. Ég sá ekki ástæðu til þess að hafa á móti því, að þessi breyt. yrði gerð, enda stóð öll n. að henni, og með hliðsjón af þeim gögnum, sem til n. komu, og óskum jafnvel úr fleiri landshlutum, að þetta yrði haft opið, þá þótti rétt að gera þessa breyt. En mér þykir skylt að gera hv. Nd. grein fyrir því, að þessi breyt. var einmitt gerð á frv. í Ed. frá því, að það var lagt fyrir þá d.

Í annan stað var gerð breyt. á 6. gr. Þar var upphaflega lagt til, að ekki mætti lögskrá á skip, nema því aðeins að iðgjöld til þessa sjóðs væru greidd. Við nánari athugun kom í ljós, að þetta var raunar ekki framkvæmanlegt og gat leitt til stórfelldra vandræða, ef skipaskráningarstjóri á hverjum stað ætti að fara að kynna sér það, áður en hann skráir á skip, hvort búið væri að greiða þessi iðgjöld. Það gerist oft með mikilli skyndingu að skráð er á skip, og gæti slíkt valdið miklum erfiðleikum. Það er útilokað að leggja þessa kvöð á skráningarstjóra. Þess vegna var sú breyt. gerð í Ed. á þessu ákvæði, að heimilt er að stöðva skráningu á skip, eins og lagt er til í gr., en þó því aðeins, að krafa komi fram um það frá lífeyrissjóði, að ekki mætti skrá á skipið vegna vanskila. Þetta er í samræmi við það, sem eðlilegt verður að teljast í þessu sambandi, að sjóðurinn hafi gert um þetta kröfu til skráningarstjóra. Þá er auðvitað sjálfsagt að verða við þeirri ósk, svo sem er um innheimtu opinberra gjalda og um aðrar sambærilegar kröfur, þegar þær eru fram bornar, og sýnist mér, að það sé vel hægt að framkvæma gr., án þess að þessi breyt. valdi vandræðum.

Þetta eru þær tvær breyt., sem í frv. voru gerðar í hv. Ed.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að rekja í einstökum atriðum efni frv. Það er, eins og ég gat um, til komið vegna samkomulags í sambandi við kjarasamninga, og kom ekki fram í Ed. nein gagnrýni á þau atriði, nema af eðlilegum ástæðum það, sem ég gat um áðan, vegna þess að um það varð ágreiningur, og ég hygg því, að vel megi standa að frv. með þeim hætti, sem það nú liggur fyrir.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.