09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa yfir fylgi mínu við þá meginstefnu, sem fram kemur í þessu frv., og Framsfl. mun fyrir sitt leyti stuðla að því, að þetta mál fái greiða afgreiðslu.

Það liggur í augum uppi, að ef það gagn á að verða að EFTA-aðild, sem margir gera sér vonir um, þá er óhjákvæmilegt að gera margvíslegar ráðstafanir. Einn þáttur í þeim ráðstöfunum er einmitt stofnun útflutningslánasjóðs. Það hefði raunar þurft að koma slíkri stofnun á fót alveg án tillits til EFTA-aðildar, og reyndar hefði fyrir löngu átt að vera búið að stofna til sjóðs, sem bætti samkeppnisaðstöðu innlends iðnaðar við innfluttar vörur, svo sem gert er ráð fyrir í þessu frv., því að það er auðsætt mál, að hann hefur að ýmsu leyti búið við ójafna samkeppnisaðstöðu, þegar erlendir aðilar hafa getað boðið svo og svo langan gjaldfrest vegna tækja, sem keypt hafa verið inn erlendis frá. En hliðstæðir innlendir framleiðendur hafa hins vegar ekki hingað til átt kost á þvílíkum lánum. En það er auðvitað augljóst mál, að EFTA-aðildin knýr á í þessu efni, og ég tek algerlega undir þau orð hæstv. viðskmrh., að hvaða afstöðu svo sem menn hafa haft til EFTA-málsins á sinni tíð, þá hlýtur það að vera nú mark og mið allra, þegar þeir standa andspænis þeirri staðreynd, að Ísland er orðið aðili að EFTA, að þátttakan megi verða íslenzku atvinnulífi að sem mestu gagni. Og þess vegna er auðvitað sjálfsagt að stuðla að þeim ráðstöfunum, sem nauðsynlegt er að gera í því skyni. Við framsóknarmenn bentum á það í sambandi við spurninguna um EFTA-aðildina og höfum margsinnis bent á síðan og reyndar áður ýmsar ráðstafanir, sem við hefðum talið, að nauðsynlegt væri að gera. Við höfum átt og munum sjálfsagt eiga frumkvæðið að þeim ýmsum, en að sjálfsögðu munum við fylgja þeim ráðstöfunum, sem koma frá öðrum og ganga í sömu átt og við höfum hugsað okkur, að nauðsynlegt væri.

Þetta vildi ég aðeins leyfa mér að segja strax á þessu stigi um þetta frv. í heild. Það er hins vegar spurning, sem getur komið til álita, hvort það er nógu langt gengið í þessu frv. Það er óneitanlega talsverð takmörkun, sem felst í 2. gr. frv., ef hún er bókstaflega skilin, þar sem þar er aðeins um að ræða að veita lán vegna útflutnings meiri háttar véla, tækja og þ. á m. skipa og annarra fjárfestingarvara. Ég skil það svo, að þetta „meiri háttar“ eigi við þetta allt. Það getur máske verið eðlileg takmörkun, en þó sýnist mér, að það geti verið álitamál, hvað sé meiri háttar, og það geti verið svo, að það geti verið réttmætt að fara inn á ýmsar brautir í þessu efni, og að það sé engan veginn útilokað, að hér geti komið til greina líka ýmiss konar smávarningur, sem Íslendingar af einhverjum ástæðum gætu hugsanlega orðið samkeppnisfærir um með þvílíkri fyrirgreiðslu sem þessari. Á það bendi ég aðeins.

Það er nú sjálfsagt form, sem ekki skiptir máli, að þarna er aðeins talað um heimild, að heimilt sé að stofna þennan sjóð. En það liggur að sjálfsögðu fyrir og þarf sjálfsagt ekki að draga það í efa, að það er meiningin að gera þetta, og þess vegna er nú þetta aðeins orðalag.

Það er gert þarna ráð fyrir tilteknum stofnaðilum. Maður gæti spurt í því sambandi, hvers vegna t.d. Útvegsbankinn er ekki þarna með, en mér skilst, að hann hafi verið nokkur viðskiptabanki iðnaðar, og reyndar býst ég við, að því sé þannig háttað um aðra banka. Auðvitað má fljótt á litið segja, að í þessu felist frekar kvöð fyrir lánastofnanirnar, sem þær kannske vilji vera undanþegnar. Og auðvitað er það svo. Þó er það nú þannig, að ég býst við, að hugsanlegt sé, að viðskipti geti skapazt í sambandi við svona mál og það sé ekki óeðlilegt, að þeir, sem hafa með að gera sem viðskiptaaðila þau fyrirtæki, sem leita á þessar slóðir, vilji hafa þarna einhverja aðild að. Ég bendi aðeins á þetta. Þetta hefur trúlega verið athugað og þetta þá sennilega af því sprottið, að það hafi ekki aðrir aðilar viljað vera með í þessu en þeir, sem taldir eru. En það væri fróðlegt að fá það upplýst. Þarna er gert ráð fyrir allháu framlagi allra þessara aðila, en mér sýnist ekkert því til fyrirstöðu, að það geti verið fleiri stofnaðilar og reyndar tekið þátt í þessu síðar, þó að framlag þeirra sé ekki nákvæmlega þetta, sem þarna er tilskilið. Ég sé ekki, að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu, að framlag aðila að þessum sjóði væri mismunandi eftir getu hvers og eins.

Þá bendi ég aðeins á það, að í 4. gr. frv. segir aðeins, að um stjórn sjóðsins og rekstur fari eftir stofnsamningi. Það er sem sagt ekkert í þessu um stjórn sjóðsins. Þetta er nú heldur fátæklegt, þó að segja megi, að það sé eðlilegt, að þessir stofnaðilar eigi þarna aðild að, og vafalaust er gert ráð fyrir því að endurtaka þau ákvæði í reglugerð, og sennilega liggur það fyrir, eða mér þykir það líklegt, hvernig menn hugsa sér stjórn sjóðsins. En það er þó nokkurt atriði að hafa það klárt, m.a. vegna þess, að gert er ráð fyrir því, að aðrir aðilar geti komið til síðar samkv. samningum við stjórn sjóðsins. T.d. verður mér strax spurn um það, hvort stjórn sjóðsins verði eingöngu skipuð frá þessum aðilum eða hvort ríkisvaldið ætti ekki beint að hafa hönd í bagga með þessu. Ég býst við því, að þetta hafi menn gert sér ljóst, og ég hefði talið, að það hefði engu spillt að taka þetta fram í frv., hvernig stjórnin ætti að vera skipuð.

Það er auðséð á þessu frv. eða því fskj., sem með því fylgir, að þetta frv. er í raun og veru samið í Seðlabankanum, þar sem koma fram ýmis atriði í því skjali, sem í frv. eru tekin, og það er raunar nákvæmlega sniðið eftir því, sem frá Seðlabankanum kemur. Ekki hef ég nú á móti Seðlabankanum og þeim ágætu mönnum, sem þar eru, og ekki finnst mér óeðlilegt, að ráða Seðlabankans sé leitað í þessu sambandi, en ég hefði talið eðlilegt, að það hefði verið haft samráð við fleiri aðila. Það má vel vera og ég tel það sennilegt, að það hafi verið gert, en það kemur ekki fram í þessu frv., að ég held, sem ber það með sér, að þetta hafi verið borið undir t.d. iðnlánasjóð eða yfirleitt aðra aðila eða bankana, athugað t.d., hvort fleiri bankar vildu vera með í þessu, eða því um líkt. Mér skilst, að það hefði út af fyrir sig ekki verið óeðlilegt, að fleiri aðilar hefðu verið til kvaddir. Að sjálfsögðu er hægt að ganga úr skugga um þetta atriði, hvað þetta snertir. Það getur sem sagt verið, að einstök atriði í þessu frv. þurfi einhverrar athugunar við, og þá kemur það sjálfsagt til kasta þeirrar n., sem fær frv. til meðferðar, og að sjálfsögðu er sú yfirlýsing, sem ég gaf um fylgi við frv., með þeim fyrirvara, að einstök atriði geta komið til athugunar.