09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. 1. þm. Norðurl. v., formanni Framsfl., fyrir yfirlýsingu hans um stuðning við frv., að sjálfsögðu að athuguðum ýmsum einstökum atriðum málsins, og almenna yfirlýsingu hans um, að hann og flokkur hans sé reiðubúinn til þess að stuðla að þeim hliðarráðstöfunum, ef ég mætti nota það orð, sem aðild að EFTA gerir nauðsynlegar og æskilegar að athuguðu máli, hver svo sem afstaða manna til aðildarinnar að EFTA kann að hafa verið á sínum tíma. Ég fagna þessari yfirlýsingu og mun gera mitt til þess að stuðla að því, að sem víðtækast samkomulag geti orðið hér á hinu háa Alþ. um þær ráðstafanir, sem grípa þarf til eða talið er, að grípa þurfi til hverju sinni, til þess að Íslendingum hagnýtist þeir nýju möguleikar, sem aðild að EFTA á að skapa þjóðinni í heild til heilla.

Varðandi einstök atriði, sem hv. þm. nefndi, að ekki hafi komið upplýsingar fram um í minni framsöguræðu, t.d. hvernig frv. er til orðið, þá vildi ég láta þess getið, að við samningu þess hefur verið haft fullt samráð við gjaldeyrisbankana og lánastofnanir iðnaðarins, þannig að segja má, að frv. í þeim búningi, sem það er flutt, sé flutt í samráði við gjaldeyrisbankana og lánastofnanir iðnaðarins.

Auðvitað er það rétt, sem hann sagði, að spurning er, hvort fleiri aðilar hefðu ekki átt að eiga aðild að þessum útflutningslánasjóði frá upphafi, en það þótti rétt að miða stofnaðilana við þær bankastofnanir einar, sem vitað var, að vildu eða gátu lagt fram fé í stofnsjóð þessa fyrirtækis. En það hefur einmitt verið gert ráð fyrir því, að aðrir bankar eða lánastofnanir, sem eiga hagsmuna að gæta vegna sinna viðskiptavina, gætu síðar orðið aðilar að sjóðnum, og fari þá um framlagsfé, ábyrgð og aðra stjórn sjóðsins eftir því, sem um semst milli þeirra og sjóðsstjórnarinnar. Auðvitað kemur hér fyrst og fremst til greina, að Útvegsbankinn geti hér orðið aðili að, þar sem hann er gjaldeyrisbanki og hefur auðvitað verulegra hagsmuna að gæta í því sambandi, sem hér er um að ræða.

Þá spurði hv. þm. um, hvers vegna ákvæði frv. um stjórn sjóðsins væru eins og þau eru, en það er gert ráð fyrir því, að þeir þrír aðilar, sem sjóðinn stofna, semji með sér um það, hvernig framkvæmdum í sambandi við málið verði hagað og hvaða einni bankastofnun verði falið að annast framkvæmdirnar, en auðvitað er eðlilegt, að ekki sé komið á fót neinni nýrri stofnun til þess að annast þessa framkvæmd, heldur fela hana einhverri stofnun, sem nú er starfandi, og hefur þar helzt verið talað um Landsbanka Íslands, þótt endanlegar ákvarðanir séu ekki um það teknar.

En það var ekki talið rétt, að ríkið sjálft ætti neina aðild að stjórn þessa útflutningslánasjóðs, enda leggur ríkið ekki fram neitt framlagsfé í þessu sambandi. Féð kemur frá Seðlabankanum, Landsbanka Íslands og iðnlánasjóði með tilstyrk iðnþróunarsjóðs Norðurlanda, og þess vegna taldi ríkið ekki eðlilegt, að það væri að blanda sér frekar í þetta mál, heldur heimilaði að koma slíkum sjóði á stofn, eins og gert er ráð fyrir að gert verði með samþykkt þessa lagafrv. Afskipti ríkisins af þeim málum, sem hér er um að ræða, koma fyrst og fremst fram í veitingu ríkisábyrgða. Á eftir mun fjallað um það efni, og gerð verður nánari grein fyrir því í sambandi við framsögu fyrir því. Allt nauðsynlegt eftirlit í sambandi við þessi mál verður af hálfu ríkisábyrgðasjóðs, og ríkisstj., gjaldeyrisbankarnir og okkar iðnaður urðu sammála um, að það ríkiseftirlit væri í sjálfu sér algjörlega fullnægjandi og nægilegt.

Af því að hv. þm. gerði aths. um orðalag 2. gr., er það að segja, að ég tel sjálfsagt, að n. taki það til athugunar, og mér er óhætt að lýsa því yfir, að af hálfu stjórnarflokkanna er ekkert því til fyrirstöðu að athuga orðalag þeirrar gr. í einstökum atriðum, ef nánari athugun leiðir í ljós, að þar gæti eitthvað farið betur.