24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Umr. fóru fram hér á Alþ. um aðild Íslands að EFTA. Voru gefin ýmis fyrirheit af hæstv. ríkisstj. um að bæta rekstraraðstöðu iðnaðarins frá því, sem verið hefur. Það var m.a. tekið fram mjög greinilega, að bæta þyrfti úr rekstrarfjárskorti iðnfyrirtækja. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að fátt hefur háð íslenzkum iðnrekstri meira á undanförnum árum en skortur á rekstrarfé.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er hið fyrsta, sem frá hæstv. ríkisstj. kemur, varðandi þetta atriði að bæta úr rekstrarfjárvandræðum vissra iðnfyrirtækja. Það er að sjálfsögðu gott, það sem það nær, en ég held, að öllum hljóti að vera ljóst, að það gangi allt of skammt.

Ég vil, áður en ég vík sérstaklega að frv., rifja upp atriði úr ræðu, sem formaður Félags ísl. iðnrekenda hélt nýlega, þegar ársþing iðnrekenda var sett hér í bænum. Hann víkur að því, að ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að bæta úr stofnlánaskorti þeim, sem iðnaðurinn hafi átt við að búa, eins og t.d. með iðnþróunarsjóðnum, en leggur jafnhliða áherzlu á, að það sé ekki fullnægjandi, heldur verði eigi að síður að vinna að því að bæta úr rekstrarfjárskortinum. Hann segir orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, eftir að hafa rætt um fjárfestingarlánin:

„Samhliða þessu þarf að tryggja, að fyrirtækin geti fengið það rekstrarfé, sem þau þurfa, til þess að halda uppi heilbrigðum rekstri, og er það sennilega hér, sem mestur vandi verður á höndum, ef marka má reynslu liðinna ára.“

Þessi ummæli formanns Félags ísl. iðnrekenda sýna það, hve mikill vandi er hér á höndum og hve mikið þarf að gera til þess að bæta úr þeim mikla rekstrarfjárskorti, sem iðnfyrirtækin hafa átt við að búa á undanförnum árum, og enn bólar ekki á öðrum endurbótum í þeim efnum en því frv., sem hér liggur fyrir. Og þó að það sé rétt og gott, svo langt sem það nær, þá gengur það allt of skammt.

Eins og 2. gr. frv. ber með sér, þá á sá sjóður, sem frv. fjallar um, útflutningslánasjóður, eingöngu að veita lán vegna útflutnings meiri háttar véla og tækja eða samkeppnislán, ef um það er að ræða, að meiri háttar vélar og tæki, sem framleidd eru innanlands, séu seld á innlendum markaði. Hér er sem sagt eingöngu um það að ræða að bæta aðstöðu þess hluta iðnaðarins, sem framleiðir meiri háttar vélar og tæki, og það er að sjálfsögðu gott, að það sé gert. En ég held, og vitna þar til þeirrar skýrslu, sem fylgdi till. um EFTA-aðild á sínum tíma, að sá útflutningsiðnaður, sem fyrst og fremst kemur til greina, að Íslendingar geti lagt stund á á næstu árum, þegar sleppir þeim iðnaði, sem er í sambandi við sjávarútveginn, sé ekki þess eðlis, að framleiða skuli meiri háttar vélar og tæki. Þar sé frekar um að ræða ýmiss konar iðnað, sem á máli stórþjóðanna er kallaður smáiðnaður. Á því sviði sé mestu útflutningsmöguleika okkar að finna. En samkv. þessu frv. á ekki neinn styrk eða aðstoð að veita þessum iðngreinum, hvað aukið rekstrarfjármagn snertir. Og það á heldur ekki að veita neitt aukna rekstrarfjáraðstöðu þeim iðnfyrirtækjum, sem fyrst og fremst keppa á innlendum markaði með aðrar vörur en þær, sem um ræðir í 2. gr. En það er þó mikill meiri hluti þess iðnaðar, sem nú er í landinu.

Þó að það sé sjálfsagt og skylt að bæta aðstöðu útflutningsiðnaðarins, þá er vegna EFTA-aðildar kannske enn þá meiri ástæða til að vinna að bættum kjörum þess iðnaðar, sem keppir á innlendum markaði, því að það er sá iðnaður, sem á mesta og harðasta samkeppni fyrir höndum vegna EFTA-aðildarinnar. EFTA-aðildinni mun fylgja það, að hingað flyzt til landsins iðnvarningur í vaxandi mæli, og þeir, sem selja hann, geta veitt kaupendum lán til lengri tíma. Ef íslenzkur iðnaður á að standast þessa auknu samkeppni, þá verður hann að geta veitt greiðslufresti á sama hátt. En það er ekki á neinn hátt séð fyrir því með þessu frv., nema um sé að ræða fyrirtæki, sem framleiða meiri háttar vélar og tæki. Þau eiga að geta átt kost á svokölluðum samkeppnislánum, en aðrar iðngreinar ekki.

Ég verð að segja það, að þótt ég telji, að þetta frv. stefni í rétta átt, þá sé hér allt of skammt gengið, og hér sé um mjög takmarkaða efnd á því loforði að ræða, sem ríkisstj. gaf, þegar gengið var í EFTA, um að bæta rekstrarlánaaðstöðu iðnaðarins almennt.

Ég sakna þess, að hæstv. iðnmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, því að í raun réttri heyra þessi mál miklu frekar undir hann en viðskmrh. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann að því, hvort það væri ekki ætlunin að gera einhverjar frekari ráðstafanir en þær, sem felast í þessu frv. til að bæta rekstrarlánaaðstöðu iðnaðarins frá því, sem nú er. En þó að hér sé stefnt í rétta átt, þá er að mínum dómi, eins og ég hef nú rakið, allt of skammt gengið.

Ég hef heyrt því fleygt í sambandi við þetta frv., sem mér finnst að sönnu ótrúlegt, að það sé ætlunin fyrst um sinn að haga lánveitingum úr þessum sjóði á þann veg, að aðallega verði veitt lán þeim fyrirtækjum, sem selja vörur til EFTA-landanna. Ég legg nú ekki trúnað á, að svo sé. En vil þó vegna þessa orðróms fá úr því skorið, hvort það sé ætlunin að gera nokkurn mismun í þessum efnum. En það held ég, að sé ekki síður mikilvægt fyrir okkur að leggja áherzlu á það að auka útflutning til annarra landa en EFTA-landanna, því að ég held, að þrátt fyrir það tollfrelsi, sem við fáum þar, sé markaðurinn þar tiltölulega þröngur og okkar útflutningsmöguleikar séu miklu meiri í mörgum öðrum löndum og á öðrum viðskiptasvæðum.

Ég vil svo segja það almennt um það kerfi, sem hér er verið að byggja upp nú á Alþ., að mér finnst það ganga í öfuga átt. Eins og nú háttar til, þurfa þeir, sem fást við atvinnurekstur, t.d. iðnrekendur, að snúa sér til margra aðila, ef þeir eiga að fá fullnægjandi fyrirgreiðslu. Þeir þurfa að fara til viðskiptabankanna, og þeir þurfa að fara til iðnlánasjóðs og ýmissa annarra sjóða. Þetta veldur að sjálfsögðu margvíslegum töfum og erfiðleikum, enda þekkjum við það ákaflega vel, hve stirð afgreiðsla vill oft og tíðum verða hjá þessum fyrirtækjum.

Ef t.d. er sögð saga af því, hvernig þetta gengi fyrir sig hjá fiskveiðasjóði, þegar um er að ræða nýbyggingar á skipum, þá þarf, til þess að fá lánsloforð, að fara fram eins konar mat, sem stjórn fiskveiðasjóðs vill fá í sínar hendur, áður en hún gengur frá láninu, lánsloforðinu. Hún að sjálfsögðu ákveður þetta mat ekki sjálf, heldur hefur hún sérstaka matsnefnd. Sú matsnefnd hefur sérstakan trúnaðarmann, og sá trúnaðarmaður hefur sérstakan aðstoðarmann. Svo gengur þetta þannig fyrir sig, að fyrst framkvæmir aðstoðarmaðurinn matið. Svo gengur það til trúnaðarmannsins, og hann endurskoðar þetta. Svo gengur það til matsnefndarinnar, og hún fer yfir þetta, og að lokum kemur það svo til stjórnar fiskveiðasjóðs, og þá eru oft og tíðum liðnir margir mánuðir, áður en viðkomandi skipasmíðastöð er búin að fá endanlegt svar eða viðkomandi skipabyggjandi.

Þannig gengur það til í mörgum greinum, að sá aðili, sem fæst við atvinnurekstur, verður að ganga frá Heródesi til Pílatusar, milli fjölmargra aðila, áður en hann fær endanlega vitneskju um það, hvaða fyrirgreiðslu hann muni í rauninni geta fengið.

Mér sýnist, að samkv. þeim frv., sem nú liggja fyrir Alþ., og reyndar 1., sem hafa verið samþ., bætist nú við þrír nýir aðilar, sem t.d. iðnrekendur þurfa að sækja undir til viðbótar þeim, sem fyrir voru. Þá kemur í fyrsta lagi til sögunnar iðnþróunarsjóður, sem bætist hér við. Svo kemur í öðru lagi útflutningslánasjóður, sem hér er verið að ræða um, og svo kemur í þriðja lagi einhvers konar tryggingardeild útflutningslána, sem er tengd við ríkisábyrgðasjóð, og þá ábyrgð á sérstök nefnd að meta, þannig að hér bætast við þrír meginaðilar, opinberir aðilar, sem atvinnurekendur þurfa að sækja til, áður en þeir geta fengið fulla vitneskju um þá fyrirgreiðslu, sem þeir fá. Ég held, að þetta sé ákaflega óheppilegt og óhagkvæmt fyrirkomulag fyrir þá, sem atvinnurekstur stunda, og þess vegna hefði sú rétta þróun í þessum efnum verið sú að reyna að færa þessar stofnanir saman og láta þessa aðila, sem atvinnurekendur þurfa að hafa skipti við, vera sem allra fæsta í stað þess að vera alltaf að fjölga þeim, eins og stefnt er að með þessu fyrirkomulagi í þeim frv., sem ég hef nú minnzt á. Þetta hefur í för með sér mikil óþægindi fyrir atvinnurekendur og óvissu oft og tíðum um lengri tíma, því að þótt hann sé búinn að fá jákvætt svar frá einni stofnuninni, þá þarf hann að bíða eftir svari hjá annarri, svo að þessu fylgja alveg gífurlegar tafir fyrir atvinnureksturinn. Auk þess fylgir þessu náttúrlega miklu meiri skriffinnska og kostnaður fyrir hið opinbera en nauðsynlegt er, ef unnið væri að því að gera kerfið einfaldara en þetta.

Mér sýnist það á flutningi þessara mála, sem vafalaust eru öll flutt í góðum tilgangi af hæstv. ríkisstj., þó að þau gangi of skammt, þá sé hún ekki enn þá farin að gera sér grein fyrir því, að það eigi að reyna að stefna að því að gera kerfið einfaldara og óbrotnara, heldur sé alltaf verið að auka skriffinnskuna og gera þetta enn þá margbrotnara og flóknara en það hefur áður verið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að sinni að gera frekari aths. í sambandi við þetta mál. Ég tel, að það stefni í rétta átt, en gangi hins vegar allt of skammt, og það verði að gera miklu meira átak en felst í þessu frv., ef iðnaðurinn á að fá þá leiðréttingu mála sinna í sambandi við rekstrarlánin, sem honum ber og hann hefur aukna þörf á vegna EFTA-aðildarinnar.