24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið rætt hér nokkuð almennt að vonum um hlutverk útflutningslánasjóðs, og sumir hv. þm. talið, að það væri nokkuð takmarkað, hvað ætlunin væri, að útflutningslánasjóður fyrst og fremst lánaði til, og talið, að vel gæti komið til annars útflutnings, sem ekki væri síður ástæða til að styðja.

Í sambandi við þetta er rétt að taka fram, að hér er náttúrlega um byrjun að ræða. Við höfum ekki þekkt þessi lán hér á landi. Það hefur verið kannað, hvernig þessum málum er fyrir komið í öðrum EFTA-löndum, fyrst og fremst Norðurlöndunum og reyndar fleiri löndum, og hefur verið reynt að leggja áherzlu á að taka inn í þessar heimildir sams konar lán og veitt eru aðilum í þeim löndum. Það, sem útflutningssjóðurinn fyrst og fremst á að fjármagna, eru lán, sem eru til nokkuð langs tíma, ekki almenn viðskiptalán, sem greiðast upp eins og venjuleg vörukaupalán gera, heldur lán til lengri tíma. Og þetta á sér stað fyrst og fremst um þær fjárfestingarvörur, sem hér er um að ræða. Menn þekkja þetta, sem keypt hafa hingað t.d. skip, skulum við segja. Það er kannske það, sem menn þekkja bezt. Það er lánað til nokkurra ára, og auðvitað væri gersamlega útilokað að keppa við erlendan markað, nema hér væru svipaðir lánamöguleikar. Í sambandi við vélaframleiðslu og stærri tæki, sem framleidd eru, er í flestum tilfellum þannig ástatt, að í okkar samkeppnislöndum er þetta lánað með töluvert löngum greiðslufresti, þannig að það hefði verið hægt t.d. á undanförnum árum að fá þetta með lengri greiðslufresti en hér hefur gilt. Það hefur aðeins ekki verið leyft að taka lánin til lengri tíma. Þetta eru fyrst og fremst þau lán, sem ætlunin er að fjármagna með þessum útflutningslánasjóði.

Hitt er allt annað mál, að það kann vel að vera, að þróunin verði sú, að fram komi einhver framleiðsla, sem fjármagna þarf til lengri tíma. Það vitum við ekki nákvæmlega í dag, en ég held, að eins og viðskiptahættir eru í dag, þá muni annar útflutningur, sem úr landi fer, yfirleitt vera þess eðlis, að þar sé um lán til mjög skamms tíma að ræða. Þetta er ástæðan til þess, að frv. er orðað með þessum hætti. Ég tel hins vegar óhætt að fullyrða það gagnvart þeim hv. þm., sem hér hafa talað, að vitanlega mun ríkisstj. hafa opin augun fyrir þessu, þannig að komi til einhver vandamál í þessu sambandi, þá verður vitanlega reynt að leysa þau.