26.10.1970
Efri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

9. mál, Iðnlánasjóður

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um Iðnlánasjóð er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 31. júlí í sumar, en efni þeirra er þannig, að það er gert ráð fyrir því, að Iðnlánasjóður taki erlent lán, sem bundið er við endurlán til tiltekinna framkvæmda, og sé féð endurlánað með gengisákvæði og hæfilegum vaxtamismun og kostnaði til Iðnlánasjóðs, en síðan er sagt: „Þó er sjóðnum heimilt að endurlána lánsfé frá Iðnþróunarsjóði án gengisákvæða, enda tryggi stjórn Iðnlánasjóðs hag hans með öðrum hætti.“

Það var óskað eftir þessu af hálfu stjórnar Iðnlánasjóðs, en eins og kunnugt er, hefur Iðnþróunarsjóður tvisvar sinnum ákvarðað lánveitingar til Iðnlánasjóðsins til endurlána, fyrst 50 millj. kr. og síðan 20 millj. kr., eða alls 70 millj. kr. Og tilefni þess, að út voru gefin brbl., var það, að sjóðsstjórnin taldi nauðsynlegt að geta ráðstafað þessu fé sem fyrst og þyrfti ekki að bíða eftir því, að Alþ. kæmi saman. Málið var sent Seðlabankanum til umsagnar og það var full samstaða um það og enginn ágreiningur á neina lund. En þetta mundi þýða það, að vaxtakjörin kynnu að verða eitthvað önnur á iðnþróunarsjóðslánum, af því að það er gert ráð fyrir, að ef þau eru ekki með gengisákvæði, tryggi stjórn Iðnlánasjóðs hag hans með öðrum hætti, og hefur stjórnin gert rn. grein fyrir því, að það mundi verða með vissri jöfnun, með vissum ákvörðunum um vaxtabreytingar.

Þetta er meginefni frv., og ég vildi mega vænta þess, að ekki þyrfti að verða neinn ágreiningur um það. Ef n., sem fær málið til meðferðar, þyrfti frekari skýringar á málinu, þá væri æskilegt, að hún fengi allar þær upplýsingar, sem fyrir liggja, en ég hef ekki í höndum nú, frá stjórn Iðnlánasjóðs.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til iðnn. og 2. umr.