26.10.1970
Efri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

9. mál, Iðnlánasjóður

Helgi Bergs:

Herra forseti. Áður en þetta frv. fer til n., langar mig til þess að beina nokkrum fsp. til hæstv. forsrh. um atriði, sem mér virðist, að snerti þetta.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að Iðnlánasjóður endurláni án gengistryggingar fé, sem hann hefur tekið að láni með gengistryggingu, og stjórn Iðnlánasjóðs tryggi hag sjóðsins með öðrum hætti, sem verður að gera ráð fyrir, — og raunar virtist einnig koma fram í ræðu hæstv. forsrh. — að yrði gert með vaxtahækkun. Í þessu birtist sú hugsun, að tryggja megi fjáreigendur gegn rýrnun höfuðstólsins með hærri vöxtum, og er það raunar sama sjónarmiðið, sem fram kemur t. d., þegar rætt er um verðtryggingu sparifjár. Þá er oft bent á, að hagur sparifjáreigenda sé í staðinn tryggður með því, að vextir séu hærri en þeir ella væru. Nú er þessi breyting, sem þetta frv. felur í sér, rökstudd með því, að þetta hafi í för með sér misræmi, ef sjóðurinn endurlánaði féð með gengisákvæðum, og því sé eðlilegt að gera þessa breytingu á, og má vel vera, að svo sé, um það skal ég ekki neitt segja að svo stöddu.

En mér virðist á hinn bóginn, að þetta vandamál geti tæplega verið einangrað við Iðnlánasjóð einan. Það eru, eins og kunnugt er, fleiri sjóðir, sem lána út, sem endurlána með gengistryggingum, og sú spurning vaknar þess vegna, — og ég vildi leyfa mér að beina henni til hæstv. forsrh. — hvort gera megi ráð fyrir því, að hliðstæðar breytingar verði gerðar að því er lýtur að öðrum sjóðum í hliðstæðum tilvikum. Nú er í sjálfu sér ekki svo mikill munur á því, hvort um er að ræða gengistryggingu eða verðtryggingu, þ. e. a. s. vísitölutryggingu höfuðstóls, en slíka tryggingu höfum við í nokkrum tilfellum hér, eins og kunnugt er. Það eru þá í fyrsta lagi spariskírteini ríkissjóðs, sem eru vísitölubundin, og ef hér væri um stefnubreytingu að ræða, vaknar sú spurning, hvort gera megi ráð fyrir því, að i því efni yrði líka einhver breyting, að í stað vísitölutryggingarinnar kynnu t. d. að koma hærri vextir. Svipuð sjónarmið eiga t. d. við um húsnæðismálalánin, sem um tíma voru að fullu vísitölutryggð, og var það, eins og mönnum er kunnugt, mjög gagnrýnt, að slík trygging skyldi vera á þeim lánum, þegar ekki var um hliðstæða vísitölutryggingu að ræða á flestöllum öðrum lánum í þjóðfélaginu. Vafalaust er, að þeir, sem á undanförnum árum hafa verið að greiða af vísitölutryggðum lánum húsnæðismálastjórnar, hefðu þótzt sleppa vel, ef þeir hefðu ekki þurft að gera það, en aðeins greiða eitthvað lítið eitt hærri vexti. Það, sem ég er hér að leita eftir, er fyrst og fremst það, hvort hér sé um að ræða breytt viðhorf hæstv. ríkisstj. til þessara mála að einhverju leyti eða stefnubreytingu af einhverju tagi.

Það var vorið 1966 í þinglokin, að sett voru lög hér á hv. Alþ. um verðtryggingu fjárskuldbindinga, þar sem Seðlabankanum var m. a. veitt heimild til þess að gangast fyrir verðtryggingu fjárskuldbindinga í ýmsum nánar tilteknum tilvikum, og voru þær heimildir allvíðtækar, ef ég man rétt, og í þessu sambandi vaknar sú spurning, hvort og að hvað miklu leyti þau lög hafa komið til framkvæmda, eða hvort gera megi ráð fyrir, að þau komi til framkvæmda, eða hvort hæstv. ríkisstj. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki æskilegt eða fært að framkvæma þau. Ég vildi leyfa mér í tilefni af þeirri breytingu, sem hér liggur fyrir á l. mn Iðnlánasjóð, að setja fram þessar hugleiðingar og þessar fyrirspurnir til hæstv. ráðh. um það, hvort vænta megi áframhalds þeirrar stefnu, sem fólgin er í þessu frv.