19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

9. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um Iðnlánasjóð, 9. mál Ed., til staðfestingar á brbl. frá 31. júlí s. l., hefur verið til athugunar hjá iðnn. Á þskj. 140 skilar n. áliti og mælir sammála með samþykkt frv. Mál þetta er þannig til orðið, eins og fram kemur í grg. frv., að Iðnlánasjóður hefur tekið lán, 70 millj. kr., hjá Iðnþróunarsjóði til að endurlána íslenzkum iðnfyrirtækjum. Lög um Iðnþróunarsjóð kveða hins vegar á um það, að lán úr sjóðnum skuli vera gengistryggð. Má vænta, að Iðnlánasjóður fái einnig á næsta ári eða árum enn aukið lánsfé frá Iðnþróunarsjóði, einnig gengistryggt. Það hefur því skapazt sá vandi, hvort mismuna ætti lántakendum, lána sumum gengislán, en öðrum ekki. Útlán Iðnlánasjóðs höfðu verið með 8½% forvöxtum. En samkv. beiðni sjóðsstjórnar hefur þessu nú verið breytt samkv. brbl., sem hér eru til staðfestingar. Öll ný lán Iðnlánasjóðs eru nú með 9% vöxtum, sem greiðast eftir á, en mismunurinn fer til að mæta gengisáhættu. Útlánsvextir Iðnþróunarsjóðs til Iðnlánasjóðs eru hins vegar 6%.

Starfsemi Iðnlánasjóðs hefur stórum aukizt á síðari árum. Á fyrstu árum sjóðsins, frá 1936 til 1940, hafði sjóðurinn til útlána um 25 þúsund kr. á ári. Síðan smájókst þetta, þannig að á árunum 1951–1959 var það 1–2 millj. á ári og á árunum 1964–1968 50–80 millj. á ári. Hins vegar varð mest stökkbreyting á s. l. ári, 1969, en þá hafði sjóðurinn 105 millj. til útlána. Á yfirstandandi ári er áætlað, að sjóðurinn hafi liðlega 200 millj. til útlána, þar af 70 millj. frá Iðnþróunarsjóði, og svipaða upphæð eða 208 millj. til útlána á næsta ári, 1971, enda er þá einnig von til, að lán fáist frá Iðnþróunarsjóði, 100 millj. kr., til útlána fyrir Iðnlánasjóð.

Framlög ríkissjóðs hafa allt frá stofnun sjóðsins verið langt undir lágmarki. Öll árin frá 1935 með árinu í ár nema framlög ríkissjóðs aðeins liðlega 60 millj. kr., en það er næstum brosleg tala, þegar litið er á 35 ára starfsemi sjóðsins. Iðnlánasjóðsgjaldið, 0.4%, sem atvinnurekendur greiða sjálfir í sjóðinn, hefur hins vegar orðið álitleg upphæð þau 8 ár, sem iðnlánasjóðsgjaldið hefur staðið. Eftir að lögum um Iðnlánasjóð var breytt, nemur þetta gjald atvinnurekenda nú í árslok um 170 millj. kr. eða nær þrefalt hærri upphæð heldur en ríkissjóður hefur lagt sjóðnum til á 35 ára starfsferli sjóðsins. Um síðustu áramót voru útlán Iðnlánasjóðs yfir 400 millj., sem skiptust þannig: 640 vélalán 118 millj., 448 byggingarlán 209 millj., 59 lausaskuldalán 63 millj., 6 hagræðingarlán 9 millj., 13 veiðarfæralán 5 millj. Nú um árslok má reikna með, að útlán sjóðsins nálgist 500 millj.

Mér þótti rétt að gefa hv. þd. þessar upplýsingar, sem var aflað hjá framkvæmdastjórn Iðnlánasjóðs í tilefni af frv. því, sem hér er til umr. Einnig má það koma fram, að hefði framlag ríkissjóðs frá 1963, eftir að lögum um Iðnlánasjóð var breytt, numið sömu upphæð og iðnlánasjóðsgjald atvinnurekenda, þá væri sjóðurinn 120 millj. kr. ríkari í lok þessa árs og því hefði hann að sjálfsögðu með því móti orðið mun færari um að standa undir hinu brýna hlutverki sínu, þótt lán úr Iðnþróunarsjóði, 70 millj. á yfirstandandi ári, bæti hér um í bili, en strax á næsta ári falla vaxta- og afborganagreiðslur af þessu láni til Iðnþróunarsjóðs. Ætti sannarlega að taka til athugunar, að ríkissjóður stæði undir vöxtum og afborgunum af þessu fyrsta láni Iðnlánasjóðs miðað við þær litlu greiðslur, sem ríkissjóður hefur innt af hendi til sjóðsins á undanförnum árum.