25.11.1970
Neðri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

9. mál, Iðnlánasjóður

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál þetta hefur farið gegnum Ed. án þess að nokkur ágreiningur væri um það, en það er staðfesting á brbl., sem gefin voru út í sumar til breytinga á iðnlánasjóðslögunum, en eftir iðnlánasjóðslögunum var Iðnlánasjóði ekki heimilt að endurlána erlend lán með gengisáhættu nema það fylgdi einnig gengisáhætta þeim lánum sjóðsins. Nú er lán iðnþróunarsjóðsins norræna með gengisáhættu, en hann hafði lánað á þessu stigi málsins, þegar brbl. voru gefin út, verulegar upphæðir til endurlána hjá Iðnlánasjóði. Hann hafði þá lánað Iðnlánasjóði 50 millj. kr. til endurlána, og það þótti nauður reka til þess að setja brbl., þannig að framkvæmd laganna gæti komizt í gang, og síðar hefur Iðnþróunarsjóður svo aftur lánað Iðnlánasjóði 20 millj. kr., ef ég man rétt, þannig að hann hefur þegar á þessu ári lánað Iðnlánasjóði til endurlána 70 millj. kr. Af þessum sökum fór stjórn Iðnlánasjóðs þess á leit, að þessi breyting yrði gerð, sem felst þarna í 1. gr., að þegar Iðnlánasjóður tekur erlend lán, sem bundin eru við endurlán til tiltekinna framkvæmda, skal féð endurlánað með gengisákvæði og hæfilegum vaxtamismun og kostnaði til Iðnlánasjóðs. En eins og þar stendur: „Þó er sjóðnum heimilt að endurlána lánsfé frá Iðnþróunarsjóði án gengisákvæða, enda tryggi stjórn Iðnlánasjóðs hag hans með öðrum hætti.“ Þetta eru breytingarnar, sem efnislega felast í lögunum.

Eftir að þessi brbl. höfðu svo að beiðni Iðnlánasjóðs og í samráði við Seðlabankann verið gefin út, ritaði Iðnaðarbankinn iðnrh. og fór þess á leit að mega hækka almenna útlánsvexti sjóðsins úr 8.5% í 9% á ári. Svo segir um það í bréfi bankans, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi ráðstöfun er gerð til þess að vega á móti þeirri gengisáhættu, sem lánin frá Iðnþróunarsjóði skapa sjóðnum, en í lögum um Iðnlánasjóð, með þeim breyt., sem gerðar voru með brbl. frá 31. júlí 1970, segir: „Þó er sjóðnum heimilt að endurlána lánsfé frá Iðnþróunarsjóði án gengisákvæða, enda tryggi stjórn Iðnlánasjóðs hag hans með öðrum hætti.““

Jafnframt óskaði stjórn Iðnlánasjóðs eftir því, að samþ. væri, að sjóðnum væri heimilt að taka upp hærri vexti en 9% á ári í þeim tilvikum, þegar sjóðurinn er einungis milliliður milli raunverulegs lánveitanda og lántakanda og þegar vextir lánveitandans eru hærri en 9% á ári.

Rn. barst einnig bréf Seðlabankans, þar sem fallizt er á þessa tilhögun. Um síðara atriðið segir svo í bréfi Seðlabankans, með leyfi hæstv. forseta: „Hækkun vaxta af hinum sérstöku útlánum, sem áður um getur, þar sem lánsfjár er aflað hjá þriðja aðila, er bankastjórnin einnig samþykk, þó með þeim fyrirvara, að útlánsvextir Iðnlánasjóðs af þeim lánum sprengi ekki þann vaxtaramma, sem Seðlabankinn setur um útlánsvexti iðnlánastofnana á hverjum tíma.“ Í framhaldi af þessu var svo Iðnlánasjóði heimilað að gera þær vaxtabreytingar, sem um var beðið og eru afleiðing af þessari bráðabirgðalöggjöf, sem hér er til staðfestingar.

Ég vildi leyfa mér að mega leggja til, að málinu verði að þessari umr, lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.