25.11.1970
Neðri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

9. mál, Iðnlánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er sennilega ekki óeðlilegt, að Iðnlánasjóður fái þá heimild, sem felst í þessu frv. En hins vegar finnst mér, að það tilefni, sem veldur því, að þetta frv. er flutt, sé þannig vaxið, að það sé ástæða til þess að fara um það nokkrum orðum. Þegar rætt var um aðildina að EFTA hér á sínum tíma og eins þegar frv. um Iðnþróunarsjóð var rætt hér á Alþ., þá þótti það líklegt, að Iðnþróunarsjóður, eða það lán, sem Norðurlönd veita okkur í sambandi við hann, yrði iðnaðinum til verulegrar styrktar. Mér sýnist á þessu frv. og tildrögum þess, að það hafi orðið þannig í reynd, að að vissu leyti hafi Iðnþróunarsjóður reynzt hefndargjöf fyrir iðnaðinn, því að samkvæmt þessu frv. liggur það fyrir, að vegna þeirra lána, sem Iðnlánasjóður hefur fengið hjá Iðnþróunarsjóði, verður að hækka öll lán, sem Iðnlánasjóður veitir, um ½% eða úr 8½%, eins og áður var, í 9%, þannig að þetta hefur leitt af sér almenna vaxtahækkun á stofnlánum hjá iðnaðinum á þeim tíma, sem það hefði þó verið eðlilegri þróun, að vextirnir hefðu verið lækkaðir sökum þeirrar vaxandi samkeppni, sem iðnaðurinn á fyrir höndum vegna aðildarinnar að EFTA. Og ég verð að draga í efa, að þessi vaxtahækkun sé eðlileg af þeim ástæðum, sem hér greinir.

Eins og þm. vafalaust muna, þá eru þau lán, sem Norðurlönd veita Iðnþróunarsjóði, á þann veg, að þau eru vaxtalaus allan tímann, afborgunarlaus fyrstu 10 árin, en eiga síðan að greiðast með jöfnum afborgunum á 15 árum. Ég held, að þar sem lánin eru vaxtalaus, þá mundu nægja tiltölulega lágir vextir til að mæta gengisáhættunni og þess vegna sé ekki þörf á jafnháum vöxtum og almennri vaxtahækkun vegna lána Iðnþróunarsjóðs eins og hér er gert ráð fyrir. Þess vegna á ég dálítið erfitt með að skilja það, að lán Iðnþróunarsjóðs skuli verða til þess að hækka vexti á stofnlánum iðnaðarins frá því, sem verið hefur almennt, og þess vegna þurfi þetta nánari skýringar við. En eins og ég sagði áðan, þá hlýtur það að verða að teljast öfugþróun, að einmitt á þeim tíma, þegar iðnaðurinn á að mæta harðnandi samkeppni erlendis frá vegna EFTA-aðildarinnar, þá skuli verða almenn vaxtahækkun á stofnlánum. Og satt að segja á ég erfitt með að skilja það, að það sé endilega nauðsynlegt vegna Iðnþróunarsjóðs, þar sem, eins og ég áðan sagði, hans lán eða þau lán, sem Norðurlönd veita okkur, eru vaxtalaus, og þess vegna ættu tiltölulega lágir vextir að nægja til þess að mæta þeirri gengisáhættu, sem er samfara endurgreiðslu lánanna. En það kemur ekki fram í grg. þessa frv. og kom heldur ekki fram hjá ráðh., hverjir þeir vextir eru, sem Iðnlánasjóður verður að greiða Iðnþróunarsjóði af þessum lánum. En mér skilst, að í Ed. hafi því verið haldið fram, að þar sé um 10% vexti að ræða. Mér finnst það nú óeðlileg tala og þess vegna vildi ég beina því til hæstv. iðnrh., hvort hann gæti upplýst það, hverjir vextirnir væru á þeim lánum, sem Iðnþróunarsjóður veitir Iðnlánasjóði. En mér finnst það, ég endurtek það, að mér finnst það vera öfug stefna, að þegar iðnaðurinn þarf að mæta aukinni samkeppni af völdum EFTA-aðildarinnar, þá skuli stofnlánavextir vera hækkaðir frá því, sem áður var, þó að það að vísu sé ekki nema ½%, eða úr 8½% í 9%.

Ég vildi bera fram þá fsp. í sambandi við þetta til hæstv. iðnrh., hvort hefði farið fram athugun á vaxtakjörum iðnaðarins hér og þeim vaxtakjörum, sem iðnaðurinn verður að búa við í EFTA-löndunum eða þeim löndum, sem nú eru helztu samkeppnislönd okkar. Á vegum fjmrn. stendur yfir athugun á því, hvort iðnaðurinn hér búi við svipuð kjör í skattamálum, verri eða lakari heldur en iðnfyrirtæki gera almennt í EFTA-löndunum, og munu niðurstöður þeirrar athugunar nú liggja bráðlega fyrir, að svo miklu leyti sem hægt er að upplýsa það mál. Ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. iðnrh., hvort einhver svipuð athugun hefði farið fram á vaxtakjörum iðnaðarins, hvort það hefur verið gerð athugun á því, hvort vaxtakjör iðnaðarins hér eru svipuð, lakari eða betri en t. d. í EFTA-löndunum, en íslenzkur iðnaður má horfast í augu við aukna samkeppni við iðnaðarfyrirtækin þar. Ég teldi, að þessi athugun væri nauðsynleg og það væri eðlilegt, að niðurstöður hennar lægju fyrir áður en t. d. þetta frv. hlyti endanlega afgreiðslu á Alþ., þar sem hér er um það að ræða að hækka stofnlánavextina frá því, sem verið hefur. Ég hef óttazt það, að slíkur samanburður leiði það í ljós, að íslenzk iðnfyrirtæki búi við lakari vaxtakjör heldur en keppinautar þeirra í EFTA-löndum og það sé eitt af því, sem við þurfum að gera ráðstafanir til þess að lagfæra, ef við eigum að geta staðizt þá samkeppni, sem þar er fyrir höndum. Ég vildi beina því enn fremur til hæstv. iðnrh., að ef slík athugun á vaxtakjörum hefur ekki farið fram, hvort hann muni þá ekki beita sér fyrir því, að slík athugun verði gerð og í framhaldi af því ráðstöfunum í þá átt, að íslenzkur iðnaður búi ekki við lakari vaxtakjör heldur en iðnaðurinn gerir í þeim löndum, sem við þurfum að keppa við. Mér finnst líka rétt að geta þess í þessu sambandi, vegna þess að vextir af stofnlánum til iðnaðarins hafa hækkað á þessu ári, að nú seinustu mánuðina og síðustu vikurnar stefnir mjög í þá átt erlendis, að vextir fari lækkandi. Vextir hafa lækkað í Bandaríkjunum, V.-Þýzkalandi og fleiri löndum að undanförnu, og almennt er búizt við, að þróun verði í þá átt, að vextir fari heldur lækkandi. Þeir hafa verið í hámarki, að því að talið er, síðustu misserin, en nú er gert ráð fyrir því og þegar farið að stefna í þá átt, að hér verði snúið við og vextirnir fari lækkandi aftur. Og þess vegna er það ákaflega óeðlilegt, að því er mér finnst, að undir þeim kringumstæðum skuli vextir til iðnaðarins fara hækkandi hér á landi.

Það er líka vert að minna á það í þessu sambandi, að iðnaðurinn í nágrannalöndunum býr ekki við þá aðstöðu eins og hér að þurfa að greiða verulegt fjármagn í Iðnlánasjóð og í þá sjóði eða til þeirra banka, sem veita stofnlán til iðnaðarins. Hér hefur iðnaðurinn á undanförnum árum orðið að greiða verulega fjárhæð í Iðnlánasjóð. Eftir því, sem upplýst var nýlega í Ed., þá nema þær fjárgreiðslur, sem iðnaðurinn hefur þannig lagt Iðnlánasjóði til, orðið 170 millj. kr., og satt að segja finnst mér það ákaflega einkennilegt, að fjármagn, sem iðnaðurinn leggur sjálfur þannig af mörkum, skuli hann svo aftur þurfa að taka að láni með 9% vöxtum. Ég og fleiri þm. hafa flutt um það tillögu hér á Alþ. og það hefur líka verið krafa samtaka iðnaðarmanna, að ríkið legði jafnmikið fé af mörkum og nemur iðnlánasjóðsgjaldinu eða því, sem iðnaðurinn sjálfur greiðir. Það hefur verið daufheyrzt við þessum kröfum, en þetta dæmi lítur nú þannig út, að frá upphafi hefur ríkissjóður lagt Iðnlánasjóði til um 60 millj. kr., en iðnaðurinn sjálfur hefur lagt til 170 millj. Það mætti þess vegna segja, að þarna ætti iðnaðurinn inni 110 millj. kr. hjá ríkissjóði, og mér finnst eðlilegt, að það verði tekið upp í sambandi við þetta frv., að a. m. k. hér eftir greiði ríkið Iðnlánasjóði álíka hátt tillag og iðnaðurinn sjálfur greiðir, þar sem iðnlánasjóðsgjaldið er. Með því væri í raun og veru ekki verið að gera annað en að veita iðnaðinum jafnrétti við aðra atvinnuvegi, vegna þess að lengst af hefur a. m. k. landbúnaður og sjávarútvegur notið þeirra hlunninda, að ríkið hefur greitt jafnmikið framlag í stofnlánasjóði þeirra og þessir atvinnuvegir hafa sjálfir lagt af mörkum. T. d. held ég, að ég megi fullyrða, að þetta er enn í gildi hvað landbúnaðinn snertir.

Ég vil svo minnast á annað atriði heldur en það, sem lýtur að stofnlánum iðnaðarins, sem þetta frv. fjallar sérstaklega um, en það eru rekstrarlán iðnaðarins. Það var mjög greinilega áréttað af forsvarsmönnum iðnaðarins, þegar við gerðumst aðilar að EFTA, að aðstöðumunur íslenzkra iðnfyrirtækja og erlendra væri ekki sízt fólginn í því, að íslenzku fyrirtækin byggju við miklu minni og óhagstæðari rekstrarlán, sérstaklega miklu minni. Og því var heitið þá af hálfu ríkisvaldsins, að úr þessu yrði bætt. Ég er hins vegar hræddur um, að mjög lítið hafi orðið úr efndum að þessu leyti, þannig að lítið eða ekkert hafi verið gert til þess að auka rekstrarlán iðnaðarins, en það hefur hins vegar gerzt á þessum tíma síðan við gengum í EFTA, að kaupgjald hefur stórhækkað. Iðnaðurinn hefur þar af leiðandi þörf fyrir mjög verulega aukin rekstrarlán, en ég hygg því miður, að lítið eða ekkert hafi verið gert af hálfu bankanna til þess að bæta úr þessu. Þvert á móti hafi Seðlabankinn gefið viðskiptabönkunum þau fyrirmæli að auka helzt ekki neitt útlánin frá því, sem verið hefur, a. m. k. ekki heildarupphæðina, og reyna að halda þeim sem mest niðri. Mér finnst satt að segja, að það blási ekki byrlega í samkeppni íslenzkra iðnfyrirtækja við erlend iðnaðarfyrirtæki, þegar stofnlánavextirnir eru hækkaðir og ekkert eða lítið hefur verið gert til þess að bæta úr þeim rekstrarlánaskorti, sem iðnaðurinn hefur búið við á undanförnum árum. En í því sambandi er að sjálfsögðu aukin hætta fyrir iðnaðinn. Hin erlendu fyrirtæki geta veitt allmikla greiðslufresti, en það getur hins vegar íslenzki iðnaðurinn ekki neitt að ráði, nema verulega sé bætt úr þeirri rekstrarlánaþörf, sem hann hefur búið við að undanförnu.

Mér finnst líka í sambandi við þetta vaxtamál rétt að benda á það, að iðnaðurinn býr í sambandi við stofnlánin við önnur kjör heldur en aðrir atvinnuvegir. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að vextir af stofnlánum iðnaðarins verði 9%, en ég held, að ég megi segja það, að hjá stofnlánasjóði sjávarútvegsins séu vextirnir ekki nema 6½% og svipað sé það hjá stofnlánadeild landbúnaðarins. Þetta er eitt glöggt dæmi um það, að iðnaðurinn er hvað þetta snertir, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, olnbogabarn miðað við aðra atvinnuvegi. Og þrátt fyrir það tala allir um það, að iðnaðurinn eigi að búa við fullkomið jafnrétti og það sé iðnaðurinn, sem fyrst og fremst verði að taka við hinum aukna fólksfjölda, sem verði hér á komandi árum. En þrátt fyrir allar hátíðlegar yfirlýsingar um þetta er niðurstaðan sú, að á þessu sviði, í sambandi við stofnlánin eins og á svo mörgum öðrum sviðum, býr iðnaðurinn við miklu lakari kjör en hliðstæðir atvinnuvegir.