25.11.1970
Neðri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

9. mál, Iðnlánasjóður

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég læt mér nú í léttu rúmi liggja, þó að hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, komi hér enn einu sinni upp sem einhver sérstakur talsmaður iðnaðarins og gráti krókódílstárum yfir því, að þessi atvinnugrein sé eitthvert olnbogabarn þjóðarinnar. Hann hefur áður verið í stjórnarliðinu og haft aðstöðu til þess að láta að sér kveða á þessu sviði og þá steinþagað, þessi góði maður. Og það voru engan veginn sambærileg rekstrarlán eða stofnlán til iðnaðarins veitt, þegar þessir góðu menn, sem nú gera sig breiða og merkilega á þessu sviði, voru við völd hér á landi, hvorki fyrr né síðar. Þessi vaxtabreyting, sem hér er lögð til, er að vissu leyti ekki æskileg. Ég hafði sjálfur hugmyndir um það, að Iðnþróunarsjóður tæki vissa áhættu sjálfur í sambandi við gengisáhættuna og reynt yrði að finna e. t. v. aðra lausn heldur en hér er fengin á málinu. En þetta varð nú niðurstaðan, að hafa þennan hátt á í sambandi við lánin frá Iðnþróunarsjóði, að þau voru lánuð með 6% vöxtum, en ekki 10% til Iðnlánasjóðs, og útreikningar lágu fyrir. Ég hef reyndar ekki í höndunum neitt um það, en auk þessarar vaxtabreytingar komu náttúrlega til greina ýmsir aðrir möguleikar, sem þó uppfylltu nokkurn veginn það skilyrði að tryggja hag Iðnlánasjóðs með öðrum hætti en að lána með gengisáhættu. Það má svo vel vera, að menn geti fundið aðrar leiðir, sem þeim sýnist ákjósanlegri, og einnig er vel hugsanlegt, að vaxtabreytingar geti átt sér stað hér á landi eins og annars staðar, þegar við förum að lifa í viðskiptaheimi með sambærilegum hætti og annað fólk, eins og líkur benda til, að við munum gera einmitt með inngöngunni í EFTA. Alls staðar annars staðar í heiminum hefur verið miklu meiri hreyfing á vöxtum yfirleitt heldur en hér hjá okkur, í hvaða atvinnugrein sem verið hefur. Þegar óskað var eftir setningu þessara brbl., höfðu vextir yfirleitt farið hækkandi og aldrei verið hærri, held ég, þar sem okkur var kunnugt um í hinum vestræna heimi, heldur en einmitt í sumar, og voru þeir í mörgum tilfellum sambærilegir við þá vexti, sem hér er um að ræða. Sú breyting var gerð á iðnlánasjóðsvaxtakjörunum einnig, að í staðinn fyrir eldra fyrirkomulagið með 8½% forvöxtum, sem verið höfðu, tekur sjóðurinn — og hafði tekið — þessa 9% vexti eftir á, svo að það er að því leyti t. d. ekki sambærilegt við forvexti í öðrum löndum.

Hv. þm. fannst einkennilegt, að iðnlánasjóðsgjaldið skyldi vera tekið af iðnaðinum og lánað svo iðnaðinum með vöxtum. Þetta hefur nú gerzt í landbúnaði og sjávarútvegi, að sjóðirnir hafa verið byggðir upp á mismunandi hátt með gjöldum á sjálfa atvinnugreinina og síðan lánað úr þeim, auðvitað með vöxtum, til uppbyggingar atvinnugreinarinnar. Og þegar verið er að tala um, að iðnlánasjóðsgjaldið sé svo og svo hátt og framlög ríkisins minni, þau eigi að koma til jafns við iðnlánasjóðsgjaldið, þá minni ég bara á það, að Fiskveiðasjóður byggðist að langmestu leyti upp af eigin gjaldi, útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Og það var náttúrlega ekkert sambærilegt lengi framan af og ekki enn, hvernig sá sjóður hefur verið byggður upp, annars vegar með beinum framlögum frá ríkinu og hins vegar frá iðnaðinum og frá sjávarútveginum sjálfum. Gjaldið, sem bændur greiddu, var greitt úr þeirra vasa til stofnlánadeildarinnar. Þetta höfum við oft rætt um áður. Iðnlánasjóðsgjaldið gat farið inn í verðlagið, þar sem verðlagið var frjálst, og var þess vegna ekki sambærilegt við það gjald og heldur ekki sambærilegt við útflutningsgjald á sjávarafurðum. Eftir þeim fjárlögum, sem fyrir liggja, hefur ríkisframlagið til Iðnlánasjóðs nú verið hækkað um 50%, úr 10 millj. kr. árlegu gjaldi í 15 millj., og er það talið vera nokkuð sambærilegt við áorðnar breytingar á verðlagi frá því að það var ákveðið 10 millj. kr. Auðvitað væri æskilegt, að það væri hærra, æskilegt fyrir alla sjóði, og við vitum það, að Fiskveiðasjóður er mjög þurfandi fyrir miklu meira fé frá ríkissjóði. Annars staðar fær hann það ekki sem beint framlag. En hversu mikið er ríkissjóður fær um að leggja af mörkum hverju sinni? Það er það, sem menn þurfa að meta hér á þinginu frá ári til árs eftir aðstæðum.

Það hefur alveg orðið gerbylting í stofnlánamöguleikum iðnaðarins á undanförnum árum. Ég hef þær tölur ekki í huga, en lengi framan af voru þetta bara smáupphæðir úr ríkissjóði, sem Iðnlánasjóður hafði til ráðstöfunar. Nú er þetta sjóður, sem ráðstafar árlega á annað hundrað millj. kr. Fyrir 10 árum síðan nam framlag ríkissjóðs, ef ég man rétt, 2–3 millj. Það var hækkað, þegar iðnlánasjóðslögin voru sett, þá var framlag ríkissjóðs 3 millj., og var svo fyrir allmörgum árum hækkað upp í 10 millj., og gert er ráð fyrir í fjárlögum næsta árs 15 millj. kr. framlagi, eins og ég vék að áðan. Það er ljóst, að iðnaðurinn á í rekstrarfjárörðugleikum hjá okkur eins og allar aðrar atvinnugreinar okkar, vegna þess m. a., að skattalöggjöf okkar hefur verið þannig, að fyrirtækin hafa ekki getað eignazt eigið fjármagn. Það er verið að undirbúa breytingar á þessu og ég vonast eftir góðum undirtektum frá þessum hv. þm., þegar þar að kemur einmitt við slíkar breytingar á skattalögunum, sem styrkja atvinnuvegina og gefa þeim möguleika til þess að safna eigin fé, því að það tel ég vera ákaflega veigamikið og undirstöðuatriði í þessu. En hitt vil ég minna á, að þegar gefin var skýrsla og útbýtt hér í þinginu um skammtímalán eða rekstrarlán iðnaðarins, áður en við gengum í EFTA haustið 1969, þá kom í ljós, að rekstrarlán iðnaðarins voru bara ótrúlega há og að sumu leyti ískyggilega há miðað við það, sem talið er eðlilegt í öðrum löndum, skammtímalánin voru óeðlilega há. Þetta benti ég á, þegar skýrslan var lögð fram og þegar við ræddum þessi mál, en það stafaði m. a. af þessu, að menn hafa það lítið eigið fjármagn í fyrirtækjunum og stofnlánin höfðu einnig verið lítil fram til þessa, en fóru sívaxandi. En það er ekki æskilegt fyrir neina atvinnugrein að hafa mjög opinn aðgang að dýrum rekstrarlánum, ef það hamlar ekki aðstöðu þeirra til þess að efla sitt atvinnulíf, að þau geti starfað með sínu eigin starfsfé að verulegu leyti, sem við eigum að stefna að og sem ég vona, að við getum sameinazt um að stefna að.

Það hefur nú meira verið gert fyrir iðnaðinn heldur en hv. þm. vildi vera láta, og mér fannst nú djúpt tekið í árinni, þegar hann kallar Iðnþróunarsjóðinn hefndargjöf fyrir íslenzkan iðnað. En eins og kunnugt er, má veita 10% af stofnfénu eða yfir 120 millj. kr. í styrki til iðnaðarins, annaðhvort í sambandi við rannsóknir, tækniaðstoð eða til markaðsöflunar, sem ég vænti, að geti orðið mörgum iðngreinum að verulegu gagni. Það var einnig á síðasta þingi samþykkt löggjöf um útflutningslánasjóð og samkeppnislán, og þessi starfsemi — þessar lánveitingar — hefur orðið allveruleg í sumar, að vissu leyti til bráðabirgða, þar sem endanlega hefur ekki verið samþykkt reglugerðin, en fyrir tilstuðlan Seðlabankans var hafizt handa um þetta, og samkeppnislánin hafa verið í því fólgin, að þessi útflutningslánasjóður hefur veitt ýmsum aðilum hér, sem framleitt hafa tæki, t. d. spil og annað slíkt, til útvegsins, sem hægt er að kaupa erlendis frá með greiðslufresti, sambærileg lán, þannig að þau stæðu jafnfætis hinum erlenda aðila, sem gæti veitt greiðslufrest. Það er þarna fyrst með þessari löggjöf, sem mögulegt er fyrir íslenzk iðnfyrirtæki að veita sambærilegan greiðslufrest og þeir aðilar erlendir, sem selja hingað varning með greiðslufresti. Og íslenzk fyrirtæki, sem geta framleitt samkeppnishæfa vöru til sölu á erlendum markaði, geta fengið útflutningslán úr þessum sjóði til þess að geta boðið erlendum kaupendum greiðslufrest. Enn fremur voru sett lög um útflutningstryggingar við ríkisábyrgðasjóð til þess að tryggja fyrir áföllum af þeim útflutningslánum, sem þannig yrðu veitt, en með þessum hætti var komið á, á s. l. ári — og mér dettur ekki í hug annað en hv. þm. hafi fylgzt með því á sínum tíma hér á þinginu og telji það nokkurs virði — alveg nýju lánakerfi til stuðnings íslenzkum iðnaði, sem ekki var áður fyrir hendi.

Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, þó hv. þm. vilji styðja og efla íslenzkan iðnað og veita honum bæði meiri möguleika til stofnlána og rekstrarlána o. s. frv. En allt verður þetta þó að miðast við það, að menn geri sér grein fyrir, að það eru takmörk fyrir því, hvað við getum í okkar lítt fjármagnaða landi, í okkar samkeppni við fjármögnuð þjóðfélög og auðugri þjóðir, og ég hygg, að þegar á heildina er litið, verði naumast annað sagt en hér hafi verið allvel að staðið á undanförnum árum. Og eins og ég tók til orða, hefur orðið gerbylting í lánaaðstöðu iðnaðarins á síðustu árum. Það er ekki rétt, að engin aðstoð hafi verið veitt í auknum rekstrarlánum, því að það hefur verið gert á verulegan hátt og var gert strax á árinu 1969 vegna áhrifa frá gengisbreytingunni. Það er hins vegar rétt, að iðnaðurinn er fjárvana eins og margar aðrar okkar atvinnugreinar nú, vegna þess að það hefur verið mikil lyfting í íslenzkum iðnaði. Magnframleiðslan hefur stóraukizt á þessu ári og þá koma til erfiðleikar í sambandi við fjármögnun þessarar miklu magnaukningar, sem orðið hefur og liggur einhvers staðar á milli 10 og 15% og hefur ekki í annan tíma verið meiri í íslenzkum iðnaði. Ég var síðast í morgun að ræða við fyrirsvarsmenn iðnaðarins einmitt um það, hvernig mætti leysa úr vandkvæðum, sem af þessu stöfuðu, og mun ræða það sérstaklega næstu daga.

Mér er ekki kunnugt um, hvort gerður hefur verið samanburður á vaxtakjörum rekstrarlána í iðnaði í Fríverzlunarbandalaginu og hér, sem spurt var um áðan, en þó kann það vel að vera, að svo hafi verið gert af þeim aðilum, sem um þessi mál fjalla. En ég skal með ánægju hlutast til um að rannsaka það nánar og gera þeirri þn., sem fær málið til meðferðar, kunnugt um það, þannig að hún fái þá vitneskju, sem fyrir hendi er á því sviði, og sé hún ekki nægjanleg, gera þá gangskör að því, að hennar verði aflað, þannig að menn geti borið þessa hluti saman, hvort sem okkur tekst í einu vetfangi að verða að þessu leyti sambærilegir við aðra eða ekki, og fer það auðvitað mjög eftir atvikum.

Ég vil svo aðeins ljúka þessu máli með því að vekja athygli á því, sem ég sagði í minni ræðu, að ég tel, að gæti verið mjög eðlilegt að athuga vaxtabreytingar frá einum tíma til annars og miðað við vaxtakjör erlendis, eins og vikið var að. Þegar þessi lög voru sett, voru þau hækkandi. Það er rétt, að þau hafa lækkað eitthvað smávægilega. Mér er nú ekki mjög vel kunnugt um það, en maður hefur heyrt fréttir af því, að á nokkrum stöðum hafi orðið ½% lækkun á vöxtum, sem áður höfðu verið hækkandi framan af ári, en í þessum efnum hafa eins og kunnugt er orðið meiri sveiflur í nágrannalöndum okkar í Vestur-Evrópu og einnig í Bandaríkjunum heldur en verið hefur hjá okkur.