25.11.1970
Neðri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

9. mál, Iðnlánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé rétt, að ég láti strax í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. forsrh. endaði miklu betur en hann byrjaði. Hann byrjaði að tala á þá leið, að hann léti sér þessa gagnrýni mína í léttu rúmi liggja, en í lokin tók hann eiginlega undir það, sem ég hafði sagt, og taldi, að það væri rétt að athuga með lagfæringar á vöxtum iðnaðarins og annarra atvinnugreina í samræmi við þá þróun, sem væri nauðsynleg og annars staðar ætti sér líka stað. Ég held, að ég hafi ekki sagt, að norræni iðnþróunarsjóðurinn væri hefndargjöf, en hins vegar komizt að orði á þá leið, að mér virtist, að hann ætlaði að verða hálfgerð hefndargjöf, ef hann leiddi til almennra hækkana á stofnlánavöxtum iðnaðarins, eins og nú eru horfur á. Og satt að segja skil ég það ekki, að það þurfi að hækka stofnlánavexti iðnaðarins almennt vegna Iðnþróunarsjóðs. Iðnþróunarsjóður fær framlag frá Norðurlöndum vaxtalaust og hann þarf ekki að borga þetta aftur fyrr en eftir 10 ár og þá með jöfnum afborgunum, borgar aldrei neina vexti. Hins vegar samkv. því, sem hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan, þá virðist bann endurlána þessi framlög, sem hann fær frá Norðurlöndum, með 6% vöxtum og gengisáhættu. Ég held, að þetta séu óhagstæð lánskjör, þar sem sjóðurinn fær framlögin vaxtalaus. Ég held, að það ætti alveg að nægja fyrir sjóðinn að fá tiltölulega lága vexti til að vega á móti gengisáhættunni eða þá sleppa vöxtunum að mestu og hafa bara gengisáhættuna. En hitt að hafa bæði 6% vexti og gengisáhættu á fé, sem sjóðurinn fær vaxtalaust, finnst mér allt of langt gengið. Og ég trúi því ekki, að þeir aðilar, þ. e. a. s. ríkisstjórnir Norðurlanda, sem lögðu þetta fé fram vaxtalaust, hafi ætlazt til þess, að Iðnþróunarsjóður endurlánaði það aftur með þessum hætti, því að ég vil nú trúa því, að það verði ekki það miklar gengisbreytingar hjá okkur á næstunni eða við komum til með að lifa heldur skynsamlegar heldur en á síðasta áratug, þannig að t. d. hóflegir vextir á þessum lánum ættu að nægja til þess að mæta gengisáhættunni eða þá fara hina leiðina að sleppa vöxtunum að mestu og láta fylgja lánunum gengisáhættu. En mér finnast kjörin hjá Iðnþróunarsjóði vera allt of óhagstæð miðað við það, að hann fær féð vaxtalaust og þarf þess vegna ekki að lána það út bæði með háum vöxtum og gengisáhættu að auki, eins og hann gerir, og þess vegna leiðir það til þess, að Iðnlánasjóður telur sig þurfa að hækka vextina almennt vegna þeirra lána, sem hann fær hjá Iðnþróunarsjóði. Ég tel þess vegna, að það eigi að taka það til athugunar að fá vaxtakjörin eða útlánskjörin hjá Iðnþróunarsjóði lagfærð að nokkru, þannig að Iðnlánasjóður þurfi ekki að taka svona óhagstæð lán hjá honum. Mér skilst líka, að þeir aðilar aðrir, aðrir en Iðnlánasjóður, sem fá lán hjá Iðnþróunarsjóði, verði að sæta þessum kjörum, allháum vöxtum og gengisáhættu til viðbótar. Og mér hefur líka skilizt, að það leiddi til þess, að það væri miklu minni eftirspurn eftir þessum lánum heldur en búizt hafði verið við, vegna þess að iðnaðurinn telur þau svo óhagstæð. Þess vegna er það áreiðanlega mikil nauðsyn, að endurskoðuð séu hjá Iðnlánasjóði þau lánakjör, sem hann hefur nú, og þeim breytt í það horf, að hann verði iðnaðinum raunverulega til styrktar, eins og vafalaust hefur verið ætlazt til af þeim aðilum, sem leggja fram féð í Iðnþróunarsjóð, sem eru ríkisstjórnir Norðurlanda. Mér skildist líka á því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann teldi, að þetta mál gæti komið til athugunar og endurskoðunar á ný, og ég fagna þeim ummælum hans og vænti þess þá, að það lendi þar við meira heldur en orðin tóm, að það verði að endurskoða að nýju þessi lánskjör, sem Iðnþróunarsjóður hefur ákveðið nú að sinni og eru óeðlilega óhagstæð. Það er algerlega fjarri öllu lagi, að sjóður, sem fær fé vaxtalaust, láni það aftur með 6% vöxtum og gengisáhættu. Þá er hann orðinn gróðafyrirtæki á kostnað iðnaðarins, sem áreiðanlega hefur alls ekki verið ætlazt til. Og ég verð að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst það skjóta skökku við, þegar maður hefur í huga þær umr., sem fóru hér fram í sambandi við EFTA-aðildina í fyrra, — þá var talað um, að það þyrfti að bæta og styrkja iðnaðinn á sem beztan hátt — að niðurstaðan skuli verða sú, að vextir af stofnlánum hans séu hækkaðir, eins og hér hefur raunverulega verið gert, þar sem vextir Iðnlánasjóðs hafa verið hækkaðir úr 8½% í 9%. Sú hækkun er áreiðanlega óþörf, ef unnið er að því með oddi og egg að breyta útlánakjörunum hjá Iðnþróunarsjóði.

Hæstv. ráðh, komst þannig að orði, að við mundum í framtíðinni þurfa að lifa í sambærilegum heimi við aðra með okkar atvinnugreinar. Það er vafalaust rétt hjá honum, að þróunin stefnir í þá átt, en ef við eigum að vera færir um það að lifa í sambærilegum heimi við aðra, t. d. á þessu sviði, þá verðum við að stefna að því og vinna að því, að t. d. okkar atvinnuvegir, og ekki sízt iðnaðurinn, búi ekki við lakari lánskjör heldur en þeir aðilar erlendir, sem þeir keppa við. En mér sýnist, að það hafi ekki verið haft í huga í sambandi við þá vaxtabreytingu, sem hér hefur átt sér stað.

Í sambandi við rekstrarlánin sagði hæstv. ráðh., að það hefði orðið nokkur lagfæring í þeim efnum á undanförnum árum og sérstaklega árinu 1969. Það er rétt, að það varð nokkur breyting á því ári í þá átt að bæta rekstrarlánaaðstöðu iðnaðarins. En því miður hefur ekki orðið neitt framhald á því á þessu ári, þó að það hefði verið nauðsynlegt, bæði vegna EFTA-aðildarinnar og eins vegna þess, að kaupgjald hefur mjög hækkað í landinu og iðnaðurinn þess vegna haft þörf fyrir aukin rekstrarlán. Og ég held, að þetta stafi ekki eingöngu af því, að fjármagn hafi skort til þess að fullnægja þessari þörf iðnaðarins, vegna þess að innlög hafa verulega aukizt í bankana. Ég held, að þetta stafi að verulegu leyti af því, að Seðlabankinn hefur gefið viðskiptabönkunum þau fyrirmæli að auka útlánin sem allra minnst og helzt ekki neitt. Og vegna þess, að viðskiptabankarnir hafa reynt að fara eftir þessum fyrirmælum Seðlabankans, þá hafa þeir haldið í lánsfé við iðnaðarfyrirtækin og þau þess vegna ekki fengið bætt úr þeirri vaxandi þörf, sem hefur skapazt hjá þeim fyrir aukin rekstrarlán vegna kauphækkananna og vegna aukinnar samkeppni við EFTA-löndin. Ég held, að það sé fyrst og fremst þessi afstaða Seðlabankans, sem veldur því, að iðnaðurinn hefur ekki fengið fullnægt sínum þörfum í sambandi við rekstrarlánin, og ég vildi vænta þess í framhaldi af þessum umr. og þeim hlýlegu ummælum, sem hæstv. iðnrh. lét hér falla í garð iðnaðarins, eins og reyndar oft áður, að hann snúi sér til Seðlabankans og vinni að því, að hann breyti sinni afstöðu og sínum fyrirmælum til viðskiptabankanna, a. m. k. hvað þetta atriði snertir.

Hæstv. iðnrh. benti á það í sambandi við iðnlánasjóðsgjaldið, að bæði landbúnaður og sjávarútvegur hefðu lagt í sína stofnsjóði og borgað nokkra vexti af því. En það er þó rétt að benda á, að þessir vextir eru mun lægri. Núna eru vextir á stofnlánum hjá sjávarútvegi og landbúnaði yfirleitt ekki nema 6½%, en hins vegar verður iðnaðurinn að greiða 9% vexti af stofnlánum, a. m. k. af þeim lánum, sem hann fær frá Iðnlánasjóði. Hér er þess vegna um mjög verulegan mun að ræða, sem sýnir það, hvað iðnaðinum eru alltaf skömmtuð lakari kjör heldur en öðrum hliðstæðum atvinnuvegum. Þess er svo enn fremur að gæta, að ríkissjóður hefur lagt miklu meira af mörkum í stofnlánasjóði landbúnaðar og sjávarútvegs heldur en Iðnlánasjóð. Eins og ég rakti hér áðan, nemur framlag ríkisins til Iðnlánasjóðs ekki nema 60 millj. kr., en iðnfyrirtækin sjálf hafa lagt í sjóðinn 170 millj. kr. með greiðslu á iðnlánasjóðsgjaldinu. Ég held, að hlutföllin séu ekki slík í sambandi við stofnlánasjóði landbúnaðarins eða sjávarútvegsins. Ef um einhvern mun er þar að ræða, hygg ég, að hann sé miklu minni en þetta, og þetta sýnir ásamt fleiru, hvernig verr er búið að iðnaðinum heldur en öðrum atvinnugreinum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta atriði nú að sinni. Ég segi það aftur, að ég fagna þeim ummælum iðnrh., að hann taldi sig fúsan til að láta fara fram athugun á því, hvort ekki væri hægt að breyta þeim vaxtaákvörðunum, sem hafa verið teknar og fela það í sér, að vextir af stofnlánum iðnaðarins hækka, og þá verður að sjálfsögðu að gera það fyrst og fremst á þann hátt að fá Iðnþróunarsjóð til að breyta vöxtum og lánskjörum á þeim lánum, sem hann endurlánar. Og það finnst mér, að sé ákaflega auðvelt, þar sem sjóðurinn fær féð vaxtalaust, að hann geti lánað það með miklu minni vöxtum en 6% og gengisáhættu.