17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

258. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt eins og fram kemur í aths. við það, óbreytt frá þeim tillögum, sem nefnd, er skipuð var hinn 28. okt. 1970, lagði fram. Nefndin skilaði áliti nýlega. Svo sem alkunna er, hefur á undanförnum árum verið mikill skortur á starfsliði í sjúkrahúsum í ýmsum greinum, en nokkrar nýjar stéttir hafa bætzt við á undanförnum árum. Réttur þessara stétta hefur ekki verið afmarkaður með lögum hvorki að því er starfsheiti varðar né starfsgreiningu, þó að það sé talið nauðsynlegt. Í umsögn landlæknis, sem dagsett er 9. okt. 1970, var enn fremur lagt til, að samið yrði á næstunni frv. til laga um aðstoðarfólk við lækningar og yrði frv. þannig úr garði gert, að undir lögin gætu fallið allir slíkir tæknilegir aðstoðarmenn, þ. á m: meinatæknar og röntgentæknar, sem svo hafa verið nefndir. Það er einróma álit nm., að taka yrði til endurskoðunar og samræmingar öll gildandi lög og reglugerðir um heilbrigðisstéttir, sem hafa hlotið það nafn í þessu frv., og eðlilegast væri þá að fella slík ákvæði saman í einn og sama lagabálk. Þetta er að sjálfsögðu framtíðarverkefni, sem unnið mun verða að, en nauðsynlegt er talið vegna ýmissa óljósra atriða, að meinatæknum og röntgentæknum verði nú þegar ætlað það starfssvið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Sú nefnd, sem undirbjó frv. fyrir ári, var skipuð Jóni Ingimarssyni, skrifstofustjóra heilbr.- og trmrn., Ásmundi Brekkan yfirlækni, Bergljótu Haraldsdóttur meinatækni, Davíð Davíðssyni prófessor og Maríu Finnsdóttur yfirhjúkrunarkonu. Niðurstaðan af störfum nefndarinnar er með öðrum orðum þetta frv., sem hér er að langmestu leyti og nánast eingöngu faglegs eðlis og þess vegna eðlilegt, að fulltrúar frá þeim aðilum, sem ég nefndi hér áðan, skipuðu slíka nefnd, og er nefndin sammála um að leggja til, að frv. verði eins og ég hef þegar greint frá. Ég held, að þetta frv. sé góð byrjun og tel það tvímælalaust nauðsynlegt, að byrjað sé á því að samræma þessi störf. Ljóst er af fyrri umræðum hér í þinginu, þ. á m. í fsp.-tíma hér fyrir nokkru, að ýmislegt annað þarf þarna til að koma, eins og fram hefur komið áður, og síðan þarf að fella þetta allt inn í einn lagabálk og veita þessum starfshópum opinberlega viðurkenningu til þessara starfa með löggildingu, til þess að þeir einir gegni þessum stöðum, sem axlað geta þá ábyrgð, sem óhjákvæmilega hvílir á herðum þessa fólks. Þróunin erlendis bendir einnig til þess, að fleiri slíkir sérhæfðir starfshópar verði hafðir til aðstoðar við lækningar, þar sem tæknimenntað aðstoðarfólk er nauðsynlegt, með tilkomu nýrra hjálpartækja og nýrra sjúkrahúseininga með mjög flóknum tæknibúnaði.

Ég tel ekki þörf á því að fjalla um einstakar greinar frv. umfram það, sem segir í aths. um það, enda er frv., eins og ég áðan sagði, mjög faglegs eðlis og vart á færi annarra en þeirra, sem þar gerst til þekkja, að fjalla um efni einstakra greina, sem ég tel þó, að skýri sig nokkuð sjálfar. Það er rétt að geta þess, eins og ég minntist á áðan, að í ýmsum efnum stendur ekki á lagasetningu, heldur langtum fremur á reglugerðarsetningu varðandi starfsskiptingu þessara stétta, og er að því unnið á vegum rn., að reglugerðir verði settar hið allra fyrsta, og ætti það einnig að auðvelda samskipti þessa fólks, þannig að ekki þurfi að verða ágreiningur um, hvað sé á starfssviði hvers og eins.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.og félmn. Og ég vildi gjarnan, áður en ég vík hér úr ræðustólnum, leggja áherzlu á það, að þessi þáttur í skilgreiningu sérmenntaðs fólks í heilbrigðisþjónustunni nál fram að ganga á þessu þingi, ef þess er nokkur kostur. Ég hef orðið var við það, að ýmsir hafa gert aths. við fyrirsögn frv., og hún er að sjálfsögðu ekki heilög kýr, sem ekki má breyta, ef menn geta fundið þar eitthvað betur við hæfi en hér er lagt til. En sú n., sem málið undirbjó, var sem sé skipuð þeim fulltrúum, sem greint er frá í aths. við frv. og ég áðan nefndi, og hún leggur einróma til, að frv. nál fram að ganga. Eins og ég segi, má breyta minni háttar atriðum, eins og fyrirsögn frv., sem ekki er nauðsynlegt, að sé endilega með þeim hætti, sem hér er lagt til, ef menn eiga betri orð í fórum sínum, og þá einkum sú þingnefnd, sem um málið fjallar. Ég óska eindregið eftir því, að n. hraði afgreiðslu málsins, þannig að það nál fram að ganga á þessu þingi, sem nú er langt komið.