18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, þar sem hann fagnar framkomu þessa frv., og hann var vel á veg kominn að lýsa yfir þakklæti til hæstv. ráðh. fyrir að leggja það fram, þegar hann áttaði sig á því, að sennilega mælti hann þar of mikið, og lauk þess vegna aldrei þeirri setningu, því að hún hefði sannast sagna ekki átt vel við í sambandi við þetta mikla nauðsynjamál þjóðarinnar, því að ég held, að á þeim nær 12 árum, sem ég hef setið á hv. Alþ., þá hafi ég ekki séð öllu grófara dæmi en þetta um áhugaleysi hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta á framgangi jafnmikilvægs máls eins og þessa. Ég hefði því talið, að það væri mjög ofmælt, hefði hv. síðasti ræðumaður sérstaklega þakkað fyrir, að þetta frv. var lagt fram. Það er vikið lítillega í grg. að aðdraganda þessa máls. Þar er getið um, að seint á árinu 1966 hafi mjög fjölmenn n., sem hæstv. sjútvrh. í eina tíð, Emil Jónsson, hafði skipað þá fyrir tveimur árum, skilað frumvarpi í hendur hæstv. sjútvrh., sem þá mun hafa verið — ja, ég man ekki, hvort Eggert Þorsteinsson var þá tekinn við eða Emil Jónsson var enn þá í því ráðherrasæti, en hvað um það.

Hið fullbúna frv. um fiskiðnskóla, sem vel hafði verið vandað til og margir menn höfðu unnið að um nærri tveggja ára tíma, sá ekki dagsins ljós og var aldrei lagt fram af hæstv. ríkisstj., og þegar drátturinn var kominn nokkuð á annað ár frá því, að þessu frv. var skilað í hendur hæstv. ríkisstj., þá tókum við okkur til, hv. þm. Ingvar Gíslason og ég, og fluttum þetta frv. óbreytt, eins og það hafði komið frá n. Síðan höfum við endurflutt þetta frv. a. m. k. þrisvar sinnum, án þess að það hafi komizt í gegnum þingið. Það hefur sofnað svefninum langa hvert þinghaldið á eftir öðru og verið satt að segja ákaflega leiðinlegt og erfitt að þurfa að fylgjast með þeim móttökum, sem frv. hefur fengið á hv. Alþ.

Frv. það, sem hér liggur loksins fyrir og við skulum vænta, að verði afgreitt frá þessu þingi, af því að það er nú lagt fram af hæstv. ráðh., er í verulega mörgum atriðum byggt á þeim till., sem fiskiðnskólanefndin gerði í desember 1966, enda er um það getið í grg. með því, að það sé byggt á þeim till., sem þar var að finna. Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á því, sem mér virðast við fljótan yfirlestur ekki vera til bóta, og sumar breytingarnar eru hrein afturför að mínu viti. Ég tel t. d., að það sé ákaflega skrýtið, að þegar semja á slíkt frv. sem þetta, þá er skipuð til þess n., sem ekki er í einn einasti maður, sem tengdur er fiskiðnaðinum, hefur unnið þar á undanförnum árum eða hefur sérstaka þekkingu á þeirri mikilvægu atvinnugrein landsmanna. Enginn slíkur maður var fenginn til þess að taka sæti í n. Þetta tel ég ótvíræðan galla og satt að segja vera beint framhald af þeim vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft í þessu máli, þar sem stærstu útflutningsgrein landsmanna hefur ekki verið sýndur sá sómi, að það hafi fengizt lögtekið á Íslandi, að hún fái einn fagskóla fyrir sína grein á sama tíma og það er nú að gerast, að búið er að ákveða að stofna þriðja bændaskólann í landinu, sem ég fagna fyrir hönd þeirrar stéttar. En á sama tíma hefur ekki fengizt ákvörðun meiri hl. Alþ. til þess að stofna einn skóla í fiskiðnaði Íslendinga, stærstu atvinnugrein landsmanna, sem þjóðin á meira undir, að vel sé rekin, en nokkur önnur atvinnugrein, sem rekin er í landinu.

Eitt af því fyrsta, sem ég rak augun í, þegar ég renndi yfir þetta frv., var breyting sú, sem er að finna í 6. gr. frv. frá því, sem gert er ráð fyrir í því frv., sem ég hef staðið að að flytja í þrjú skipti og fiskiðnskólanefnd var öll sammála um, þ. e. að staðsetning þessa skóla skyldi vera á Suðvesturlandi. Það hefur verið flutt hér annað frv. af hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, þar sem hann talar um að koma upp slíkum skóla í Vestmannaeyjum. Nú sé ég, að í 6. gr. þessa frv. er báðum þessum till. breytt þannig, að sett er inn, að skólinn skuli staðsettur í Reykjavík. Þess er getið sérstaklega í grg., að þessa ákvörðun um staðsetningu skólans í Reykjavík hafi sjálft menntmrn. tekið, því að n. hafi ekki talið það vera sitt hlutverk að ákveða staðsetningu skólans. Ég vil sérstaklega mæla hart gegn þessari breytingu. Við ræddum þetta þeir 9 eða 10 menn, sem voru í fiskiðnskólanefndinni, sem var mjög fjölmenn, hvar bezt væri að staðsetja skólann, og menn voru þar, held ég, í miklum meiri hluta, sem voru því fylgjandi, að þessi skóli yrði staðsettur utan Reykjavíkur.

Við skulum gá að því, að í landinu hefur sú þróun stöðugt farið vaxandi af síauknum þunga, að flestöllum opinberum stofnunum er hlaðið hér niður á einum og sama stað, þ. e. í höfuðborginni. Ég viðurkenni, að í sumum tilfellum eru málavextir þannig og aðstæður þannig, að það er eðlilegt, að þeim stofnunum sé valinn staður í Reykjavík. En við erum komnir það langt á þessari braut, að þegar engin sérstök rök mæla með því, að opinberar eða hálfopinberar stofnanir eða fyrirtæki skuli staðsett í Reykjavík umfram aðra staði, þá tel ég það hreinan óþarfa og raunar ganga gegn ríkum og sanngjörnum þjóðfélagshagsmunum, að þeim stofnunum, sem eðli málsins samkvæmt verða ekki að vera í Reykjavík, skuli þar ákveðinn staður í l. Ég sé engin sterk og mikilvæg rök, sem mæli sérstaklega með því, að þessi skóli sé staðsettur í Reykjavík.

Ég hef lesið það, sem sagt er um þessa grein í grg., og vil með leyfi hæstv. forseta aðeins lesa upp úr henni, en rökstuðningur rn. fyrir þessari ákvörðun er þessi: „a) að starfsmenn Rannsóknastofnana sjávarútvegsins, opinberra matsstofnana og sölusamtaka nýtist til kennslu;“ það á að vera rökstuðningur fyrir því, að hann skuli vera í Reykjavík, og „b) að fiskiðjuver með fjölbreyttri fiskvinnslu sé í nánd við skólann.“

Þetta eru þau rök, sem rn. hefur fyrir þessari staðarákvörðun sinni. Nú er mönnum það ljóst, a. m. k. að því er tekur til b-liðarins, að margir aðrir staðir eru hér í næsta nágrenni og raunar víðar, sem hafa fullkomnari og fjölbreyttari fiskvinnslu, að því er ég ætla, en frystihúsin hér í Reykjavík. Og ég vil fullyrða það, að bæði Keflavík og Vestmannaeyjar og raunar fleiri staðir eru miklu meiri framleiðslustaðir sjávarafurða en Reykjavík er nokkurn tíma. Ég tek heldur ekki mjög alvarlega þá röksemd, sem er að finna um, að starfsmenn Rannsóknastofnana sjávarútvegsins, opinberra matsstofnana o. s. frv. búi í Reykjavík og það ráði einhverjum úrslitum um, að skólinn þurfi endilega að vera í Reykjavík, en ekki einhvers staðar annars staðar. Við ræddum þetta atriði í fiskiðnskólanefndinni á sínum tíma og vorum, að ég held, allflestir sammála um, að það væru engin þau efnisatriði til, sem gerðu það eðlilegra, að skólinn yrði í Reykjavík, en t. d. einhvers staðar í næsta nágrenni, t. d. í Hafnarfirði, Keflavík eða hvar sem væri.

Nei, ég verð að segja, að mér urðu það mikil vonbrigði, að hæstv. ráðh. og hv. rn. skuli ekki vilja líta til sanngjarnra óska og krafna frá stöðum utan Reykjavíkur um það að fá eitthvað af þeim opinberu og hálfopinberu stofnunum, sem efnt er til, á aðra staði en í sjálfri höfuðborginni. Ég segi þetta ekki af neinum óvilja í garð höfuðborgarinnar, nema síður sé. Ég er bara að benda á, að við erum þegar búnir að gera of mikið af því að setja niður opinberar stofnanir í höfuðborginni, og ég vil benda á það, að um það var getið og frá því greint í fréttum nú fyrir nokkrum vikum, að ég ætla, að Svíar hefðu gripið til þess ráðs að flytja margar meiri háttar stofnanir, sem voru í Stokkhólmi staðsettar, úr höfuðborginni til ýmissa annarra staða í Svíþjóð einmitt til þess að vinna á móti þessari þróun, sem þar hefur verið í gangi eins og hér, þ. e. að öllum þessum stofnunum hættir til þess að lenda í höfuðborgunum, og vildu þeir þannig vinna á móti óheppilegum þjóðfélagslegum áhrifum, sem þessi samansöfnun stofnananna á einn stað hefði í för með sér.

Ég vil líka skýra frá því, sem hæstv. alþm. e. t. v. vita, að fyrir nokkrum mánuðum — ég sakna nú þess, að hæstv. ráðh. er ekki hér inni — bauð Kópavogskaupstaður yfirmönnum menntamála lóð á bezta stað í bæjarfélagi sínu, á miðbæjarsvæðinu, sem er óskipulagt — og þaðan sem er mjög fagurt útsýni yfir stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu. Kópavogskaupstaður bauð hæstv. rn. lóð þar undir væntanlegt útvarpshús. Ég veit ekki til þess, að því boði hafi verið svarað af rn. eða hæstv. ráðh.; mér er ekki kunnugt um það. En skömmu síðar heyrði ég, að ákveðið væri, að þetta útvarpshús skyldi einnig byggja í Reykjavík. Þetta er, eins og ég hef sagt, komið út í algerar öfgar að setja allar stofnanir niður í höfuðborginni.

Ég mæli þau orð sérstaklega og ekki sízt til hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar, 3. þm. Sunnl., sem hefur flutt eins og ég og Ingvar Gíslason frv. um fiskiðnskóla, sem staðsettur væri utan Reykjavíkur, að hann gangi í bandalag við okkur og aðra þá menn, sem eru svipaðs sinnis um, að það þjóni engum þjóðfélagslega réttlátum eða hagkvæmum hagsmunum að setja opinberar stofnanir niður í höfuðborginni sérstaklega, sem engin þörf er fyrir þar, heldur beri að dreifa þeim á byggðirnar. Ég vil mælast til þess, að með okkur geti tekizt bandalag, hvað sem öllum flokkum líður, til þess að fá breytt þeim ákvæðum, sem er að finna í 6. gr. frv. um staðsetningu skólans. Ég hef nú flutt brtt. — eða gerði það þegar í gær, um leið og ég sá þetta — um, að í stað Reykjavíkur yrði skólinn staðsettur í Keflavík. Það má vafalaust líka deila eitthvað um það, og ég er til viðtals við hvern þann þingmann, sem vill vinna að því að fá breytt ákvæði 6. gr um það, hvar skólinn eigi að vera.