18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki efni frv., sem ég ætla að minnast á, heldur aðeins á þá till. hæstv. ráðh. að vísa þessu máli til menntmn. Ég vil ekki færast undan því að taka þátt í athugun á þessu máli, þar sem ég á sæti í menntmn., en ég tel þetta geta leitt til þess, að málið dagi uppi. Öruggasta leiðin til þess, að það dagi uppi, er sú að vísa því til menntmn., og það er af þeirri ástæðu, að á síðustu dögunum hafa komið fram 7–8 frv. og ég held — öll eða nær öll stjfrv. um menntamál. Þau eru að vísu flutt í Ed., en ekki verða þau að lögum, nema þau komi til Nd., og þá eiga þau öll að fara til menntmn. (Gripið fram í: Við erum nú afreksmenn.) Já. Menntmn. hefur staðið sig ákaflega vel í tveimur málum sérstaklega, sem nýlega er búið að afgreiða til þingsins frá n., og hún hefur lagt ákaflega mikið á sig, svo að þess vegna held ég, að ekki ætti að ofþyngja henni að óþörfu með því að bæta við einu málinu enn, sem kannske er verulegur ágreiningur um.

En svo liggur hitt fyrir, að það eru tvö frv. um sama efni, sem liggja fyrir þessari hv. d., og þau eru bæði í sjútvn. Hvers vegna á þá ekki þetta að fara þangað líka? Það er bezta leiðin til þess að svæfa þetta mál, ef því verður vísað til menntmn. — ekki af því, að nm. dragi neitt af sér frekar en fyrri daginn við að vinna vel, heldur af því, að þeir munu tæplega komast yfir það. Svo held ég, að það séu einhver mál óafgreidd hjá menntmn., ef ég man rétt. Ég man ekki hve mörg, en þau eru þó einhver. (Gripið fram í: Þau eru fá.) Þau eru fá, já, en það munar um hvert málið, þegar ekki eru eftir nema tvær vikur til þingloka. Mér skilst, að eigi þetta allt að fara í gegnum þingið, þá muni menntmn. þurfa að afgreiða a. m. k. eitt eða 1½ mál á dag eða nálægt því. Nei, svona vinnubrögð, held ég, að séu óheppileg. Þess vegna er það, sem ég bendi hv. þm. á það, að það er hyggilegt að vísa þessu máli til sjútvn., ef þeir vilja fá málið fram, og það held ég, að sé almennur áhugi á og ekki síður hjá mér en öðrum. Þessu vil ég sérstaklega beina til hæstv. forseta, að hann hlutist til um það við hæstv. ráðh., að hann fallist á að vísa málinu til sjútvn. til þess að greiða fyrir því.