24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þeirra ummæla, sem hér hafa verið höfð uppi um þetta mál. Ég hafði flutt á þskj. 542 till. um, að breyting yrði gerð á 6. gr. frv., sem kveður svo á, að fiskvinnsluskólinn skuli staðsettur í Reykjavík, og hafði ég með brtt. þessari lagt til, að honum yrði ákveðinn staður í Keflavík. Í hv. sjútvn. þessarar d. urðu talsverðar umr. um staðsetningu skólans. Menn í sjútvn. voru almennt sammála um það atriði, að fiskvinnsluskólamálið væri stórmál og hefði átt óeðlilega ógreiðan gang á undanförnum árum í gegnum þingið, og menn voru allir sammála um, að ef til harðvítugra deilna yrði stofnað hér í þinginu um sjálfa staðsetningu skólans, þá kynni það að leiða til þess, að frv. kæmist ekki í gegn á þessu þingi, og menn voru almennt sammála um, að það væri mikill skaði. Í ljósi þessara staðreynda og þessara umr. var það svo, að við flm. þeirra brtt., sem er að finna á þskj. 542 og eins á þskj. 560, gerðum samkomulag við aðra hv. nm. í sjútvn. um það að draga till. okkar til baka gegn ákveðnum breytingum, er n. flytti við sjálft frv., en brtt. þessar liggja frammi á þskj. 635 og hefur verið fyrir þeim talað, og skal ég ekki bæta þar neinu við nema því einu, að ég hjó eftir því — er hv. frsm. sjútvn., hv. 5. þm. Vestf., var að tala um þá skóla, er brtt. gera ráð fyrir, að stofnaðir verði í Vestmannaeyjum, á Suðurnesjum og í öðrum stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum — að hann sagði: „ef stofnaðir verða.“ En í sjútvn. var algert samkomulag um það og er raunar forsenda fyrir því, að ég hef dregið mína brtt. til baka, að skólarnir verði stofnaðir á þessum árum, enda sker orðalag sjálfrar brtt. að mínu viti ótvírætt úr um, að þessir skólar skuli stofnaðir á þessum tilteknu árum.

Ég tel líka rétt, að það komi fram, að mönnum þótti í sjútvn. sanngjarnt miðað við aðstæður og miðað við það stóra framleiðslusvæði, sem Suðurnesin eru, að þar yrði fyrst undinn bráður bugur að því á árunum 1972–1975 að stofna til þessara skóla, er ráðgert er að rísi á Suðurnesjum. Ég vil svo aðeins að síðustu og aðeins til upplýsingar segja, að í morgun hringdi til mín einn af bæjarfulltrúum Hafnarfjaðarkaupstaðar og skýrði mér frá því, að á bæjarstjórnarfundi í gær — svo tók ég eftir eða í fyrradag — hefði verið samhljóða samþ. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að æskja eftir því, að fiskvinnsluskólinn yrði staðsettur í Hafnarfirði, og hann skýrði mér frá því, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði boðið fram sérstakt húsnæði, að mér skilst endurgjaldslaust, sem hægt væri að reka aðalskólann í. Án þess að ég ætli að fara nokkuð að leggja dóm á þær óskir á þessari stundu, þá vil ég þó benda á það, að sá rökstuðningur stenzt ekki, sem er að finna í sjálfu frv. í grg. með 6. gr. og þá aðallega í a-liðnum, um nauðsyn þess, að skólinn þurfi að vera í Reykjavík, en þar segir, að starfsmenn rannsóknastofnana sjávarútvegsins, opinberra matsstofnana og sölusamtaka nýtist til kennslu, vegna þess að þeir séu flestir í Reykjavík. Ef horfið yrði að því ráði, að aðalskólinn yrði staðsettur í Hafnarfirði, þá hlýtur öllum að vera það ljóst, að þessir ágætu menn, sem við þessar stofnanir starfa, geta að sjálfsögðu alveg eins stundað þessa kennslu, þótt skólinn væri suður í Hafnarfirði, en ekki í Reykjavík. Og hygg ég enda, að sumir af starfsmönnum þessara rannsóknastofnana séu búsettir í Hafnarfirði.

Með vísan til þess, sem ég hef hér sagt, þá leyfi ég mér að draga þá brtt. á þskj. 542, sem lýst hefur verið, til baka.