24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gerast langorður um þetta mál, en ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þessu 10 ára stríði eða baráttu, sem þeir hófu fyrir 10 árum, hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, og hv. þm. Reykn., Jón Skaftason, skuli nú vera að ljúka, að því er virðist, með allgóðum árangri. Og má segja, að sum stríð mannkynssögunnar hafi að vísu staðið lengur. En alllangt þykir okkur þetta stríð orðið, sem áhuga höfum haft á því, að tekin yrði upp kennsla í fiskiðnaði hér á landi. Og gott er, að það skuli nú hafa borið þann árangur, sem hér er um að ræða.

Ég vil segja það um þær brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. sjútvn., að mér virðast þær vera til bóta, þ. e. til bóta á frv. yfirleitt, eins og það var, þegar það var lagt fyrir af hæstv. menntmrh. Og það, sem einkum er til bóta, er það, að þar er gert ráð fyrir kennslu í þessum fræðum í ýmsum landshlutum, og eins hygg ég, að það geti verið gagnlegt, að nokkurt samband sé í þessum efnum á milli fiskvinnsluskólans og stýrimannaskólanna, eins og nú er gert ráð fyrir í 2. gr. í brtt. n. og þá aðallega, að því er varðar meðferð á fiski um borð í skipum, sem að sjálfsögðu er ákaflega mikilsvert, að sé eins góð og hún þarf að vera. Mig langar til þess að spyrjast fyrir um það hjá hv. frsm. n., sem hv. þm. Reykn. nefndi hér áðan, hvort það sé ótvírætt, að n. leggi þann skilning í aðra mgr. 3. tölul. í till. sínum, að fiskvinnsluskólar þeir, 1. og 2. stigs, sem munu eiga að útskrifa fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara, verði stofnaðir á árunum 1972–1975. Í brtt. stendur: „Á árunum 1972–1975 skal enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum.“ Ég vil ekki leyna því, að mér finnst þetta orðalag ekki alveg ótvírætt, nema til komi yfirlýsing frá hv. sjútvn. og því verði ekki andmælt al ráðh., að þessir skólar 1. og 2. stigs verði stofnaðir á því tímabili, sem hér er um að ræða. Ég vil spyrja um það, hvort þetta orðalag megi skilja þannig og ei,gi að skilja þannig.

Þá vil ég koma að atriði, sem nokkuð var rætt við 1. umr., og það er um staðsetningu fiskvinnsluskóla. Segja má, að stofnun fiskvinnsluskóla eða fiskiðnskóla sé svo mikilvæg í sjálfu sér, að það eigi ekki að láta í ljós ágreining um staðarval í því sambandi. En ég hlýt nú samt að gera það mál að umtalsefni og vona, að það geti á engan hátt orðið til þess að tefja þetta frv. Í frv., eins og það kom frá hæstv. ríkisstj., stóð í 6. gr.: „Skólinn“, þ. e. fiskvinnsluskólinn, „skal staðsettur í Reykjavík.“ Síðan kom fram brtt. frá hv. þm. Reykn. um, að skólinn yrði staðsettur í Keflavík, og frá nokkrum þm. af Suðurlandi kom brtt. um það, að skólinn skyldi staðsettur í Reykjavík að vísu, en auk þess stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, 1. og 2. stigs. Nú hefur það orðið samkomulag í hv. sjútvn., að skólinn verði í Reykjavík, þ. e. aðalskólinn, þriggja stiga skóli fyrir fiskiðnaðarmenn, fiskvinnslumeistara og fisktækna, en auk þess verði stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum og svo undirbúin stofnun annarra skóla á Suðurnesjum og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum. Má segja, að frv. hafi frá mínu sjónarmiði séð að þessu leyti batnað frá því, sem það var, þegar það var lagt fram, en samt er ég nú ekki fyllilega ánægður með það enn.

Það hefur verið nokkuð mikið um það talað undanfarin ár, og ýmsir hafa gefið um það yfirlýsingar, að þeir vildu flytja ríkisstofnanir frá höfuðborginni og á aðra staði í öðrum landshlutum. Menn hafa næstum því keppzt við í seinni tíð, sérstaklega nú í vetur, að lýsa þessu — menn úr ýmsum flokkum. En það er dálítið erfitt, eins og reynslan sýnir, bæði hér og annars staðar, þó að það eigi ekki að vera ókleift, að flytja burt stofnanir, sem búið er að setja á fót í höfuðborginni hér og höfuðborgum annars staðar, og er það af ýmsum ástæðum, sem ekki þarf að rekja hér. Ég hygg nú, að það verði að vinna bug á andstöðunni, ef yfirlýsingar manna um þessi efni eiga að reynast eitthvað meira en orðin tóm, en það eru alltaf erfiðleikar á slíku. En hitt á að vera miklu auðveldara, þegar verið er að setja nýja stofnun á fót, sem ekki hefur áður starfað og þar af leiðandi á ekki við það vandamál að stríða að hafa fyrir fram starfsmenn staðsetta í höfuðborginni, að koma þeirri stofnun fyrir í öðrum landshluta. Og mér finnst alveg tilvalið að framkvæma nú í þessu ákveðna tilviki þessar yfirlýsingar, sem menn hafa verið að gefa um það, að þeir vilji ekki hafa þær stofnanir í höfuðborginni, sem ekki þyrftu endilega að vera þar.

Mér sýnist nú, að aðalstöðvar fiskvinnslukennslunnar gætu alveg eins verið á öðrum stöðum á Suðurlandi. Það er ekkert, sem gæti verið því til fyrirstöðu að reka þriggja stiga fiskvinnsluskóla þar og áreiðanlega ekki í Keflavík, því að samgöngurnar eru svo greiðar hér á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, að það er auðvelt fyrir skólann að hafa samband við rannsóknastöðvar í Reykjavík, þó að hann sé staðsettur í Keflavík, og ber að þakka það þeim ágæta vegi, sem lagður hefur verið suður eftir Reykjanesi, malbikuðum og steyptum vegi, sem er mjög fljótfarinn, en vegalengdin ekki mikil eða minni en sums staðar í stórborgum á milli borgarhluta. Ég vil einnig segja það, að ég tel, að það væri vel mögulegt að hafa aðalstöðvar þessa skóla í Vestmannaeyjum. Ég álít, að það sé ekkert því til fyrirstöðu. Það eru ákaflega tíðar ferðir milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, þar sem rannsóknastofnanirnar eru, ef menn telja, að skólinn þurfi að hafa eitthvert samband við þær, og sama má reyndar segja um fleiri staði á landinu — kannske flesta helztu fiskvinnslustaði landsins, að skólar þar geta vel haft samband við þessar rannsóknastofnanir, sem staðsettar eru í Reykjavík, þó að skólarnir séu annars staðar.

Ég ætla ekki að flytja um þetta neina brtt., en ég vil heita á hv. sjútvn., að hún athugi þetta mál nánar fyrir 3. umr. og rifji upp fyrir sér það, sem menn, sem sæti eiga hér á Alþ., hafa verið að segja um þessi mál, t. d. núna í vetur, og jafnvel till., sem menn hafa verið að flytja um það að dreifa ríkisstofnunum um landið, og noti nú þetta tækifæri til þess að framkvæma sinn góða vilja á auðveldan hátt, af því að hér er um nýja stofnun að ræða. Ég mun svo athuga það fyrir 3. umr., hvort ég sé ástæðu til þess að flytja brtt. um þetta efni, ef hún kemur ekki frá öðrum, en ég vil ekki flytja hana nú m. a. vegna þess, að það er erfitt að koma henni fyrir formlega, fyrr en búið er að samþykkja brtt. Ég vil svo endurtaka það, sem ég hef sagt í þessari stuttu ræðu oftar en einu sinni, að vilji menn framkvæma þetta að „staðsetja“ ríkisstofnanir annars staðar en í Reykjavík, þá er núna tækifæri, sem auðveldara er að nota en í flestum öðrum tilfellum, þar sem hér er um nýja stofnun að ræða. Og nú er tækifæri til þess að sýna sinn hug í verki, en ekki í tómum orðum.