24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um þetta frv., þegar það var til 1. umr. hér í hv. þd., og ég hygg, að undir ræðu ráðh. þá hafi fjórir þm. beðið um orðið, en hæstv. 1. varaforseti þessarar þd., sem þá var í forsetastól, tók málið af dagskrá, eftir að tveir þm. höfðu talað á eftir ráðh. Síðan var málið tekið aftur til umr. seinni hluta þess dags eða utan venjulegs þingfundatíma, en oft og tíðum stendur þannig á, að menn hafa þá ráðstafað sér á aðra fundi. Því verð ég að segja, að mér finnst það að mörgu leyti óeðlileg brúkun forsetavaldsins undir slíkum kringumstæðum að nota sér að ljúka umr., þegar fundir eru haldnir á venjulegum tíma. En það verður svo að vera. Það má svara því til, að þm. eigi að vera á hverjum fundi, þegar til hans er boðað, en á því er auðvitað misbrestur og þá ekki síður í fjölmörgum tilvikum hjá þeim, sem kannske eru hærri en óbreyttir þm. En það, sem ég vildi segja við 1. umr., ætla ég nú að nefna aðeins við þessa umr., þ. e. að ég vil mjög eindregið fagna því, að þetta frv. er fram komið. Ég hefði kosið að geta tekið þetta fram fyrr og þar af leiðandi tekið undir ýmislegt í ræðum þeirra þm., sem töluðu við 1. umr. þessa máls.

En það er eitt atriði, sem mér finnst vera mjög undarlegt í mörgum frv., sem flutt eru um staðsetningu stofnana, og ég hygg, að það muni vera óvíða í heiminum, að staðsetning yfirleitt allra stofnana eigi sér alltaf stað í höfuðborg landsins. Nú má enginn skilja orð mín á þann veg, að ég sé andstæðingur Reykjavíkur eða höfuðborgarinnar, heldur held ég, að hagsmunir höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar hljóti að fara saman með því að staðsetja hinar ýmsu stofnanir, sem þjóðfélagið vill starfrækja, sem víðast á landinu til þess að skapa jafnvægi í byggð. Ég held einnig, að það verði höfuðborginni til mikils framdráttar, sérstaklega þegar fram liða stundir, að viðhalda landsbyggðinni og efla hana og það eigi að vera hægt að efla bæði höfuðborg og landsbyggð, en ekki landsbyggð á kostnað höfuðborgar eða höfuðborg á kostnað landsbyggðar.

Ég skal játa það, þó að litið verði á það sem heldur þröngan hugsunarhátt, að ég hefði talið, að fiskvinnsluskóla hefði ekki síður mátt starfrækja á Vestfjörðum en víða annars staðar. Vestfirðir hafa það sér til ágætis, að þar vinna tiltölulega fleiri menn við fiskveiðar og fiskvinnslu en nokkurs staðar annars staðar á landinu, nema ef vera skyldi í Vestmannaeyjum, sem eru mjög hliðstæðar Vestfjörðum að þessu leyti. Á Vestfjörðum er líka mjög mikil fjölbreytni í fiskveiðum og fiskframleiðslu, og þar eru ekkert síður en í Vestmannaeyjum ágæt frystihús, ágætar fiskvinnslustöðvar, en hins vegar má aftur segja, að rannsóknastarfsemi fiskiðnaðarins sé hér í Reykjavík. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé engin ástæða til þess að láta yfirleitt allar rannsóknastofnanir atvinnuveganna vera hér í Reykjavík. En ef við ákveðum alltaf, að allt skuli vera í Reykjavík, þá verður auðvitað ómögulegt að koma neinu á stofn annars staðar.

Þeir, sem voru ákaflega staðbundnir og fluttu sérstakt frv. um fiskvinnsluskóla eða fiskiðnskóla — held ég nú, að það hafi heitið — vildu staðsetja þessa skóla í sínu kjördæmi. Hv. 3. þm. Sunnl. vildi hafa skólann í Vestmannaeyjum, sem var mjög eðlilegt sjónarmið bæði frá hans sjónarmiði séð og margra annarra, og sömuleiðis vildi hv. 2. þm. Reykn. staðsetja þennan skóla í Keflavík. Nú sé ég, að þeir hafa allir fallizt í faðma í sjútvn. þessarar hv. d., og í frv. um fiskvinnsluskóla, sem búið er að bíða eftir í jafnmörg ár og raun ber vitni og hefur legið í skúffu uppi í virðulegu rn. í mörg ár, kemur í ljós mikið frjálslyndi og ofrausn, því að það á að byggja fullkominn fiskvinnsluskóla hér í Reykjavík á fjórum fræðslustigum og jafnframt á þegar að taka upp tvö skólastig í Vestmannaeyjum. Og hv. 2. þm. Reykn. fær einnig sína huggun, því að það á að byrja undirbúning að þriðja skólanum á Suðurnesjum, og þar að auki eru gefin mjög elskuleg fyrirheit — til þess að sætta alla aðra — um, að það eigi að byrja undirbúning á tveggja stiga fiskvinnsluskóla í öllum landsfjórðungum. Það er ekki að spyrja að því hjá Íslendingum. Þegar þeir hafa loksins ráð á því að byggja fyrsta fiskvinnsluskólann, þá eru ekki skornar við nögl framkvæmdirnar.

Ég hygg, að það verði ekki um það deilt, að ekki sé æskilegt, að þm. almennt flytji svona mál eins og um staðsetningu fiskvinnsluskóla á þessum stað eða hinum. Í stað þess, að byggðar verði upp ágætar stofnanir, endar það kannske með því, að innan ekki langs tíma verða þetta orðnar kannske 6–8 eða jafnvel 10 stofnanir, ef fyrir lægju áætlanir um það, hvar ríkisvaldið vildi staðsetja þetta eða hitt, og það væri ákveðið, þegar farið væri út í einhverja ákveðna framkvæmd að staðsetja ætti þessa stofnun á þessum stað og aðra á hinum. Það er ekki þar með sagt, að Vestmannaeyjar mundu endilega vilja fá þessa ákveðnu stofnun, ef vitað væri, að það væri búið að ákvarða það, að aðrar ættu að vera staðsettar í Vestmannaeyjum. Við þurfum auðvitað að ná samkomulagi um þessa hluti og sýna það víðsýni, sem er nauðsynlegt.

Ég ætla ekki, fyrst hv. sjútvnm. Ed. hafa fallizt í faðma í þessu máli, að flytja sérstaka brtt., en ég get ekki látið hjá liða að láta í ljós fyllstu óánægju mína með það, að inn í þetta frv. tók rn. þá ákvörðun að staðsetja fiskvinnsluskóla í Reykjavík ofan á allar þær stofnanir, sem fyrir eru, sem ríkisvaldið hefur sett á stofn, því að sannarlega var það ástæðulaust með öllu. Ég ætla ekki að fara í meting um það, hvað gert hefur verið af hálfu ríkisvaldsins í hinum einstöku kjördæmum, en á sviði atvinnulífs og atvinnuframkvæmda veit ég ekki til, að ríkið eigi eitt einasta fyrirtæki í Vestfjarðakjördæmi, og í verzlun og viðskiptum veit ég ekki til, að það eigi nema eitt fyrirtæki, sem er áfengisútsala á Ísafirði, en hún hefur ekki orðið til atvinnuaukningar á staðnum, heldur mjólkurkýr fyrir ríkissjóð. Hins vegar kann einhver að segja: Ja, eruð þið ekki að fá menntaskóla þarna á Vestfjörðum? Jú, sannarlega er það rétt. Það hefur verið tekin ákvörðun um það, en ekkert hús er enn þá risið af grunni, og starfsemi hins unga menntaskóla er í gömlum barnaskóla, sem kaupstaðurinn á sínum tíma reisti. Ég vil aðeins ítreka þá skoðun mína og beina þeim tilmælum til þeirra, sem eru í ríkisstj., og sömuleiðis til þeirra, sem jafnvel eiga eftir að vera í ríkisstj., að gerðar verði áætlanir um staðsetningu stofnana og mannvirkja í þessu landi af meiri framsýni en gert hefur verið.