24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun nú verða mjög fáorður. Hv. 2. þm. Vestf. gerði hér í ræðu sinni ýmsar skemmtilegar aths., sem freistandi væri að ræða nánar og í ýmsu var ég alveg sammála honum. En ég ætlaði að spyrja hv. frsm. sjútvn. nánar um eina af brtt. n. Í 3. tölul. brtt. er lagt til, að 6. gr. orðist þannig: „Skólinn skal staðsettur í Reykjavík.“ Er það orðalag stjfrv. „Auk þess skal stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum . . .“ o. s. frv. Ég vil spyrja frsm., hvort það sé ætlun n., að þessi fiskvinnsluskóli verði stofnaður í Vestmannaeyjum samtímis aðalskólanum í Reykjavík, eða hvort stofnunartími skólans í Vestmannaeyjum sé óákveðinn.

Í öðru lagi vil ég aðeins segja það, að þegar hv. frsm. var að telja fram rök gegn því, að aðalstöðvar fiskvinnslukennslunnar yrðu annars staðar en í Reykjavík, þá sá ég það, að ég þurfti í engu að svara, vegna þess að ég var búinn að gera þetta að umræðuefni áður og lýsa aðstöðunni, þ. e. að hún er alveg eins fyrir hendi hér í næstu stóru verstöðvunum, t. d. Keflavík og Vestmannaeyjum, og í Reykjavík og hún er að verulegu leyti fyrir hendi einnig annars staðar á landinu. En það er eins og sagan endurtaki sig í þessum efnum. Þó að menn ræði mikið um nauðsyn þess að dreifa stofnunum ríkisins, verður litið úr, þegar að því kemur að gera það. Það er eins og hjá Páli postula, sem sagði: Það góða, sem ég vil gera, geri ég ekki, en það vonda, sem ég vil ekki gera, það geri ég.