24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. varðandi Vestmannaeyjaskólann vil ég svara því til, að það er ætlun sjútvn., að sá skóli byrji samtímis skólanum hér í Reykjavík. Það hefur verið upplýst, að Vestmanneyingar væru allmikið búnir að undirbúa þetta mál, og eru þeir jafnvel tilbúnir að fara af stað með skóla sem þennan, hvort sem lög um hann verða samþ. á þessu þingi eða ekki. Þetta er ástæðan fyrir því, að skólinn í Vestmannaeyjum er tekinn sérstaklega fram yfir aðra skóla.

En ég vil svo, úr því að ég er kominn hingað í ræðustól, aðeins undirstrika það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að það geti verið miklum erfiðleikum bundið að koma fljótt upp skólum af þessu tagi víða um land vegna skorts á kennslukröftum. Ef menn athuga frv., þá er í 13. gr. þess gert ráð fyrir, að helztu bóklegar námsgreinar skuli vera: fiskvinnslufræði, vél- og teiknifræði, vinnuhagræðing, framleiðslufræði og verkstjórn, gæðaeftirlit og tölfræði, markaðsfræði, rekstrarbókhald, lög og reglur um fiskvinnslu og fiskmat, haflíffræði, efnafræði, lífefnafræði, gerlafræði og hreinlæti, eðlisfræði, stærðfræði, íslenzka, svo og rannsóknastofustörf, m. a. í efnafræði, lífefnafræði, gerlafræði og eðlisfræði.

Mér er kunnugt um það, að jafnvel í stærri bæjum úti um land er erfitt að fá kennara í sumum af þessum fögum, sem þarna eru upp talin, þótt ekki sé um að ræða sérhæfða skóla eins og þann, sem við erum að tala um núna. Og ég hygg, að það séu fullgild rök fyrir því, að skortur á kennurum í mörgum þessum fögum hljóti að standa í vegi fyrir því, að hægt sé að fara af stað með marga slíka skóla samtímis víðs vegar um landið. Fyrsta sporið hlýtur að vera það að koma upp einum vönduðum skóla, sem geti orðið eins konar móðurskip fyrir aðra skóla, þannig að hann undirbúi menn jafnhliða undir það að fara í kennslu og í hin almennu störf í þeirri iðngrein, sem við erum að tala um. E. t. v. hefði það verið réttasta byrjunin, hvað þetta snertir, að ákveða að senda tiltekinn hóp manna í sérnám í þeim greinum, þar sem kennaraskortur er mestur, kosta þá til náms til útlanda til þess að sérmennta sig og búa sig undir kennarastörf. En úr því að þannig hefur ekki verið farið að, heldur ákveðið að stofna þegar skóla, þá verður að byggja hann þannig upp, að hann sjái öðrum skólum, sem síðar kynnu að verða stofnaðir, fyrir kennslukröftum. Það vona ég, að geti orðið varðandi þann skóla, sem við erum nú að ræða um.