26.03.1971
Efri deild: 76. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem þegar er kunnugt af umr. í hv. Nd., er þetta frv. þaðan komið og flutt af hæstv. menntmrh., enda heyrir málið undir hann, eins og nú er komið málum. Með starfsskiptingu ráðh. frá næstsíðustu áramótum skulu öll skólamál heyra undir það rn. En í fjarveru hans nú vildi ég segja aðeins örfá orð, til þess að ekki þyrfti að taka málið hér út af dagskrá af þeim sökum. Við athuganir og undirbúning á þessu frv. hefur verið höfð hliðsjón af hliðstæðum skólum sérstaklega í Noregi, en málið var fengið í hendur n., sem átti að hafa með höndum að gera tillögur og endurbætur um eðlileg tengsl á hinum ýmsu fræðslustigum. Í nefnd þessari áttu sæti: Andri Ísaksson, forstöðumaður skólarannsókna menntmrn., sem var form. n., Bjarni Kristjánsson, skólastjóri Tækniskóla Íslands, Gunnar Bjarnason, skólastjóri Vélskóla Íslands, Jóhannes Zoëga, verkfræðingur, Magnús Jónsson, skólastjóri Ármúlaskóla, Óskar Hallgrímsson, formaður iðnfræðsluráðs, Stefán Guðjohnsen, tæknifræðingur, Þór Sandholt, skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík og Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, deildarforseti verkfræði- og raunvísindadeildar Háskólans. Fundarritari n. var Guðný Helgadóttir.

Hv. sjútvn. Nd. gerði á þessu þær breyt., sem einnig fylgja hér með á sérstöku þskj., að þó að gert sé ráð fyrir staðsetningu skólans í Reykjavík samkv. frv., þá verði einnig heimiluð stofnun fiskvinnsluskóla á öðrum stöðum og þá fyrst og fremst í Vestmannaeyjum, stærstu verstöð landsins, en einnig víðar um landið, eftir því sem nánara greinir frá á nefndu þskj. Ég held annars, að þskj. fylgi það rækileg grg. og aths. um einstakar gr. þess, að óþarft sé að hafa um það langa framsögu, en ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn. (Gripið fram í: Það var sjútvn.) Var það sjútvn.? Það mun hafa verið í sjútvn., og legg ég til, að það verði sent til sömu n. hér, og legg eindregið til, að það verði samþ. í þeirri mynd, sem hv. Nd. gekk frá málinu.