01.04.1971
Efri deild: 86. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekki miklu við það að bæta, sem frsm. sjútvn. greindi hér frá. Við vorum allir sammála um það að veita þessu frv. stuðning og lýsa ánægju okkar yfir því, en ég vil þó undirstrika það, að með samþykkt á þeirri brtt., sem fyrir liggur, lýsum við raunar yfir, að eðlilegt sé, að skólinn sé ekki staðsettur í Reykjavík og ekki sé ástæða til þess að draga alla skóla landsmanna í einn hnapp hér í Reykjavík, sem þjónar svo miklu hlutverki, eins og þessi skóli á að gera líka, sem á að vera fiskvinnsluskóli og á að mennta menn til frekara framhaldsnáms og útskrifa fiskvinnslufræðinga, sem geta svo aftur verið leiðbeinendur og stjórnendur víða um land.

Það varð samkomulag í Nd. að leggja til, að fyrstu tvö stigin eigi skóla viða um landið, og við bætum hér — eins og greint var frá áðan í framsögu — Akranesi við, en við breytum ákvæði 6. gr. um staðsetningu skólans og segjum: Skólinn skal staðsettur á Suðvesturlandi. Ég get ekki látið hjá líða að greina frá ályktun í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Hún hefur mjög hvatt til þess, að það yrði gefinn kostur á því, að skólinn yrði staðsettur í Hafnarfirði. Það fer fram endurskipulagning á iðnskóla þar, og nýtt húsnæði er þar í undirbúningi, og einnig er kennaravandamálið hvorki minna né meira í Hafnarfirði en í Reykjavík. Aðgangur að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem er bundinn nokkuð þessu frv., er alveg jafnt fyrir hendi, hvort sem skólinn er staðsettur í Reykjavík eða Hafnarfirði, og möguleikar á því að nema margar fiskvinnslugreinar eru meiri í Hafnarfirði en í Reykjavík, ef út í það væri farið að gera samanburð á því. En því má sleppa hér. Það eru því alveg full rök fyrir því að líta í kringum sig, áður en menn vilja staðsetja skólann eða æðri stig hans hér í Reykjavík, vegna þess að engin ástæða er til þess að draga alla skóla landsins — sérstaklega á æðri stigum — til Reykjavíkur og sameina allt hér á einum bletti. Það yrði veruleg lyftistöng fyrir Hafnarfjörð og lægi vel við vegna Suðurnesja og vegna hráefnisöflunar að staðsetja skólann þar.

Ég hef hér í höndunum ályktanir varðandi þetta og tel ekki ástæðu til að eyða tíma hv. d. í að lesa það upp, en þar er lagt til, að öll atriði þessa máls verði athuguð gaumgæfilega og sú ákvörðun tekin, að skólinn verði staðsettur í Hafnarfirði.