22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

267. mál, laun forseta Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ákvörðun varðandi laun forseta Íslands heyrir að vísu ekki undir fjmrh., heldur forsrh., en þar sem hann er ekki staddur hér í d., þá hef ég að sjálfsögðu ekkert á móti því að svara þeirri fsp., sem hv. 5. þm. Reykn. varpaði hér fram. Að sjálfsögðu mun það vera kunnugt, að svo segir í stjórnarskrá lýðveldisins, eins og hv. þm. gat um, og þetta mál hefur verið sérstaklega athugað með hliðsjón af því ákvæði, og það er niðurstaðan, sem þetta frv. byggist á, — ella væri það ekki flutt, — að Alþ. sé heimilt að ákveða laun forseta með þessum hætti. Hér er að sjálfsögðu ekkert um það sagt, að Alþ. geti ekki hvenær sem er, ef því þykir henta, ákveðið það með öðrum hætti og tekið formlega ákvörðun um, hver launin skuli vera, en það er skoðun manna, að með þessu frv. sé á engan hátt skertur réttur Alþ., heldur ákveði það með þessum hætti að fela tilteknum opinberum aðila eða hlutlausum dómstóli, sem fer með launamál ríkisins, að ákvarða laun forseta. Sannleikurinn er sá, sem ég held að ekki þurfi að vera neinn ágreiningur um, að þetta er hið mesta vandræðamál að geta ekki haft á þessu annan hátt en þann, sem hefur verið að forsetalaun hafa verið ákveðin á Alþ. með fjárlögum, sem m. a. hefur leitt til þess, að þær breytingar, sem orðið hafa á launum, hafa ekki alltaf komið fram í launum forseta Íslands jafnóðum, þannig að þau eru orðin verulega á eftir að þessu leyti til. Það eru ekki einu sinni þær eðlilegu breytingar, sem verða á launum opinberra starfsmanna í samræmi við kjarasamningalögin, þegar almennar breytingar verða á launum í landinu, sem verka á laun forseta, þar sem ekki er talið heimilt, eins og lögin eru nú úr garði gerð, að svo sé, og þess vegna hefur þessi háttur verið á hafður. Ég skal játa, að það hefði auðvitað mátt hugsa sér annan hátt, sem hefði kannske verið enn þá ótvíræðara að væri heimill, og það væri sá, að Alþ. ákvarðaði, að laun forseta Íslands skyldu vera ákveðnu hlutfalli hærri en laun ráðherra, en þau eru að vísu ákveðin af kjaradómi einnig, þannig að það má segja, að það komi allt út á eitt. Ég held sem sagt og vil aðeins láta það kom hér fram, að þetta atriði hefur verið skoðað og það er álit manna, sem það hafa gert, að þessi ákvörðun, sem um er að ræða í þessum lögum, brjóti ekki í bága við umrædda stjórnarskrá.