31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

267. mál, laun forseta Íslands

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og var samþ. þar ágreiningslaust. Sú breyting er gerð hér frá því, sem nú gildir, að í stað þess, að laun forseta voru ákveðin í eldri lögum í ákveðinni krónuupphæð, þá er hér ákveðið í þessum lögum, að launakjör forseta Íslands skuli ákveðin af kjaradómi. Ríkisstj. sýndist það vera eðlileg samræming við þá þróun, sem orðið hefur í ákvörðun launamála frá eldri tíma, og hafði einnig athugað það sérstaklega, að slík afgreiðsla málsins mundi að beztu manna yfirsýn verða fullkomlega í samræmi við það ákvæði stjórnarskrárinnar, sem kveður svo á, að laun forseta skuli ákveðin með lögum. Ég vil því mega vænta þess, að um þetta mál verði ekki ágreiningur hér og leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.