08.03.1971
Efri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Ég þarf nú ekki að hafa mörg orð um þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, en skal þó segja þetta: Stjórnir verkamannabústaða víðs vegar um landið eru skipaðar á þann hátt, að bæjarstjórnir viðkomandi staða tilnefna þrjá í stjórnina, húsnæðismálastjórn tilnefnir tvo og verkalýðssamtökin á staðnum tilnefna einn, þannig að stjórnarmenn í þessum stjórnum eru sex. Nú hefur það komið á daginn, að þetta er ekki alveg það heppilegasta fyrirkomulag, sem hægt væri að hugsa sér, og hefur þess vegna verið tekið það ráð að leggja til, að húsnæðismálastjórnin tilnefni þrjá menn í stað tveggja manna nú. Með því verða stjórnarmenn sjö í stað sex áður. Ég ætla, að um þetta geti orðið samkomulag og málið afgreitt fljótlega, því að á ýmsum stöðum er beðið eftir tilnefningu af hálfu húsnæðismálastjórnar í þessar verkamannabústaðastjórnir. Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn.