02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að gera breytingu á lögum um skipun stjórna verkamannabústaðabygginga, sem hér voru samþ. á síðasta þingi. Nú er lagt til, að í stjórn verkamannabústaða skuli sitja sjö menn og þrír af þeim skuli tilnefndir af húsnæðismálastjórn. Þrír verða eftir sem áður kosnir af viðkomandi sveitarstjórn og einn af verkalýðsfélagi eða verkalýðsfélögum á staðnum. Ég er andvígur þessu frv. og sé enga ástæðu til þess að haga þessum málum þannig, að húsnæðismálastjórn hafi rétt til þess að skipa þrjá menn af sjö í þá framkvæmdastjórn, sem á að hafa með byggingu verkamannabústaða að gera í hverju byggðarlagi í landinu. Satt að segja var það mín skoðun, að réttur húsnæðismálastjórnar til þess að skipa tvo menn væri óþarflega mikill. Það er enginn vafi á því, að framkvæmdir í þessum málum verða að velta á heimaaðilum í hverju einstöku tilfelli og þá fyrst og fremst á sveitarstjórnunum, sem greinilega taka á sig talsvert miklar fjárhagsskuldbindingar í sambandi við þessar framkvæmdir, og þó að nokkurt fé sé lagt til þessa kerfis í gegnum hið almenna húsnæðismálakerfi, þá er engin ástæða til þess að Húsnæðismálastofnun suður í Reykjavík sé að fá þann rétt að skipa þrjá menn í framkvæmdastjórn slíkra framkvæmda í hverju byggðarlagi landsins. Ég tel, að sú skýring, sem gefin hefur verið á þessari tillögu, að upp hafi komið ágreiningur um það með hvaða hætti ætti að velja þessa tvo menn í byggingarstjórnirnar af húsnæðismálastjórn, hvort það væri gert með hlutfallskosningu eða hreinu meiri hluta vali, það sé ekki frambærileg ástæða á neinn hátt til þess að breyta um stjórnir félaganna. Ég tel það aðeins eðlilegt sanngirnismál, að þeir fulltrúar, sem valdir eru af hálfu húsnæðismálastjórnar í þessar framkvæmdastjórnir, séu valdir með hlutfallskosningu, en í mínum augum er þó hitt alveg aðalatriði, að það er engin ástæða til þess að gefa þessari yfirstjórn hér suður í Reykjavík þetta sérstaka vald. Tilnefningar slíkra stofnana, m. a. húsnæðismálastjórnar, á mönnum í stjórnir af þessu tagi hafa ekki gefizt þannig, að það sé nein ástæða til þess að auka á valdsvið þeirra, en draga úr valdsviði eðlilega kjörinna heimaaðila, sem eiga beinna hagsmuna að gæta í sambandi við þessar framkvæmdir.

Ég mun ekki flytja neina sérstaka brtt., en aðeins láta koma fram mína afstöðu til málsins, að ég er andvígur þessu frv.