02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Já, það kemur sem sagt í ljós að menn úr húsnæðismálastjórn hafa kært til ráðh. ákveðin vinnubrögð í n. og óskað eftir úrskurði hans um það, með hvaða hætti kosning þar skuli fara fram á tveimur mönnum, sem ákveðið var að kjósa samkv. lögum, og þá sá hæstv. ráðh. enga aðra leið en þá að breyta lögunum, til þess að hann gæti komizt hjá því að fella úrskurð í málinu. Hann treysti sér ekki til þess. Ekki get ég nú séð að það sé mikil röksemd fyrir því að breyta um stjórn í þessum félögum, að hæstv. ráðh. treystir sér ekki til þess að fella úrskurð í jafn einföldu máli eins og þessu. Það er vitanlega út af fyrir sig lítil huggun, þó að húsnæðismálastjórn tilnefni menn sem eiga heima í viðkomandi byggðarlögum. Ég tel enga ástæðu til þess, að stofnun hér suður í Reykjavík eigi að fá rétt til þess að tilnefna af sinni hálfu þrjá fulltrúa af sjö í slíka framkvæmdastjórn eins og hér er um að ræða og allra sízt, að það sé nauðsyn á að gera það vegna þess, að einhver ráðh. treystir sér ekki til þess að fella úrskurð um einfaldan hlut. Afstaða mín til málsins er skýr. Ég er á móti þessu fyrirkomulagi og mun greiða atkv. á móti frv., tel, að það hafi verið ærið nóg, að húsnæðismálastjórn fengi að skipa tvo menn af sex. Í rauninni hefði verið fullnóg fyrir hana að skipa aðeins einn mann, en hitt tel ég alveg fráleitt að veita henni þennan rétt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.