24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

293. mál, kjördagur 1971

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Samkv. kosningalögum frá 1959 eiga almennar reglulegar kosningar til Alþingis að fara fram síðasta sunnudag í júnímánuði. Nú er talið, að betur henti, að kosningar fari fram nokkru fyrr og liggja til þess ýmsar ástæður. Ég ætla, að öllum þingflokkum hafi verið skýrt frá hugleiðingum ríkisstj. um, að kjördagur yrði 13. júní í n. k. alþingiskosningum, eins og lagt er til með þessu frv., og megi líta svo á, að menn séu yfirleitt sammála um, að það sé heppilegt. Síðustu alþingiskosningar fóru fram 11. júní fyrir 4 árum síðan, og er því umboð þm. fallið niður þann 11. júní n. k., og má segja, að að því leyti til komi þessi kjördagur, 13. júní, vel heim við það. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Það má þó aðeins taka fram eða minna á það, að kjörskrá á að leggja fram 2 mánuðum fyrir kjördag samkv. kosningalögunum og það á að auglýsa, hvar það verði gert hálfum mánuði fyrr — skemmri frestur þó í kaupstöðunum — og ætti þá eftir því núna um næstu mánaðamót að auglýsa framlagningu kjörskrár annars staðar heldur en í kaupstöðum. Ég skal ekki hafa fleiri orð um frv. Ég geri ekki tillögu um að vísa þessu til n., eftir því sem mér skilst, þá gerist þess eiginlega tæplega þörf, en hitt er að sjálfsögðu rétt, að frv. verði vísað til allshn., ef einhverjar óskir eru uppi um það.