31.03.1971
Efri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

293. mál, kjördagur 1971

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég lét það í ljós hér við 1. umr. þessa máls, að ég teldi mikinn vafa á því, að nokkur verulega haldbær rök væru fyrir því að breyta kosningadeginum frá því, sem í kosningalögum segir, en þar er ákvæði um það, að kosningadagur skuli vera síðasti sunnudagur í júnímánuði. Ég held, að það sé augljóst, að það hafi verið að vel athuguðu máli, að sá kjördagur var ákveðinn, og reyndar eru nú að mínu viti allar forsendur fyrir því að færa kosningarnar til með þessum hætti úr sögunni. Það gat átt rétt á sér á þeim árum, þegar síldveiðar voru einn af höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar að sumrinu og sjómenn streymdu á haf út í byrjun júnímánaðar eða seinni hluta maímánaðar jafnvel, en ég tel, að það sé alla vega farsælast, að þessum kosningadegi sé haldið. Ég hygg, að á engum öðrum árstíma séu menn meira heima hjá sér heldur en seinni part júnímánaðar og af þeirri ástæðu sé eðlilegt, að kjördagurinn sé sá, sem í núgildandi lögum segir. Það er líka ljóst, að sé kjördagurinn valinn 13. júní, þá eru a. m. k. á því miklir möguleikar, að samgöngutruflanir séu mjög víða um land, ófærð á vegum einmitt yfir þann tíma, sem eðlilegt er, að frambjóðendur og flokkar kynni sig með fundahöldum um kjördæmin, og ég minnist þess frá fyrri kosningum, sem ég hef tekið þátt í, að þetta hefur reynzt mjög bagalegt og útilokað heilar stéttir frá því að taka nokkurn þátt í fundahöldum og kosningabaráttu og á ég þar alveg sérstaklega við bændur. Ég sé því enga ástæðu til og hef ekki heyrt nein frambærileg rök fyrir því að breyta þeim lögum, sem nú gilda í þessu efni, og lýsi mig algerlega andvígan þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því.