24.02.1971
Efri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

213. mál, náttúruvernd

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. fyrir þessu frv., átti ég sæti í þeirri nefnd, sem vann að undirbúningi og samningu þess. Sú nefnd, sem skipuð var af hæstv. menntmrh. vorið 1968, hóf þá þegar undirbúning að sínu verki, og ég held að mér sé óhætt að fullyrða, að hún var sér þess frá upphafi meðvitandi, að hér væri um að ræða mjög stórt mál, sem miklu skipti að fengi æskilegan og rækilegan undirbúning. Í þeim anda, að verið væri að vinna að afar mikilvægri löggjöf, hygg ég að nefndin hafi starfað og hún lagði allmikla vinnu í það að kynna sér náttúruverndarlöggjöf, ekki aðeins hinna nálægustu landa, heldur allmargra annarra landa og naut til þess aðstoðar ágætra manna, svo sem skýrt er frá í grg. Ef ég man rétt, þá lauk nefndin störfum og skilaði áliti sínu og frv. ásamt grg. til menntmrn. snemma árs 1970. Þá leið nú að vísu einhver tími, sem ekki var nema eðlilegt og sjálfsagt, á meðan hæstv. ríkisstj. athugaði þetta frv. og störf nefndarinnar. En skömmu fyrir þinglok í fyrra var frv. — ég held alveg óbreytt eins og nefndin hafði gengið frá því — lagt fram hér í hv. Nd., þó ekki sem stjórnarfrv., heldur var það þá borið fram af hv. menntmn. Nd. samkv. ósk hæstv. menntmrh. Ég geri ráð fyrir, að ástæðan til þeirrar málsmeðferðar þá hafi verið, að ríkisstj. hafi ekki verið búin að taka endanlegar ákvarðanir um það að flytja þetta frv., og ég býst við, að það hafi e. t. v. ekki hvað sízt verið ákvæðið um tekjuöflun til náttúruverndarmála, um stofnun þess sjóðs, sem frv. nefndarinnar gerði ráð fyrir, sem því olli, að í fyrra var frv. ekki flutt sem stjórnarfrv. Nú er það hins vegar rétt undir þinglok lagt fram sem stjórnarfrv. og í sambandi við þá málsmeðferð, sem hér hefur orðið, vil ég átelja það sérstaklega, hversu seint frv. kemur fram nú, þannig að ég sé ekki mikla von til þess, nema þá að sérstaklega vel verði að unnið, að þetta nokkuð viðamikla frv. nái fram að ganga á þessu þingi, enda þótt ég telji ekki ástæðu til að örvænta um það, ef vel verður unnið í þeim n., sem fá þetta frv. til meðferðar. En ég tel það mjög miður farið, að slíkur dráttur hefur orðið á þessu þingi á því að leggja þetta frv. fram og þá eðlilega orðinn stuttur tími fyrir Alþ, að fjalla um það.

En það, sem ég tel einnig vera ástæðu til að átelja, er það, að ég sé ekki betur heldur en að nú við framlagningu frv. að þessu sinni hafi botninn orðið eftir uppi í Borgarfirði, eins og þar stendur, þ. e. a. s. að burt hafi verið felld úr frv. ákvæði, sem voru af hálfu undirbúningsnefndarinnar veigamikil ákvæði til þess að reyna að tryggja eftir föngum framgang margvíslegra ákvæða, nýrra ákvæða og hertra ákvæða í þessu frv. Það var eitt af aðalatriðum hjá nefndinni, að náttúruverndarráð hefði yfir nokkru og það allverulegu fjármagni að ráða og í því skyni var lagt til, að myndaður yrði sjóður, svo nefndur náttúruverndarsjóður og lögð ákveðin árleg fjáröflun til hans. Þetta var gert í 9. og 10. gr. hins fyrra frv., þess, sem lagt var fram í fyrra, og þar segir svo í 10. gr. þess, með leyfi hæstv. forseta:

„Til náttúruverndarsjóðs greiðist ½% af heildsöluverði þeirrar vatnsorku og 1/4% af söluverði þeirrar varmaorku, sem virkjuð er í landinu. Seljendur greiða gjaldið, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð. Enn fremur skulu renna í sjóðinn 2% af söluverði áfengis, sem framleitt er í landinu.“

Nú má að sjálfsögðu endalaust um það deila, með hverjum hætti ætti að afla fjár til slíks sjóðs, sem ætti að standa að verulegu leyti undir nauðsynlegum framkvæmdum til þess að halda uppi löggjöf um náttúruvernd, og um þetta fjallaði nefndin fram og aftur og þetta varð að vísu niðurstaða hennar. Nú kann vel að vera, að um einhverja aðra og æskilegri eða eðlilegri fjáröflunarmöguleika hefði verið að ræða, og tel ég alveg víst, að nefndin, sem undirbjó frv., hefði ekki talið það á neinn hátt óeðlilegt, þó að þarna hefði að einhverju leyti eða jafnvel öllu leyti verið breytt um tekjuöflun, en í staðinn fyrir þetta er sem sagt kaflinn um náttúruverndarsjóð og um fjáröflun til hans algjörlega tekinn út úr frv. og í staðinn kemur eingöngu: „Kostnaður af framkvæmd laganna skal greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem fé er til þess veitt á fjárlögum.“

Nú er ég út af fyrir sig ekki talsmaður þess, að það sé í sjálfu sér eðlilegt að bæta við nýjum og nýjum álögum til sérstakra verkefna. Það hefur verið gert mikið af því og hefur verið e. t. v. í sumum tilfellum um of og að óþörfu gert, og ef ég óttaðist það ekki, að fjárveitingavaldið muni í mörgum tilfellum verða helzt til knappt í sambandi við fjárframlög til náttúruverndarmála, þá væri ég út af fyrir sig ekki andvígur þessari breytingu. En ég óttast það, að þarna verði við býsna ramman reip að draga oft á tíðum og að möguleikar náttúruverndarráðs til þess að vinna að framgangi þeirra málefna, sem í frv. segir, rýrni verulega vegna skorts á fjármagni. Ég vildi óska þess, að þetta yrðu hrakspár hjá mér, en óneitanlega er maður smeykur við, að svo kunni að fara, a. m. k. þegar fjmrh. á hverjum tíma telur, að nú sé sérstök þörf á að spara. Þá eru framlög til slíkra verkefna eins og hér er um að ræða alltaf í þeirri hættu, að þau verði skorin við nögl, en ekki höfð í neinu samræmi við þarfir þær, sem um er að ræða í hverju tilfelli.

Hv. 3. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, ræddi hér um nokkur einstök atriði þessa frv. og gerði athugasemdir, minni háttar athugasemdir við nokkrar greinar þess. Ég vil sérstaklega taka undir það, að ég tel ástæðu til fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, að athuga nú það fyrirkomulag, sem eðlilegt væri að hafa á náttúruverndarþinginu eða því, hvaða aðilar ættu rétt til þess að senda fulltrúa á náttúruverndarþing, sem ætlunin er að halda þriðja hvert ár. Það hafa orðið ákveðnar breytingar nú á síðustu misserum við stofnun þeirra náttúruverndarfélaga, sem fram eru komin, og ef greinin, eins og hún er orðin nú í frv., takmarkar það á einhvern hátt, að áhugafélög um þessi efni geti átt þar fulltrúa, þá tel ég sjálfsagt, að það verði leiðrétt, því að það var frá upphafi hugmynd þeirra, sem undirbjuggu frv., að allur áhugi almennings á náttúruverndarmálum yrði virkjaður, ef svo má segja, eins og frekast væri kostur og þar væri einmitt náttúruverndarþingið eitt aðalatriðið til að fá fram sjónarmið áhugamanna og að þeir gætu haft veruleg áhrif á þróun mála. Þetta tel ég sjálfsagt, að n. athugi, sem fær þetta mál til meðferðar.

Eins og hæstv. menntmrh. gat um, þá var það í rauninni tvennt, sem þeirri nefnd var falið, sem undirbjó þessa löggjöf. Það var annars vegar að semja nýja löggjöf um náttúruvernd og hins vegar að endurskoða lög um Þingvelli eða þjóðgarð á Þingvöllum. Ég held, að ég muni það rétt, að nefndarmenn flestir, ef ekki allir, litu þannig á, að starfi nefndarinnar væri ekki lokið, þó að þeir hefðu afhent þetta frv. og grg., sem með því var, vegna þess að þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki rétt að fella löggjöfina um Þingvelli inn í náttúruverndarlögin, heldur þyrfti að hafa um Þingvelli sérstaka löggjöf og endurskoða Þingvallalögin. Ég tel það miður farið, ef ekki verður af þessu, en ég vek athygli á þessu vegna þess, að það hefur ekki orðið hér framhald á, þrátt fyrir nokkrar tilraunir einstakra nefndarmanna til þess að taka upp þráðinn, þar sem hann féll niður, ef svo má segja, snemma á síðasta ári, eftir að nefndin hafði lokið samningu þess frv., sem um er að ræða, en ég tel, að þar með hafi starfi nefndarinnar í rauninni ekki verið lokið, heldur beri henni að taka til endurskoðunar lög um þjóðgarð á Þingvöllum.

Þar sem þetta frv. fer vafalaust til n., sem ég á sæti í, mun ég ekki ræða frekar um einstakar greinar þess eða þau atriði önnur, sem hv. 3. þm. Vestf. minntist á að þyrftu athugunar við. Ég tel víst, að n. athugi sérstaklega þær ábendingar, sem þar komu fram, og svo þær aðrar ábendingar, sem áhugamenn um náttúruvernd vildu koma á framfæri í sambandi við meðferð þessa máls.

Ég vil svo að lokum láta í ljós þá von mína, að þetta frv. geti fengið hér greiðan gang í gegnum þingið og að það verði a. m. k. ekki mörg ár að velkjast hér fyrir hv. Alþ., því að það er vissulega þörf á endurbótum í sambandi við náttúruverndarmálin, og það er full þörf á því, að náttúruverndarráð fái aukna aðstöðu til þess að sinna þeim málum. Og ég vil nú í lengstu lög trúa því, að jafnvel þótt sú breyting, sem ég tel sízt til bóta, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert í sambandi við fjármögnun náttúruverndarmála, verði samþykkt, þá sjái hv. Alþ. nauðsyn þess að veita allverulega fjármuni til þess að halda okkar fagra og enn þá tiltölulega óspillta landi eins óspilltu og framast er kostur.