24.02.1971
Efri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

213. mál, náttúruvernd

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og þá fyrst og fremst til þess að lýsa fylgi mínu — og mér er, held ég, óhætt að segja míns flokks — við meginstefnuna, sem í þessu frv. felst, og lýsa yfir ánægju minni yfir því, að það skuli vera fram komið og vera stutt af nefnd, sem skipuð hefur verið af flestum stjórnmálaflokkum, og líkindi eru því til þess, að það geti náð fram að ganga á þessu þingi. Ég áskil mér þó að sjálfsögðu rétt til þess að athuga nánar á síðari stigum um einstök atriði frv. og e. t. v. gera við það einhverjar brtt. Hæstv. menntmrh. lýsti hér áðan, að tilgangur náttúruverndar og náttúruverndarlaganna væri fyrst og fremst sá að vernda sérkenni og náttúru landsins án þess að hindra eðlilega atvinnuþróun, eins og hann orðaði það. Og þarna held ég, að hann hafi einmitt komið að kjarna málsins. Því er ekkert að leyna og e. t. v. skortir það á í þessu frv., að gerðar séu einhverjar ráðstafanir, þó að erfiðar kunni að vera, til þess að draga úr þeirri togstreitu, sem um náttúruverndarmál hefur ríkt. Það hefur verið sagt af vitrum mönnum, að náttúruvernd væri að ýmsu leyti á gelgjuskeiði enn sem komið er og sérstaklega bent á það, að það væru gerðar tilraunir til þess af mönnum að skipta mönnum í tvo hópa, aðra, sem vildu vernda náttúru landsins og náttúrufegurð og halda henni óskertri, og aftur hina, sem vildu hefja herferð gegn landinu og eyðileggja það. Og í þessum síðarnefnda hópi hafa tæknimennirnir yfirleitt verið taldir vera af þeim, sem hafa gengið lengst í náttúruverndarsjónarmiðum. Að verulegu leyti má segja, að náttúruverndin hafi hneigzt til þess — og sérstaklega nú síðustu árin — að gera fyrst og fremst ráðstafanir til þess að hindra vissa hluti, hindra mengun, hindra breytingar á landi og annað því um líkt, en vinna minna að því að samræma þau óhjákvæmilegu sjónarmið, sem hljóta að koma upp í nútímaþjóðfélagi, þar sem tækni og framfarir hljóta að vera kjörorðið og hljóta að ná fram að ganga, þó að menn verði, eins og það hefur verið orðað, að keyra með hemlana á. Það er undir öllum kringumstæðum höfuðnauðsyn, að sættir takist á milli þessara hópa, annars vegar tæknimanna og hins vegar þeirra, sem áhugasamastir eru um náttúruvernd og hafa þar auðvitað að sjálfsögðu mikið til síns máls, því að ég get vissulega tekið undir það, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan, að það væri ekki veigalítill þáttur í lífskjörum landsmanna, í lífskjörum þjóðarinnar, að vernda náttúruna og eiga aðgang að henni, og allt, sem að því lýtur, að það megi verða, er auðvitað til góðs.

Það, sem mér finnst við fljótan yfirlestur á frv. nú að mætti kannske frekast að því finna, er ekki það, sem í því stendur, heldur það, sem í það kynni að vanta, og þá sérstaklega það, sem hæstv. menntmrh. minntist á, að í þessu frv. er ekki fjallað um þá veigamestu náttúruvernd, sem um er að ræða, þ. e. a. s. varnir gegn mengun. Hins vegar er boðuð sérstök löggjöf og skal ég ekki fullyrða, nema það mál megi leysast — að því leyti, sem það er hægt með löggjöf, með eðlilegum og æskilegum hætti með sérstakri löggjöf, — en ég teldi þó, að það hefði átt heima inni í slíkri heildarlöggjöf um náttúruvernd.

Það er enginn vafi á því, að jafnvel í okkar tiltölulega óspilltu náttúru fara hætturnar vaxandi af mjög mörgum ástæðum. Þar er ekki aðeins um að ræða aukinn iðnað, aukinn kemískan iðnað og annað því um líkt, sem þarna hefur reynzt hættulegast, heldur ýmislegt annað, frárennsli frá bæjum og byggðum, svo að nokkuð sé nefnt, sem vafalaust getur haft stórkostleg spillandi áhrif á dýralífið í vötnum og sjó, og við höfum heyrt fréttir af því nú alveg nýverið, hvernig góð veiðivötn og jafnvel veiðihöf hafa verið að eyðileggjast einmitt af þessum sökum. Og þar er kemíska iðnaðinum ekki einum um að kenna, heldur hreinlega því vandamáli, sem skapast af þéttbýli í borgum og byggðum. Við höfum hér á landi bæi, sem byggðir eru við tiltölulega þrönga firði, sem hafa verið fiskisælir, og það er a. m. k. grunur margra, að vísu ekki sannaður enn, að mengunaráhrif frá byggðunum, sem við firðina eru, séu orðin svo stórfelld, að þau hafi haft áhrif á sjávarlífið á þessum stöðum, og nefni ég þar t. d. Eyjafjörð með sinn stóra og vaxandi bæ. Sömuleiðis kemur þarna til greina það, sem landbúnaðinn varðar. Ekki dettur mér í hug, að það verði farið að setja það í lög, að bændur megi ekki nota útlendan áburð og annað því um líkt, en hitt er augljóst, að þessi kemísku efni, sem á jörðina eru borin, leysast að meira eða minna leyti upp, sogast út í árnar, menga þær og e. t. v. hindra þar eða skemma þá ræktunarmöguleika á fiski, sem þar eru, og þar með dýralífið, sem um er að ræða.

Fleira mætti um þetta segja. Ég vil ekki fara út í einstök deilumál, sem hafa skapazt milli náttúruverndarmanna annars vegar og tæknimanna hins vegar hér á landi og hafa orðið bæði leið og erfið, jafnvel allt að því óleysanleg. Menn hafa haft þau fyrir augum og ég sakna þess ekki, að í sambandi við þetta mál séu þau ekki dregin hér fram í umr. til þess að deila um þau á álíka plani eins og það hefur verið gert, með öfgum kannske á báðar hliðar. En ég legg höfuðáherzlu á það, að í þessu frv. kæmi skýrar fram heldur en er, að það væri reynt að koma þessum málum á þann veg fyrir, að þarna tækist samstarf, því að ég er sannfærður um það, að ef menn á annað borð vilja skilja hugtakið náttúruvernd réttum og heilbrigðum skilningi, þá á ekki að vera þarna óbrúanlegt bil á milli, síður en svo. Þarna á að vera um sameiginlegt markmið beggja að ræða, því að í öllum tilfellunum er ekki raunverulega bara um það að ræða að vernda náttúruna, það er að vernda manninn í náttúrunni, það er að vernda hann, og tæknimennirnir eru vissulega ekki áhrifaminnsti aðilinn í því að gera það.

Um önnur einstök atriði ætla ég ekki að ræða að ráði hér, en ég get vel tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að æskilegt hefði verið, að þessum málum hefði verið fenginn meiri og öllu heldur tryggari fjárhagsgrundvöllur heldur en í frv. er greint. Þó að engu skuli hins vegar um það spáð og engar hrakspár hafðar uppi um það, að sú tilhögun, að það sé á valdi Alþingis hverju sinni, hversu mikið fé skuli veitt til þess, geti ekki reynzt fullnægjandi, þá hefði ég þó talið hitt æskilegra. Og a. m. k. er það víst, að sum þeirra atriða, sem að því lúta að gera almenningi fært að njóta náttúru landsins, eru bein fjárhagsatriði og nefni ég það t. d., sem komið er inn á í 13. gr. frv., þar sem segir í þeim stíl, sem gjarnan er á hafður, þegar um náttúruvernd er að ræða, þ. e. að banna eða hindra: „Heimilt er náttúruverndarráði að banna óþarfan akstur ökutækja utan vega og merktra bílaslóða, þar sem náttúruspjöll geta af hlotizt.“ Ég held, að ef þessi mál, sem þarna er komið inn á með neikvæðum hætti, ætti að leysa með skynsamlegu móti, þá þyrfti að veita allverulegt fé til þess að gera merktar bílaslóðir, t. d. um öræfi landsins. Ég hef ofurlítið ferðazt um öræfin í mínum sumarleyfum og mér hefur a. m. k. reynzt ófært, þrátt fyrir kort og annan tilbúnað, sem ferðamenn gjarnan hafa, þegar þeir eru að kanna ókunnar slóðir, að fara eftir þeim bílaslóðum, sem þó eru merktar inn á landabréf, vegna þess að þær eru bæði svo ógreinilegar og truflaðar af margs konar öðrum slóðum, sem fjallabílar hafa gert, að það er ekki nokkur leið að rata réttar leiðir um öræfin, a. m. k. margar þeirra, vegna þess að það hafa ekki verið gerðar neinar sæmilegar slóðir. Auk þess eru jafnvel sumar þeirra tiltölulega fáu leiða, sem merktar eru inn á landabréf, þannig, að þær eru alls ekki færar nema einstaka farartækjum og ef við ætlum á annað borð að gefa okkur sjálfum eða erlendum ferðamönnum tækifæri til þess að skoða það stórkostlegasta og fegursta, sem við eigum í íslenzkri náttúru, þ. e. í öræfunum, þá verðum við að verja fé til þess að gera þetta mögulegt. Og það verður ekki gert nema með sérstökum fjárveitingum til þess að gera bílaslóðir um hálendið. Og ég held, að þá fyrst, þegar þetta væri gert, sé hugsanlegt, að slík bönn eins og þarna er um að ræða komi að nokkru haldi. Annars halda menn uppteknum hætti, sem þeir hafa gert undanfarin ár, ferðast á fjallabílum hvert sem hugurinn girnist að komast og skeyta þá engu, hvort um venjulegar leiðir er að ræða eða hvort stórkostleg náttúruspjöll stafa af því, eins og oft hefur orðið og jafnvel orðið upphaf að uppblæstri og alla vega stórkostlegum náttúruspjöllum.

Sitthvað fleira gæti ég kannske um þetta sagt, en e ætla að láta þessi fáu orð nægja við þessa umr. Ég mun, þó að ég eigi ekki sæti í þeirri n., sem fær þetta til meðferðar, athuga einstök ákvæði frekar, en mér dettur í hug í sambandi við það, sem ég nefndi um samstarf tæknimannanna og náttúruverndarmannanna, — sem ég vil nú að vísu ekki skilja í tvo fjandsamlega hópa, a. m. k. eiga þeir ekki að vera það, — hvort það væri ekki rétt að tryggja það í lögunum sjálfum, að þar ættu sæti einhverjir tæknimenn. En mér sýnist það vera alveg undir hælinn lagt, hvort nokkur tæknimaður muni verða kosinn eða skipaður í þetta ráð, því að það er nú einu sinni svo, að áhugamennirnir eru vaskir, skulum við segja, og áreiðanlega gjarnir til þess að ýta þessum ímynduðu fjandmönnum sínum úr vegi, og ég held, að það væri þess vegna full ástæða til þess, að það væri tryggt, að náttúruverndarráð yrði að einhverju leyti skipað tæknimönnum. Og það kynni vel að verða upphafið að því, sem ég nefndi, þeim nauðsynlegu sættum, sem þarna þurfa að koma á milli tveggja sjónarmiða, sem í raun ættu að vera eitt og sama sjónarmiðið.