25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

213. mál, náttúruvernd

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. að marki. Ég kvaddi mér hljóðs í gær áður en umr. lauk til þess að árétta það atriði, sem ég gerði að umtalsefni og sem hæstv. menntmrh. misskildi nokkuð að mínum dómi. Nú hefur hann orðið að víkja af fundinum, en ég get ekki verið að gera kröfu til þess, að hann hlýði á þessa smámuni og kem þessum leiðréttingum hér á framfæri.

Hæstv. menntmrh. taldi, að við flokksbræður, ég og hv. 3. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, værum ósammála í þessu máli og það sýndi m. a., hve vandasamt málið væri. Ég vil nú í fyrsta lagi segja það, að hér er ekki um neitt flokksmál að ræða, þannig að þess vegna væru það engin tíðindi, þó að við værum ósammála og hefðum mismunandi skoðanir á þessu smáatriði, sem ég gerði hér að umtalsefni. En ég held þó, að því sé ekki einu sinni til að dreifa. Ég held, að við séum nánast alveg sammála í þessu máli. Ég er ekkert að mælast undan því, að sveitarfélög hafi úrskurðarvald í þessum málum, síður en svo, og ég vona, að hæstv. menntmrh. skilji það ekki til langframa þannig, að ég hafi verið að leggja það til, að honum yrði fært allt vald í þessum málum. Það var ekki meining mín. Ég er mjög hlynntur því, að sveitarstjórnir skeri úr því sjálfar, sem undir þær heyrir og þær geta ráðið við. Það, sem ég hafði við frv. að athuga, var 26. gr. Mér hefur nú borizt í hendur umsögn um frv. til laga um náttúruvernd skrifuð af Þórði Eyjólfssyni fyrrv. hæstaréttardómara, en til hans er mikið vitnað um þessar mundir í sambandi við lagasmíð hér á Alþ. Um þessa gr. segir Þórður, með leyfi forseta:

„Hér er ákvæðum um fólkvanga breytt frá því, sem nú er í 8. gr. gildandi laga. Samkv. 8. gr. laganna ráða bæjarstjórnir því einar í kaupstöðum, hvort landsvæði skuli gert að fólkvangi, en utan kaupstaðar ráða náttúruverndarnefndir og sveitar eða sýslustjórnir því í sameiningu. Eftir 26. gr. frv. mun yfirlýsing um, að tiltekið landsvæði sé gert að fólkvangi, eiga að koma frá náttúruverndarráði.“ Ég gat um þessa breytingu í gær. En svo segir dómarinn fyrrv.: „Í grg. frv. um 26. gr. segir, að frumkvæði um stofnun slíkra fólkvanga sé í höndum bæjar- eða sveitarstjórna, og verður greinin vafalaust skýrð í samræmi við það. Af því leiðir, að náttúruverndarráð mun ekki lýsa tiltekið landsvæði fólkvang, nema fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar.“

Það kemur alveg glöggt fram af þessari umsögn, að hér er hugsað um málið í eintölu. Hér er hugsað um fólkvang, sem aðeins eitt bæjar- eða sveitarfélag hefur umráðarétt yfir, bæði yfir landinu, sem gert er að fólkvangi, og eins eftir að búið er að stofna þetta friðlýsta land. Og það, sem mitt mál fjallaði um einfaldlega í gær, var það, hvað á að gera, ef málið varðar fleiri sveitarfélög en eitt, eins og það ákveðna tilvik laut að, sem ég gerði að umtalsefni, friðlýsing lands frá Krýsuvíkurbergi að Elliðaárvogi? Það hefur komið fram tillaga um að gera þetta að fólkvangi. Hún kom fram í borgarstjórn frá okkar framsóknarmönnum í októbermánuði 1969, minnir mig, og það sýndi sig. með gildandi lögum, að það voru svo mikil tormerki á því að gera þetta, að málið er nánast í sjálfheldu. Og menntmrn. var bent á þetta og það beðið um að taka inn í núv. frv. ákvæði, sem betur skæru úr um þetta. Það hefur að mínum dómi ekki verið gert. Ég sé ekki samkv. þessu, að náttúruverndarráð hafi heimild til að skera úr deilumálum, ef upp koma milli sveitarfélaga. Eitt sveitarfélag vill, að fólkvangurinn sé stofnaður. Annað vill það ekki. Hefur þá náttúruverndarráð leyfi til þess að skera úr þessu máli? Það held ég ekki. Ég held, að það hafi það ekki miðað við þá grein, eins og hún er núna. Þetta er það, sem ég hafði við frv. að athuga, en alls ekki það, að ég vildi, að sveitarfélögin væru svipt því valdi, sem þau geta mest haft. Það held ég alls ekki. Ég vil bara, að það sé einhver aðili, sem geti höggvið á svona hnút, ef til kemur. Um önnur atriði skal ég ekki fjölyrða sérstaklega, þar sem hæstv. ráðh. getur nú ekki verið viðstaddur.

Ég harma það enn, að út úr frv. var tekin fjáröflunin. Ég óttast það eins og svo margir, sem hér ræddu málið í gær, að þegar að kreppir og á að semja fjárlög, verði svona hlutir, sem hægt er að hafa nokkuð í hendi sér, hornreka, og þeirra hlutur verði smár í fjárlögum, þegar margt kallar á, sem gera þarf. Ekki vegna þess endilega, að ráðherrar þeir, sem hlut eiga að máli, séu andvígir þessu. Mér dettur ekki í hug að halda það, heldur bara einfaldlega vegna þess, að hér er ekki neitt, sem beint rekur á eftir, engin lagafyrirmæli frá Alþ. og kannske ekki verkefni, sem eru svo bráðaðkallandi, að mönnum finnist ekki, að þau geti beðið svo sem eins og eitt ár, þó að reyndin sé raunar sú, að þau geta það alls ekki. Það er enginn vafi á því, að samkv. þessu nýja frv., og raunar samkv. gildandi lögum líka, þarf talsvert fjármagn til þess að friðlýsa landið eins og menn almennt eru sammála um og svo vel kom fram í umr. hér í gær. Og ég hygg, að svo sé ástatt nú, að fjármagn til þessara hluta sé of litið og það væri ástæða til að auka það fremur en draga úr því. Það var náttúrlega enginn glæsibragur yfir þessari fjáröflun í frv., ég skal alveg viðurkenna það. Það er nánast sitt beinið af hverri tíkinni, svolítil prósenta af áfengi því, sem búið er til á Íslandi, pínulítil prósenta af orkusölu og enn þá minni prósenta af varmaframleiðslu. Ég skal alveg viðurkenna það, að svona sparðatíningur er leiðinlegur og hefði sjálfsagt mátt tiltaka einhvern einn tekjustofn og tryggja sjóðnum þar með a. m. k. þessar 3.7 millj. eða meira. Ég skal líka viðurkenna það, að svona eyrnamerking skatta er heldur hvimleið og hún hefur náttúrlega kastað tólfunum í tíð núv. hæstv. ríkisstj., hvað sem hæstv. menntmrh. hefur um það að segja. Og ég veit ekki betur heldur en síðasta verulega skattlagning, sem Alþ. hefur samþykkt, eitthvað 249 millj. kr., hafi einmitt verið launaskattur alveg í ákveðnu tilefni, til þess að leysa ákveðin verkefni, eyrnamarkaður á báðum eyrum 249 millj. í 9 mánuði til þess að standa undir svokallaðri verðstöðvun, sem er nú náttúrlega orðin öfugmæli fyrir löngu. En það alvarlega í þessu máli er auðvitað ekki þetta. Ég get vel fallizt á það, að það megi fækka þessum svokölluðu eyrnamerktu sköttum. En það er bara þetta, að fjárveitingar samkv. fjárlögum eru tilteknar í krónutölu og sú krónutala hefur tilhneigingu til þess að dragast aftur úr í verðbólguþjóðfélagi. En hundraðshlutafjárveiting eins og sú, sem í frv. var, lafir þó í hækkununum.

Ég veit ekki, hvort ég nenni að vera með frekari sparðatíning í þessu, en fyrst hæstv. menntmrh. er kominn, þá get ég ekki stillt mig að endurtaka það, að mér finnst frv. hafa verið lengi í rn. til athugunar. Hæstv. ráðh. sagði, að það þyrfti engan að furða það, þó að svona frv. væri örfáar vikur eða mánuði til athugunar. En þetta eru býsna margar vikur, sem frv. er búið að vera til athugunar í rn. og enn þá fleiri vikur síðan frv. kom fram og rn. hefur auðvitað haft tóm til þess að athuga það jafnlengi og allir aðrir. Ég held, að það sé a. m. k. komið á annað ár síðan þetta frv. kom frá nefndinni. Það geta nú þeir borið um, sem hér eiga sæti og í nefndinni voru. En ég skal láta þessum örfáu orðum lokið. Ég sá ástæðu til þess í gær að gera þessar aths. Ég hef, held ég, komið á framfæri því, sem ég man al því, sem ég ætlaði að ræða um í gær.

En aðalástæðan til þess, að ég stóð upp aftur, er sem sagt sú, að það er alls ekki mín stefna, að sveitarfélögin séu svipt því valdi, sem frv. gerir ráð fyrir þeim til handa til þess að ákveða um friðlýsingu og náttúruvernd. Mitt „prinsip“ laut sem sagt að þessu, svo að ég endurtaki það í lokin, hvað eigi að gera, hver eigi að hafa úrslita- og úrskurðarvald, þegar svo stendur á eins og í því tilviki, sem ég nefndi, að fleiri sveitarfélög en eitt eiga sameiginlega aðild að fólkvangi, og ég tala nú ekki um, ef svo skyldi fara, sem ekki var þó í þessu tilviki, að ósamkomulag risi á milli sveitarfélaga.

Ég skal svo láta þessu lokið.