25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

213. mál, náttúruvernd

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það verða nú aðeins fáein orð til viðbótar því, sem ég sagði um þetta mál í gær. Ég tel ástæðu til að fagna því, hversu margir hv. alþm. hafa tekið til máls og látið sig þetta mál einhverju skipta. Ég tel, að það sé ljós vottur þess, að menn hafa hugsað um þessi mál hér á hv. Alþ. Menn skilja, hversu mikilvæg þau eru og að löggjöf um náttúruvernd þarf að vera sem bezt og fullkomnust á hverjum tíma. Þessu fagna ég vissulega.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst sú, að mig langaði til þess að beina alveg ákveðinni fsp. til hæstv. menntmrh. og hún er í sambandi við nefndina, sem vann að undirbúningi þessa máls, og spurninguna um endurskoðun laga um Þingvelli. Sú þáltill., sem lá að baki því, að nefndin var skipuð, fjallaði, ef ég man rétt, um tvennt. Hún fjallaði um það, að það skyldi verða endurskoðuð gildandi löggjöf um náttúruvernd og endurskoðuð gildandi löggjöf um þjóðgarð á Þingvöllum. Eftir að nefndin, sem undirbjó þetta frv., tók til starfa, komst hún nokkuð fljótlega að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að aðskilja þetta. Það kom aðeins til orða, hvort það ætti að taka ákvæðin um þjóðgarð á Þingvöllum inn í kaflann um þjóðgarða í náttúruverndarlögunum, en nefndarmenn hurfu algerlega frá því, og ég held, að það hafi alveg örugglega verið skilningur þeirra, þegar þeir sendu frá sér náttúruverndarfrv. og hafði jafnvel komið fram í bréfi til rn., að nefndin teldi starfi sínu ekki lokið, hún teldi sig eiga eftir að vinna hinn hluta verksins, sem henni var falið, þ. e. a. s. að endurskoða lög um þjóðgarð á Þingvöllum. Því miður hefur nefndin ekki verið kölluð saman eftir að hún sendi náttúruverndarfrv. frá sér, og mig langar til af þessu tilefni að spyrja hæstv. menntmrh., hvort hann lítur þannig á, að nefndin hafi lokið störfum eða hvort hann ætlast til þess eða gerir ráð fyrir því, að hún fjalli einnig um hitt verkefnið, þ. e. a. s. um löggjöfina um þjóðgarð á Þingvöllum. Sá hefur verið og er minn skilningur, og mér þætti mjög vænt um að fá álit hæstv. ráðh. um þetta eða hvort hann hefur gert aðrar ráðstafanir í sambandi við endurskoðun laganna um þjóðgarð á Þingvöllum.

Fyrst ég er staðinn upp, vil ég aðeins bæta fáum orðum við í sambandi við það, sem ég sagði um þá breytingu, sem gerð var á frv., að taka algerlega út úr því ákveðið um náttúruverndarsjóð. Ég skal fúslega fallast á það með hæstv. ráðh. og ég hef látið það fyrr í ljós, að ég tel það í sjálfu sér ekki heppilegt að vera stöðugt að koma með sérstaka tekjuöflun, sérstaka skatta til ákveðinna afmarkaðra verkefna, þar sem það vill nú oft vera svo, að þegar til lengdar lætur verður ekkert samræmi á milli skattlagningarinnar annars vegar og verkefnisins hins vegar. Ástæðan til þess, að ég féllst nú á það í nefndinni að leggja til þarna sérstaka skatta, var einvörðungu sú, að það ríkti innan nefndarinnar nokkur ótti um það, að það yrði erfitt, a. m. k. á ýmsum tímum, að afla nauðsynlegs fjár til framkvæmda í náttúruverndarmálum, ef ekki væri um einhverja sjálfstæða skattlagningu að ræða í því skyni, og ég beygði mig nú fyrir þeirri röksemd og það var eingöngu vegna þess ótta, að ég hef gert aths. við þá breytingu, sem gerð hefur verið á frv. að þessu leyti. En í rauninni er ég „prinsipielt“ samþykkur því, að slíkum sérstökum sköttum til ákveðinna verkefna á að fækka, og ríkisvaldið eigi hins vegar og Alþ. að meta það á hverjum tíma, hver verkefnin eru og hver þörfin er, og ég vona, að sá skilningur komi nú til með að ríkja á náttúruverndarmálum á komandi tímum, að þetta komi ekki að sök. Ég veit, að hæstv. menntmrh. hefur skilning á þeim málum. En það er nú hins vegar svo, að þó að hann hafi setið vel og lengi í sínu embætti, þá kemur að því einhvern tíma fyrr eða síðar, að annar maður komi þangað, og maður verður að vænta, að þeir, sem það embætti skipi, hafi góðan skilning á þessum málum og Alþ. geri það á hverjum tíma, sem nauðsynlegt er í sambandi við fjáröflun til náttúruverndarmála.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram og að ástæðan til þess, að ég var ekki alls kostar ánægður með þessa breytingu, var fyrst og fremst sú, að ég óttaðist, að hún hefði verið gerð í sparnaðarskyni. Hæstv. ráðh. taldi það ekki hafa verið og mér þótti vænt um að heyra það.