18.03.1971
Efri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

213. mál, náttúruvernd

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft það mál, sem hér liggur fyrir, til athugunar, og eins og nál. á þskj. 527 ber með sér, þá leggur n. til, að frv. verði samþ., en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. Það var ein brtt., sem n. var sammála um að flytja. Það er nú fyrir vangá mína, að hún hefur ekki verið prentuð sem þskj., en þar er aðeins um nafnbreytingu að ræða, ef svo mætti segja, en þessi brtt. er við 4. gr. frv., 2. málsgr., 2. málsl. Þar stendur „Náttúruverndarsamtök“, en þessi samtök munu nú hafa breytt um nafn og kallast Landvernd og þá ber auðvitað að leiðrétta það í samræmi við það. Brtt. ber því að skoða fyrst og fremst sem leiðréttingu, en ég leyfi mér, af því að það var fyrir yfirsjón mína, að þessu var ekki útbýtt sem þskj., að leggja hana fram til hæstv. forseta sem skriflega brtt. og vænti þess, að hann leiti þá afbrigða, þannig að hún megi koma til við þessar umr.

Fyrir hönd n. verð ég að játa það, að hún hefur ekki getað kannað þetta mál eins og æskilegt hefði verið, vegna þess hvað lítill tími hefur verið til stefnu, en n. taldi þó rétt, vegna þess hvernig á stendur nú á hv. Alþ., að gert er ráð fyrir að ljúka þingi fyrir páska, en mikið af málum enn þá óafgreitt, að standa ekki í vegi fyrir því, að þetta mál gæti komið hér fyrir til endanlegrar afgreiðslu og þess vegna hefur hún nú skilað áliti, enda þótt æskilegt hefði verið, — það hygg ég, að allir nm. séu sammála um — að henni hefði getað gefizt meiri tími til athugunar á þessu í sjálfu sér mikilvæga máli.

Náttúruverndarmálin hafa, eins og kunnugt er, verið mjög ofarlega á baugi undanfarin misseri og ber að lofa þann áhuga, sem vart hefur orðið á þeim af hálfu almennings. Hagvöxtur og bætt lífskjör hafa verið kjörorðin síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk, þau markmið, sem gjarnan hafa verið sett öllum öðrum ofar bæði hér á landi og annars staðar. En tækin til að ná þessum markmiðum hafa verið aukin framleiðsluafköst, bætt tæknivélvæðing og aukin orkunotkun. En allt getur þetta haft meira eða minna skaðleg áhrif á umhverfið, ef ekki eru gerðar sérstakar gagnráðstafanir. Að vísu er það svo, að einstakir vísindamenn hafa fyrir alllöngu síðan varað við þeirri þróun, sem óhjákvæmileg væri. Ég minnist þess í þessu sambandi, að það var fyrir 14 árum síðan, sem ég hlustaði á erindi, sem kunnur sænskur vísindamaður að nafni prófessor Borgström flutti í Gautaborg eða nágrenni hennar, þar sem hann varaði með mjög sterkum orðum við þeirri þróun, að um stöðugt vaxandi mengun bæði lofts og lagar væri að ræða. Á þeim tíma var þetta ekki tekið svo alvarlega sem rétt hefði verið, en nú fyrst hafa þessi vandamál orðið svo áþreifanleg, að einnig hinn óbreytti þjóðfélagsborgari hefur vaknað við vondan draum. Gerir það auðvitað hið svonefnda mengunarvandamál, sem ég hef í huga, en náttúruvernd er auðvitað miklu víðtækara hugtak og ekki eins nýtt af nálinni.

Mikilvægasti þáttur náttúruverndar hér á landi er gróðurverndin, en vegna óhagstæðra loftslagsskilyrða er gróður hér á landi sérstaklega viðkvæmur fyrir óhagstæðum áhrifum, hvort heldur er af völdum náttúruaflanna eða mannsins. Og gróðureyðingin er auðvitað ekki neitt nýtt vandamál. Hún hefur átt sér stað jafnt og þétt frá því að landnám hófst. Horfast verður í augu við það, að náttúruvernd, sem að gagni kemur, kostar fé og verðmætafórnir, þannig að vega verður og meta þær efnahagslegu fórnir, sem færa verður í þessu skyni, gagnvart þeim verðmætum, sem varðveita á, ef náttúruverndin ber árangur. En slíkt mat hlýtur auðvitað ávallt að verða einstaklingsbundið. En þó að því beri að fagna, að mönnum er nú ljósari en áður sú hætta, sem umhverfinu stafar af hinni tæknilegu og efnahagslegu þróun, þá tel ég þó ástæðu til þess að vara við því að líta einhliða þannig á málið, að náttúruvernd og tæknilegar og efnahagslegar framfarir séu andstæður. Að svo þarf ekki að vera, leiðir þegar af því, sem ég hef bent á, að náttúruverndin kostar fjármuni, en af því leiðir aftur, að efnað þjóðfélag hefur meiri getu til að vernda náttúru landsins en fátækt. Sem dæmi um þetta mætti kannske nefna skógræktarmálin hér á landi. Það er enginn efi á því, að forfeður okkar hafa gert sér ljós þau náttúruspjöll, sem af eyðingunni stöfuðu, og vafalaust harmað þau alveg eins og við. En þá var lífsbaráttan svo hörð, að menn töldu sig ekki hafa efni á öðru en að nýta alla þá möguleika í náttúrunni sér til lífsbjargar, sem fyrir hendi voru, og tillitið til framtíðarinnar vék þá fyrir þessu, og það er mannlegt. Það var talið lífsnauðsyn að nýta þessi verðmæti. Það er kannske meira bættur efnahagur en í sjálfu sér aukinn skilningur á þessu efni, sem hefur svo gert það mögulegt með nokkrum árangri, — þó hann sé kannske ekki eins mikill og æskilegt væri — að varðveita og friða þær skógarleifar, sem við enn eigum eftir, og jafnvel að gera verulegt átak í þá átt að rækta nýja skóga. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi því til stuðnings, sem ég tel, að ekki megi loka augunum fyrir, að bættur efnahagur skapar líka möguleika á því að ráðstafa meiri fjármunum en ella til náttúruverndar, þannig að þess vegna má ekki líta á efnahagslegar framfarir og náttúruvernd sem andstæður. Og varðandi þann þátt umhverfisspillingarinnar, sem stendur í nánustu orsakasambandi við tækniþróunina eða mengunarvandamálið, má á það benda, að hin aukna tæknilega þekking skapar líka skilyrði fyrir því, að menguninni verði haldið í skefjum. En að því leyti, sem hér er um árekstra að ræða, — og fyrir því má ekki loka augunum, að þannig er að vissu marki. Það sló mig t. d. á sínum tíma, þegar ég kom fyrir 20 árum síðan eða meira til Trollhättan í Svíþjóð, sem maður kannaðist við frá landafræði sinni í barnaskólanum, og þar var talað um sem einn stærsta og fegursta foss Svíþjóðar, en þegar maður kom á þær slóðir var ekki neitt að sjá nema steypu og önnur mannvirki — verður maður vissulega að gera sér þetta ljóst. En í þessu efni, að því leyti, sem um slíka árekstra er að ræða milli náttúruverndar og tæknilegra og efnahagslegra framfara, þá er auðvitað ekki til neinn algildur mælikvarði á það, hve miklu skuli fórna í þágu náttúruverndarinnar. Mín persónulega skoðun er sú, að hún sé þess vissulega verð, að verulegar fórnir séu færðar í þágu hennar, en auðvitað eru þar takmörk, því að við verðum einnig að hafa í huga, að ef okkur tekst ekki, hvað lífskjör snertir, að halda í við grannþjóðir okkar, þá eigum við á hættu að missa fjölda fólks úr landinu og sér í lagi þá starfskrafta, sem mest eftirsjá er að, þannig að í þessu efni verður að leitast við að rata hinn gullna meðalveg.

Ég mun ekki rekja efni þess frv., sem hér liggur fyrir, í einstökum atriðum. En í því felast margvíslegar mikilvægar heimildir til handa þeim stjórnvöldum, sem með náttúruverndarmál fara. Ekki má þó loka augum fyrir því, að það verða aldrei lagaboðin, sem úrslitaþýðingu hafa fyrir árangur í þessu efni, þar skiptir mestu áhugi og skilningur almennings. Í okkar strjálbýla landi verður allt eftirlit yfirvalda með umgengni borgaranna við umhverfi sitt svo erfitt, að þessi umgengni verður aldrei með ákjósanlegum hætti, nema borgararnir sjálfir hafi á því nægilegan skilning.

Ég sé, að nú í dag hefur verið útbýtt allmörgum brtt. og má nú vera, að það hafi verið eitthvað fyrr, þó að það hafi farið fram hjá manni, en það hefur verið útbýtt allmörgum brtt. við þetta frv., enda eins og ég gat um höfðu raunar einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. og að sjálfsögðu hefur n. sem slík ekki tekið neina afstöðu til þessara brtt. En ef það væri í samræmi við vilja hv. flm., þá mundi ég nú telja ekki óeðlilegt, að þessar brtt. yrðu teknar aftur til 3. umr., þannig að n. gæfist kostur á því að athuga þær.

Herra forseti. N. leggur að öðru leyti til, að þetta frv. verði samþ. til 3. umr.