23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

213. mál, náttúruvernd

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fjórar brtt. við þetta frv., sem hér er til umr., ásamt hv. 3. þm. Vestf. og vil ég leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum. Í 4. gr. frv. eru taldir upp þeir aðilar, sem sæti eiga á náttúruverndarþingi, og eru þeir 17 eða 18 talsins samkv. þeirri upptalningu, sem í sömu grein greinir. Með tilliti til þess, hvernig þarna er valið af ýmiss konar félagsmálasamtökum, hefur okkur flm. þessara tillagna, sem ég mæli hér fyrir, þótt hlýða, að þarna bættust við þrír aðilar, þ. e. Vinnuveitendasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands og Félag ísl. arkitekta. Reyndar mun það vera rangnefnt félagið og vildi ég biðja leiðréttingar á því, þegar tillagan verður borin upp, að félagið heitir Arkitektafélag Íslands, en ekki Félag ísl. arkitekta. Það eru mistök hjá okkur flm., að það er ekki rétt nefnt, en skilst þó fullkomlega, hvað við er átt.

Ég lagði áherzlu á það í þeirri ræðu, sem ég flutti hér við 1. umr. málsins, að ég teldi, að það bæri að leggja áherzlu á það í sambandi við lög um náttúruvernd, að sættir yrðu betri heldur en oft hefur viljað bregða við milli tæknimanna annars vegar og áhugamanna um náttúruvernd hins vegar. En ég tel líka, að það sé mjög æskilegt, að þeir, sem beinna og mikilla hagsmuna hafa að gæta í sambandi við framkvæmd náttúruverndarmála, komi einnig við sögu og geti sagt sínar skoðanir og komið þeim á framfæri þegar á frumstigum þeirra mála, sem náttúruverndin fjallar um. Og ég held, að það sé óhætt að segja, að ýmsir hafi þar ekki öllu ríkari hagsmuna að gæta heldur en aðilarnir á vinnumarkaðinum, þ. e. a. s. vinnuveitendur og fólkið, sem í atvinnuvegunum vinnur, og finnst mér því — og það er skoðun okkar flm. — að þessir höfuðfulltrúar vinnumarkaðsaðilanna, Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið, ættu þarna einnig að vera með.

Íslenzkir arkitektar hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna um alla gerð og útlit mannvirkja og þeirra störf eru ákaflega mikilvæg, þegar um það er að ræða, að mannvirki hæfi landslagi og öðru því umhverfi, þar sem þeim er ætlað að starfa. Ég tel þess vegna sjálfsagt, að þessi félagsskapur sé þarna einnig upp talinn sem eigandi fulltrúa á náttúruverndarþingi, ekkert síður heldur en t. d. Verkfræðingafélag Íslands, og læt ég þá útrætt um þessa fyrstu tillögu. Ég held, að menn ættu að athuguðu máli að geta verið sammála um, að þessi tillaga sé eðlileg og hún sé fremur til bóta heldur en hitt.

Önnur tillaga okkar hv. 3. þm. Vestf. á þskj. 539 er við 6. gr., en þar er um að ræða tvær breytingar, í fyrsta lagi, að það sé fest í lögum, að náttúruverndarráð skuli skipað hið minnsta tveimur líffræðingum og tveimur verkfræðingum. Til að rökstyðja það vísa ég alveg til þess, sem ég hef áður sagt um nauðsynlegt samstarf tæknimanna og áhugamanna um náttúruvernd. Ég tel, að markmið og störf þessara manna eigi og muni geta farið saman, því að þeir vinna — eins og ég hef áður leitazt við að sannfæra hv. þdm. um, sem kannske þarf þó ekki, — þeir vinna raunverulega báðir að sama markmiði, þ. e. að búa okkur sem bezt lífsskilyrði í þessu landi og þannig, að við getum unað hag okkar í því umhverfi, sem það hefur skapað okkur. Önnur breytingin, sem þessi tillaga nr. 2 á þskj. 539 hefur að geyma, er sú, að kosningarrétt við kjör náttúruverndarráðs, þeirrar þýðingarmiklu stofnunar, skuli hafa allir þeir, sem náttúruverndarþing skipa, að undanskildum þeim, sem taldir eru í 5. og 6. lið 4. gr. Í frv., eins og það nú er, hafa embættismenn, sem sæti eiga á náttúruverndarþingi, ekki atkvæðisrétt til kosningar náttúruverndarráðs, en okkur flm. þykir þá ekki heldur við hæfi, að náttúruverndarráðið sjálft, — það, sem er fráfarandi á hverju náttúruverndarþingi — hafi atkvæðisrétt um sitt eigið kjör. Það er óeðlilegt og óvenjulegt, að sá háttur sé á hafður, þó að þetta sé kannske ekki mjög mikilsvert atriði.

Þá er það 3. tillagan og fyrir henni mælti ég í rauninni að nokkru leyti við 1. umr. málsins. Hún er um það, að náttúruverndarráð skuli setja sérstakar reglur um akstur ökutækja og umgengni ferðamanna í óbyggðum, þ. á m. um merkingu bílaslóða. Ráðinu er skylt að banna allan óþarfaakstur utan vega og merktra slóða, þar sem náttúruspjöll geta af hlotizt. Þá skal og gera tillögur til réttra aðila um gerð bílaslóða á öræfum landsins og merkingu þeirra og setja bein fyrirmæli þar um. Þessi brtt. er við 13. gr. frv. og felur í sér nokkuð víðtækara vald náttúruverndarráðs um þau efni, sem þarna er fjallað um, sérstaklega að því er varðar umgengni á öræfunum. Og einnig eru þarna ákvæði, sem ættu að auðvelda bæði innlendum og útlendum ferðamönnum að ferðast um öræfin og njóta þeirra dásemda, sem þau hafa að bjóða. Til þess þarf fjármagn og því þarf að beita með skipulegum og vitlegum hætti og þess vegna fjallar tillagan um það, að náttúruverndarráð skuli gera tillögu til réttra aðila, þ. e. til stjórnar vegamála, um gerð bílaslóða á öræfum og merkingu þeirra eða setja fyrirmæli þar um, þannig að þessi tillaga felur í sér meira vald náttúruverndarráði til handa heldur en í frv. felast. Ég tel það ákaflega mikilsvert atriði fyrir okkur, ekki aðeins vegna nauðsynjar þess, að þjóðin kynnist þessum hluta landsins — en ég tel, að enginn Íslendingur hafi raunverulega kynnzt sínu landi og sínum uppruna fyrr en hann hefur kynnzt eitthvað öræfunum — heldur sé hér líka um beint fjárhagsatriði að ræða að opna öræfin fyrir hinum erlendu ferðamönnum, en það getur hins vegar aftur falið í sér nokkrar hættur, þegar umferð vex um öræfin, og mikil nauðsyn á því, að settar séu fastar umgengnisreglur, sem hindri náttúruspjöll, sem iðulega hafa átt sér stað, jafnvel með þeirri umferð, sem nú þegar er á öræfum landsins.

Þá er svo loks brtt. við 24. gr., sem má segja, að sé bæði e. t. v. ofurlítil efnisbreyting, en kannske fyrst og fremst orðalagsbreyting til þess að móta að mati okkar flm. betur þá hugsun, sem við teljum almennt að eigi að búa á bak við náttúruvernd. Ég vil geta þess, að ég held, að ég ljóstri ekki neinu upp, þó ég segi það, að ég ræddi þessa tillögu sérstaklega við núverandi formann náttúruverndarráðs og hann taldi, að þessi setning, sem þarna er gerð tillaga um að breyta, væri töluvert betur orðuð með þeim hætti, sem við flm. leggjum til. Og met ég það að sjálfsögðu mikils, að sá maður vilji einnig líta svo á. Þessi málsliður í 24. gr. er nú svo hljóðandi: „Má þar“ — þ. e. á landsvæði, sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs og er friðað í heild — „má þar ekki spilla né breyta náttúrufari né gera mannvirki, sem raska svip landsins.“ Okkur flm. þykir alveg nægilegt að segja, að ekki megi raska náttúrufari, því að sé náttúrufari ekki raskað, þá er því vitanlega ekki heldur spillt, svoleiðis að það virðist um óþarfa tvítekningu þarna að ræða. Það megi ekki breyta náttúrufari né gera mannvirki, sem raski svip landsins. Nú er það svo, að um allt, sem mannshöndin gerir í náttúrunni, hvort sem það er til góðs eða ills, má segja, að það raski að einhverju leyti svip landsins. Jafnvel alveg nauðsynlegustu mannvirki, sem yrði að setja upp í almenningsgörðum og þjóðgörðum til þjónustu við þá, sem þeirra eiga að njóta, þau auðvitað raska svip landsins, en spurningin frá náttúruverndarsjónarmiði hlýtur að vera sú, hvort þau spilli svip landsins. Ég býst við, að flestir séu mér sammála um, að íslenzkar sveitir séu fegurð fyrir augað og við kunnum betur við að sjá þær með byggðum bólum, mannvirkjum og ræktun, en allt hefur þetta auðvitað raskað þeim upphaflega svip landsins, en það hefur ekki að okkar viti spillt honum.

Ég ætla, að þetta nægi til skýringar þessum brtt. og ætla ekki að lengja mál mitt, enda kominn tími til kvöldverðar. Ég vil taka það fram, að ég tel eðlilegt og æskilegt, að hv. menntmn. athugi þessa tillögu ásamt öðrum, sem fram hafa komið og sem ég ætla hér ekki að fjölyrða um, annaðhvort áður en þessari umr. lýkur eða þá fyrir 3. umr. málsins, og ég vona sem sagt, að að athuguðu máli geti hún fallizt á flestar og helzt allar þær tillögur, sem við hv. 3. þm. Vestf. flytjum á þskj. 539.