24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

213. mál, náttúruvernd

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði við fyrri hl. þessarar umr., að það er mikilvægt, að löggjöf fáist sett sem fyrst um náttúru- eða umhverfismál þessarar þjóðar. Hins vegar verð ég að viðurkenna það, að ég varð dálítið undrandi, þegar frv. þetta um náttúruvernd kom svo fljótlega frá n. og án nokkurra aths., því þó það sé nauðsynlegt að hraða afgreiðslu frv. um náttúruvernd, þá er þetta engu að síður svo stórt og mikið mál, að ég tel, að það þurfi að vanda mjög vel til alls undirbúnings. Ég hafði átt von á því, að leitað yrði umsagna ýmissa aðila, bæði einhverra þeirra, sem nefndir eru í frv., og fjölmargra annarra, sem hlut eiga að máli. Ég hef rætt um frv. lítillega við nokkra slíka aðila, sérstaklega á sviði vísinda, og veit ég, að þar er áhugi fyrir því að koma á framfæri einhverjum breytingum. Vildi ég beina því til hv. menntmn., að hún athugi það nokkru nánar, enda hafa orðið á frv. nokkrar breytingar frá því sem það var, þegar það var lagt fram hér á Alþ. í fyrra og ástæða til að kanna það nokkru nánar.

Ég er ásamt hv. 11. þm. Reykv. flm. að nokkrum brtt. á þskj. 562 og sömuleiðis á þskj. 539 ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann hefur flutt þær brtt. og mun ég ekki fjölyrða um þær hér, en snúa mér að þeim, sem við flytjum á fyrrnefndu þskj. 562.

Fyrsta brtt. er þess efnis, að við 4. gr. bætist 6. liður, þannig: „Heimilt er með reglugerð að fjölga þeim, sem sæti eiga á náttúruverndarþingi.“ Okkur sýnist nokkuð vafasamt að binda það í lögum, hverjir eiga sæti á þessu þingi, því að samtökum, sem láta sig varða náttúruvernd, fer áreiðanlega fjölgandi hér á næstunni og er illt, ef breyta þarf lögum til þess að slík samtök fái sæti á náttúruverndarþingi. Ég vil geta þess, að mér hefur verið bent á það í þessu sambandi, að e. t. v. væri réttara að takmarka þessa heimild við samtök og felst ég fyllilega á það og beini því til menntmn., sem boðizt hefur til að taka þessa brtt. til athugunar.

Við 14. gr. leggjum við til, að orðalagi verði nokkuð breytt. Hún er orðuð svo nú: „Bannað er að eyða eða spilla gróðri með mosa- o. s. frv.“ og einnig: „Bannað er að saurga vatnsból eða spilla vatni, hvort heldur er rennandi vatni í ám og lækjum o, s. frv.“ Ég hafði orð á því við 1. umr., að mér sýndist ekki skynsamlegt að orða þetta svo, að bannað sé að saurga vatnsból. Þetta orkar mjög tvímælis. Vatnsbólum eða ám eða lækjum er vitanlega spillt með sérhverju, sem þar kemur nálægt, öðru en frá umhverfinu sjálfu. Jafnvel skepnur spilla að sjálfsögðu vatni og vafasamt að banna slíkt nema a. m. k. innan skynsamlegra marka. Við leggjum því til, að þessi gr. verði umorðuð og orðist þannig: „Ekki skal eyða eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi eða á annan hátt eða saurga vatnsból eða spilla vatni, hvort heldur er rennandi vatn í ám og lækjum eða í stöðuvötnum og brunnum, að óþörfu, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“ Okkur sýnist ekki unnt að setja í lögin ákvæði um þetta atriði, þannig að tæmandi séu, og réttara að veita heimild til þess að ákveða það nánar í reglugerð.

Við 16. gr. leggjum við til, að skotið verði inn viðbót á eftir „nauðsynlegum hreinlætistækjum“ þannig, að þar komi: „sem fullnægi öllum kröfum heilbrigðisyfirvalda.“ Heilbrigðismálin í landinu eru nú í allítarlegri endurskoðun eftir þá löggjöf, sem samþ. var á síðasta Alþ. Er mér kunnugt um það, að í þeirri reglugerð, sem verið er að ganga frá, verða sett ákvæði um slíkan aðbúnað og sjálfsagt að vísa í það og gera ráð fyrir því, að þeim verði fullnægt alls staðar, þar sem samkomustaðir eru úti í náttúrunni. Þetta er afar mikilvægt ákvæði að dómi okkar flm. brtt. Víða hefur verið pottur brotinn í þessu sambandi, ekki sízt á mjög fjölmennum samkomustöðum, sem eru orðnir vinsælir hér á landi á sumartíma. Oft er aðstaða þar þannig, að til hreinnar skammar er, og má alls ekki við svo búið sitja.

Við 20. gr. gerum við brtt. Efni hennar er þannig í frv., að ekki skuli heimilað að girða eða reisa mannvirki 150 m frá hæsta flóðmáli né á vatnsbakka eða árbakka í minni fjarlægð en 100 m frá vatnsborði. Okkur sýnist, að ákvæði þetta sé illframkvæmanlegt. Við erum í sjálfu sér hlynntir þeirri stefnu, sem þarna er mörkuð, og okkur skilst, m. a. við athugun á grg. með eldra frv. og viðræðum við þá, sem að því stóðu eða það sömdu, að þarna sé fyrst og fremst til þess ætlazt, að gangandi fólki væri ekkí meinaður gangvegur meðfram sjávarströnd eða vatni eða vatnsborði. Höfum við því umorðað þessa gr. þannig: „Eigi má setja byggingar, girðingar né önnur mannvirki á sjávarströnd né á vatnsbakka og árbakka, þannig að hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Ákvæði þessarar málsgr. eiga þó ekki við um þær byggingar eða þau mannvirki, sem nauðsynleg eru vegna atvinnurekstrar, þar með talin íbúðarhús bænda, né þau, sem reist eru með leyfi réttra yfirvalda á skipulögðum svæðum, eða mannvirki, sem reist hafa verið fyrir samþykkt þessara laga.“

Í seinni hluta greinarinnar höfum við undanskilið íbúðarhús bænda og sömuleiðis mannvirki, sem reist hafa verið fyrir samþykkt þessara laga. Mér hefur skilizt, að seinni hluta greinarinnar í frv. sé einnig ætlað að ná til íbúðarhúsa bænda. Okkur sýnist þó ekki nógu skýrt að orði kveðið í þessu sambandi og því er það innskot inn komið, sem ég las áðan. Sömuleiðis er ljóst, að ekki kemur til mála — a. m. k. yrði það afar kostnaðarsamt og erfiðleikum bundið — að krefjast þess, að girðingar og sumarbústaðir og ýmis þau mannvirki, sem nú eru nær vatnsborði heldur en þarna er tilskilið, beri að flytja á brott. Það yrði mjög kostnaðarsamt og miklum erfiðleikum háð. Því er seinni hluti þessarar viðbótar okkar þarna kominn inn.

Mér sýnist sömuleiðis, eins og ég sagði áðan, miklir erfiðleikar á framkvæmd þessarar greinar almennt. Vildi ég nefna framkvæmdir eins og t. d. skógrækt, sem er vitanlega víða æskileg nær vatnsborði en 100 m. Hún yrði samkv. orðalagi greinarinnar nú ekki heimil eða nánast óframkvæmanleg, því að öllum er ljóst, að skógrækt verður að girða og hindra þannig aðgang skepna og jafnvel manna í sumum tilfellum. Við teljum hins vegar, að greinin, eins og hún er orðuð hjá okkur, nái þeim megintilgangi að auðvelda mönnum umgang við vatnsborð og sjávarbakka.

Í fimmta lagi leggjum við til í sambandi við 21. gr., að þar komi nokkur viðbót. 21. gr. fjallar um sumarbústaði og þess háttar og skipulagsskyldu í því sambandi. Við viljum bæta þar við svo hljóðandi málsgr.: „Ávallt skal við byggingu sumarbústaða fullnægt kröfum heilbrigðisyfirvalda um frágang rotþróa, olíutanka og annað, sem mengunarhætta getur stafað frá.“ Það má segja, að þetta sé sjálfsagt ákvæði, en víða er pottur brotinn í þessu sambandi. Mjög víða er þannig gengið frá olíutönkum, að veruleg mengun getur stafað frá í umhverfinu. Sömuleiðis er það staðreynd, að rotþrær, þar sem þær á annað borð eru, eru margar hverjar svo gallaðar, að þær koma að litlum eða takmörkuðum notum. Sama má raunar segja um frárennsli frá sumarbústöðum, sem sums staðar er til hins mesta ósóma.

Við 25. gr. gerum við ráð fyrir viðbót. 25. gr. fjallar um þjóðgarða, sem réttilega er bent á í grg. með hinu eldra frv., að eru einn mikilvægasti þátturinn í ráðstöfunum náttúruverndarráðs til umhverfis- og náttúruverndar. Þjóðgarðar hafa verið ákveðnir hér á landi. Þar ber hæst Þingvelli og síðan Skaftafell. Staðreyndin er sú, að í þjóðgörðum þessum hefur aðbúnaður allur fyrir almenning verið mjög takmarkaður. Hefur það jafnvel sums staðar orðið til skaða, eins og t. d. á Þingvöllum. Nú er ljóst, að þar sem þjóðgarður er ákveðinn, má búast við stórauknum ágangi eða heimsóknum almennings, sem von er. Staðurinn er auglýstur og kynntur vel, eins og ber að gera, en við það skapast vitanlega aukin hætta á spillingu umhverfisins frá því, sem áður var, þegar fámenni var þar yfirleitt. Sömuleiðis er nauðsynlegt að skapa þeim almenningi eða því fólki, sem kemur í þjóðgarða, aðstöðu til þess að njóta þeirra sem bezt, aðstöðu til þess að tjalda í þjóðgörðum, aðstöðu til hreinlætis. Og síðast en ekki sízt: upplýsingar verða að liggja fyrir um þjóðgarðinn, um það, sem þar er að sjá, og göngustígar um hann fyrir fólkið, þannig að ekki verði um að ræða óþarfa átroðning á þjóðgarðinum almennt. Því leggjum við til, að til viðbótar við 25. gr. komi málsgr., sem orðist þannig: „Í þjóðgörðum skal þegar koma upp nauðsynlegri hreinlætisaðstöðu, tjaldstæðum, leiðbeiningum, gangstígum og öðru því, sem auðveldar almenningi afnot af svæðinu og stuðlar gegn spjöllum.“

32. gr. felur í sér töluverða breytingu frá því frv., sem sýnt var á síðasta Alþ. Þar segir svo: „Engar ákvarðanir náttúruverndarráðs um friðun eða friðlýsingu koma til framkvæmda fyrr en menntmrn. hefur lagt á þær samþykki sitt.“ Eins og raunar hefur komið fram í umr. á Alþ. nú nýlega, þá veldur slíkt ákvæði verulegum töfum. Hins vegar virðist okkur flm. alls ekki nauðsynlegt að binda allar ákvarðanir náttúruverndarráðs slíku ákvæði. Vitanlega eru fjölmargar ákvarðanir náttúruverndarráðs þess eðlis, að þær t. d. skapa ríkissjóði ekki útgjöld og geta og þurfa að koma til framkvæmda án tafar. Má þar t. d. nefna verndun plantna og akstursslóðir, sem talað er um í frv., svo eitthvað sé nefnt. Við teljum því rétt að binda samþykki menntmrn. fyrst og fremst við þær ákvarðanir náttúruverndarráðs, sem valda ríkissjóði útgjöldum eða hefur verið andmælt, sbr. fyrri gr. Leggjum við því til, að greinin orðist svo: „Ákvarðanir náttúruverndarráðs, sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð eða gerðar hafa verið við athugasemdir, bótakröfur eða verið mótmælt samkv. 30. gr., koma ekki til framkvæmda, fyrr en menntmrn. hefur lagt á þær samþykki sitt.“

Í 34. gr. sýnist okkur ranglega vísað í 29. gr. Það mun eiga að vera 28. gr., og stafar þetta af breytingum á greinanúmerum frá því frv., sem sýnt var á síðasta Alþ. Leggjum við til, að þessari tilvísun verði breytt í samræmi við það.

Í 37. gr. er rætt um, að brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar eru samkv. þeim, varði sektum eða varðhaldi. Okkur sýnist, að eitthvert ákvæði þurfi að vera um ákvörðun slíkra sekta og leggjum til, að þess vegna verði bætt þarna við slíku ákvæði og orðist gr. þannig: „Brot gegn lögum þessum og reglum, er settar eru samkv. þeim, varða sektum eða varðhaldi samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, sem menntmrn. setur.“

Í þessari sömu grein er svo kveðið á, að sektir renni í ríkissjóð og sömuleiðis, að beita megi dagsektum, er renni í ríkissjóð. Okkur flm. sýnist eðlilegt, að sektir þessar renni í náttúruverndarsjóð og berum fram brtt. í þá átt.

Þá hef ég farið yfir þær brtt., sem eru á þskj. 562. Ég ætla ekki að ræða um aðrar brtt., en vil aðeins minnast á brtt. frá hv. 5. þm. Reykn., Gils Guðmundssyni, um náttúruverndarsjóð. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þá tillögu, en vildi þó varpa þeirri hugmynd fram, hvort ekki sé vafasamt að binda tekjur náttúruverndarsjóðs eingöngu við framlag úr ríkissjóði. Mér sýnist, að ýmsar aðrar tekjur geti komið þar til greina, m. a. tekjur af sektum, sem ég minntist á áðan. Sömuleiðis tíðkast mjög víða, að inngangseyris er krafizt í þjóðgarða. Hann þarf ekki að vera hár, en af því geta hlotizt nokkrar tekjur, og væri eðlilegt, að þær rynnu til náttúruverndarsjóðs og ekki sízt til viðhalds þjóðgarðanna sjálfra. Það er einnig mjög algengt erlendis, þar sem komið er á slík svæði, að greiða verður fyrir bifreiðar, sem aka inn í þjóðgarða. Það eru keyptir leyfismiðar og væri sömuleiðis eðlilegt, að slíkar tekjur rynnu í náttúruverndarsjóð. Þá eru víða seld veiði- og tjaldleyfi. Sama gildir um það og hitt, sem ég hef nefnt áður. Svo má nefna sölu á ritum og myndum, sem fjalla um þjóðgarða. Allt þetta getur orðið nokkur tekjustofn, þó að það sé ekki eins mikið og gert er ráð fyrir að komi frá ríkissjóði, og væri eðlilegt, að það rynni til náttúruverndarmála óskipt. Þessu vil ég koma á framfæri við menntmn., áður en hún fjallar um þessa brtt.

Um fjölmargt fleira í frv. væri fróðlegt að ræða, en ég skal takmarka ræðu mína sem mest. Mörg mál liggja fyrir. Þó vil ég minnast á örfá atriði í þessu sambandi.

Ég var að hugsa um það í sambandi við 28. gr., að þar eða einhvers staðar í frv. þurfi að koma einhver ákvæði um það, að náttúruverndarráð skuli kynna viðkomandi sveitarfélögum, stofnunum og almenningi þær aðgerðir, sem náttúruverndarráð hyggst gera í náttúruverndarmálum. Mér virðist þetta nauðsynlegt. Það má e. t. v. segja, að þetta liggi í hlutarins eðli, en staðreyndin er sú, að náttúruvernd verður aldrei framkvæmd þannig, að vel takist, nema mjög öflug kynningarstarfsemi sé viðhöfð og tekst aldrei, nema almenningur sé með í ráðum, ef ég má orða það svo, sé fylgjandi a. m. k. þeim ákvörðunum, sem náttúruverndarráð gerir, en ekki andvígur. Því held ég, að engin bönn eða sektir geti orðið til þess, að náttúruvernd verði eins og vera ber. Fremur hygg ég, að öflug þátttaka fjöldans, kynningarstarfsemi o. þ. h. verði mikilvægasti þátturinn í þessu sambandi. Sýndist mér því, að gjarnan mætti, ef ekki í þessari gr., þá einhvers staðar annars staðar, leggja nokkuð ríka áherzlu á þetta viðfangsefni og verkefni náttúruverndarráðs.

Ég vil að lokum taka undir það, sem kom fram hjá hv. frsm. menntmn., að vissulega þarf að gæta jafnvægis og skynsemi í sambandi við náttúruvernd annars vegar og ýmsar framkvæmdir hins vegar. Það er staðreynd, að nánast allar framkvæmdir hafa í för með sér einhverja röskun á umhverfinu og snerta þannig þá náttúruvernd, sem hér er til umr. Ég get þó ekki tekið undir það, að um raunverulega fórn sé að ræða í þessu sambandi. Það mætti e. t. v. snúa því við og segja, að einhverju sé fórnað frá náttúrunnar og umhverfisins hálfu, þegar í framkvæmdir er ráðizt. Ég hygg, að umhverfið, sem við njótum Íslendingar í dag og er tiltölulega litið spillt, þó að nokkur spjöll og raunar veruleg hafi orðið í sambandi við gróðureyðingu, sem ekki má gleyma, sé, þegar á allt er litið, einhver þau mestu auðæfi, sem við eigum. Ég er því þeirrar skoðunar, að það beri að ganga æðilangt til verndar þessu umhverfi, en get hins vegar fallizt á það og tel sjálfsagt, að hvort tveggja sé haft í huga, sá hinn venjulegi mælikvarði á efnahagsvöxt, sem felst í framkvæmdum og aukinni þjóðarframleiðslu, og hins vegar verndun þessa dýrmæta umhverfis, sem við eigum, ekki aðeins fyrir erlenda ferðamenn, heldur einnig og ekki síður fyrir okkur sjálf og okkar afkomendur.