24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

213. mál, náttúruvernd

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs í gær við þessa umr., þá var nú ekki búið að halda fund í menntmn. um fram komnar brtt., en í morgun var fundur í menntmn. þessarar hv. d. og þær brtt. yfirfarnar, sem þegar höfðu verið fluttar, og enn fremur varð að samkomulagi í n. að flytja tvær brtt., sem ég hef borið fyrir brjósti og raunar lýst hér nokkuð rækilega annarri þeirra við 1. umr. Þess vegna hef ég ekki eins mikið um málið að segja nú eins og mér fannst ég þurfa að segja um það í gærkveldi, þegar ég kvaddi mér hljóðs við umr. En ég vil þó, áður en lengra er haldið, lýsa þeirri skoðun minni, að við eigum að afgreiða þetta mál. Það er auðvitað svo um þetta mál, að það verður aldrei fullfrágengið. Það verður aldrei fullkomið, svona frv. Hér er að mörgu leyti um byrjunaraðgerðir að ræða og þess vegna skynsamlegt og eðlilegt að þreifa sig áfram. Þess vegna geri ég nú ráð fyrir því, að þó að okkur lánist að setja náttúruverndarlög, sem eru til bóta frá núverandi lagasetningu, þá liði ekki langur tími áður en menn sjá ástæðu til þess að endurskoða þau. Það tel ég fullkomlega eðlilegt.

Ég vildi svo aðeins minnast á það, að við 1. umr. lét ég, eins og aðrir hv. ræðumenn, sem hér töluðu, mjög eindregna skoðun í ljós um það, að það væri sízt til bóta, það væri raunar til hins verra að fella út náttúruverndarsjóðinn og sérstaka fjáröflun til hans og hafði þá í huga að flytja um það brtt. Áður en það varð, að ég eða mínir félagar flyttum brtt. í þá átt, kom brtt. frá hv. 5. þm. Reykn., sem ég fyrir mitt leyti get vel fellt mig við, þ. e. a. s. að fella niður sérstaka fjáröflun til sjóðsins, en taka í staðinn upp sérstakt ríkisframlag, sem aldrei verði lægra en 20 millj. kr., og vitanlega þá að því stefnt, að það geti orðið allverulega hærra, þegar svo stendur á, að meiri fjárhæða er þörf. Fyrr við þessa umr. lýsti flm. því, að hann vildi taka tillöguna aftur til 3. umr. Nú hefur það vafalaust verið gert, til þess að menntmn. hefði ástæður til þess að kynna sér í fyrsta lagi, hvort hún vildi gerast meðflutningsmaður eða stuðningsmaður þessarar tillögu eða þá, hvort sá ráðh., sem málin heyra undir, vildi veita henni liðsstyrk. Nú var það upplýst á menntamálanefndarfundi þeim í morgun, sem ég áðan gerði grein fyrir, að til þessa mundi ekki koma. Hvorki vill menntmn. sem heild gera þessa tillögu að sinni eins og sumar aðrar brtt., sem fyrir lágu og síðar verður gerð grein fyrir af öðrum, né heldur vill hv. menntmrh., að þessi leið verði farin. Ég sé þess vegna enga ástæðu til þess, að þessi tillaga sé dregin aftur til 3. umr. Það gerist ekkert á milli umræðna, sem bætir líkurnar á því, að hún nái samþykkt, en ég hef hugsað mér að freista þess þá við 3. umr. að gera brtt. við frv. í þá átt, að sjóðnum verði samt, þrátt fyrir þetta, tryggðar nokkrar tekjur — lægri þá, ekki þýðir að nefna þessa upphæð eða hærri — enn þá lægri og eftir öðrum leiðum, en það vil ég ekki gera, fyrr en þessi leið er fullreynd.

Í raun og veru þarf ég ekki að segja meira um þetta. Ég heyri, að hv. 5. þm. Reykn. hefur kvatt sér hljóðs og ég ætla að hlusta á það, sem hann segir um þetta, áður en ég segi þá meira.

Ég skal þá ekki tefja þessa umr. Eins og ég sagði, þá fannst mér í gær, að málið væri of lítið athugað til þess að ljúka 2. umr. um það. Nú hefur nokkur athugun farið fram og að mínum dómi ýmsar lagfæringar fengizt á frv., þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að tefja þessa umr. lengur, nema sérstakt tilefni gefist til.