24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

213. mál, náttúruvernd

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi nú fyrst og fremst leggja áherzlu á það, að hv. menntmn. tæki þetta mál til nýrrar skoðunar. Það eru, að því er mér telst til, ekki komnar færri en 17 brtt. við frv. og fleiri í vændum. Mér sýnist því alveg einsýnt, að menntmn. taki þetta til athugunar og að hún taki það til athugunar meðan á þessari umr. stendur, þ. e. a. s. að 2. umr. verði frestað á meðan sú athugun fer fram, en að slíkri athugun sé ekki frestað þangað til á milli 2. og 3. umr. Athugun á máli sem þessu á fyrst og fremst að fara fram á milli 1. og 2. umr., og ég held, að þær brtt., sem hér hafa komið fram, og aðrar þær, sem boðaðar eru, bendi til þess, að hv. n. hafi verið fullfljót á sér að afgreiða málið, enda minnir mig, — ég hef nú ekki nál. — að það sé með fyrirvara helzt frá nm. öllum, þannig að þeir áskilja sér allir rétt til að flytja og fylgja brtt. Mér sýnist því, að málið þurfi athugunar við. Að vísu má segja það, að sú athugun megi fara fram og geti farið fram milli 2. og 3. umr. og það megi hafa þann hátt á, að menn taki þá aftur þær brtt. til 3. umr., sem menntmn. tekur ekki alveg eindregna andstöðu gegn á þessu stigi, og víst veit ég það, að sá háttur er stundum á hafður, en ég tel hann bara óeðlilegan, og ég tel hann sérstaklega óeðlilegan, þegar málið er vaxið eins og sýnilegt er, að þetta mál er vaxið. Það þarf virkilega meiri og það mun meiri athugunar við. Þetta vil ég nú segja.

Ég vil segja það um þessar brtt., sem hér eru fram komnar, að mér sýnist þær margar hverjar til bóta og ég fyrir mitt leyti mun fylgja þeim mörgum hverjum. En ég álít, að það sé eðlilegra að athuga það í n., hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um það að fella þær inn í frv.

Um þetta mál, þetta frv., er það náttúrlega að segja, að kjarni þess er alveg ágætur, en umbúðirnar eru nokkuð fyrirferðarmiklar að mínum dómi. Við höfum ekki ýkjalanga reynslu af löggjöf um náttúruvernd hér. Við höfum miklu skemmri reynslu en aðrar þjóðir, t. d. Norðurlandaþjóðirnar, sem munu hafa farið að setja hjá sér náttúruverndarlög, að ég hygg, snemma á þessari öld, en fyrstu náttúruverndarlögin okkar eru, eins og kunnugt er, þau almennu, sem nú eru í gildi, lögin frá 1956. Það er að vísu ekki langur tími, sem þau hafa verið við lýði, en þó nokkur tími og af þeim hefur fengizt vissulega allmikil reynsla og þess vegna má ætla, að sú reynsla hafi verið athuguð. Mér fannst og finnst sá ágalli á núgildandi náttúruverndarlögum, að það er nokkuð mikið bákn í kringum náttúruverndina, allar þessar mörgu náttúruverndarnefndir. Ég held, að það hafi verið ástæða til að kynna sér í sambandi við þetta mál, hvert hefur verið starf hinna ýmsu einstöku náttúruverndarnefnda, sem hafa átt að starfa.

Ég er því miður hræddur um, að afköst þeirra margra hverra hafi verið heldur lítil. Ég er því miður hræddur um, að það muni sækja í sama horfið með það, en þarna er gert ráð fyrir, að hver bæjarstjórn og hver sýslunefnd kjósi sérstaka náttúruverndarnefnd. Ég efast um, að reynslan af þessu kerfi sé sú, að það sé ástæða til að halda í það. Ég held, að það hefði verið ástæða til að kanna, hvort ekki ætti að hverfa að nýrri skipan að þessu leyti og þá vill svo til, að áhuginn í þessum efnum er mjög vaxandi. Það eru að rísa upp áhugamannasamtök, og það er ekki vafi á því, að það væri auðvelt að hrinda af stað slíkum áhugamannasamtökum og félögum miklu víðar. Þegar á að fara að setja hér upp þing, sérstakt náttúruverndarþing, þá held ég, að það hefði átt að koma til skoðunar, hvort ekki hefði verið eðlilegra að byggja þetta upp á þann veg, að það væri eins konar samband hinna einstöku áhugamannafélaga. Ég er alveg sannfærður um það, að það yrði miklu virkari náttúruvernd, sem áhugamannafélög á einstökum stöðum ættu að vinna að, heldur en svona kosnar nefndir, sem, eins og ég sagði, hafa ekki reynzt aðgerðarmiklar, það er alveg áreiðanlega óhætt að segja það. Þessu vildi ég aðeins skjóta fram, að ég held, að það hefði verið æskilegt, að það hefði verið hægt að gera alla skipun þessara mála einfaldari en mér virðist hún vera eftir frv.

Ég held, að það sé einmitt þetta atriði, sem ætti að taka sérstaklega til athugunar, þ. e. áhugamannaþáttinn í þessu, að binda hann inn í þetta, en byggja ekki allt á stjórnskipuðum eða kjörnum nefndum. Þetta vildi ég aðeins segja almennt um það, og ég vil bæta því við sem minni skoðun og undirstrika það, að þetta frv. heitir frv. til laga um náttúruvernd. Þetta frv. heitir ekki frv. til laga um náttúrufriðun, en náttúruvernd er í mínum huga víðtækara hugtak en náttúrufriðun. Ég álít, að t. d. landgræðsla og gróðurvernd geti heyrt undir náttúruvernd. Þess vegna finnst mér, að það megi ekki einskorða þetta við náttúrufriðunarsjónarmið, sem vissulega eru mikils virði, mjög mikils virði, en sem mér virðist, að sumir hafi nokkuð bundið sig við.

Þar sem ég vona, að hv. n. taki þetta til íhugunar, þá eru það eins örfá einstök atriði, sem ég vil leyfa mér að benda á.

Þá vil ég fyrst nefna hér 37. gr. Það hefur komið fram brtt. um hana og sú brtt. er í sjálfu sér góð, svo langt sem hún nær, en ég held, að það þurfi að gera enn frekari breytingar. Það segir í frumvarpsgreininni, eins og hún er nú: „Beita má dagsektum, er renna í ríkissjóð, allt að 2000 krónum, til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum o. s. frv.“, en það segir ekkert um það þarna og hvergi í þessu frv., hver það er, sem ákveður þessar dagsektir. Þetta er algerlega botnlaust. Ég geri ráð fyrir því, að miðað við alla hugsun, sem er í þessu frv., þá hljóti það að hafa vakað fyrir mönnum, að það væri náttúruverndarráð, sem ákvæði þessar dagsektir, en þá þarf í fyrsta lagi að taka það fram. Og þá getur líka komið upp í hugann, hversu vel náttúruverndarráð sé nú skipað eða fallið til þess að ákveða dagsektir. En þetta held ég að sé einfalt mál, sem þarf bara að lagfæra. Hver sem það svo er, sem á að ákveða dagsektirnar, þá hlýtur það a. m. k. að verða tekið fram, og eiga að vera tekið fram, því vitaskuld getur þarna ekki verið átt við dómssektir, það er fjarri lagi, því að það er heimild til þeirra á öðrum stað, almennt, þannig að það er ekki um það að ræða, að hér sé beitt dagsektum í dómsmáli, heldur hlýtur að vera átt þarna við það, að yfirvald geti gripið til dagsekta til þess að knýja mann til að fullnægja þeirri skyldu, sem á hann hefur verið lögð, og þá finnst mér, að það hljóti að hafa verið náttúruverndarráð, sem hefur verið haft í huga. Þetta þarf að taka fram vegna þess líka, að annars gæti komið til athugunar eða spurning komið um það, hvort hinar einstöku náttúruverndarnefndir í hinum einstöku héruðum ættu að geta beitt þessum dagsektum. Þetta bendi ég nú aðeins á.

Þá er það viðvíkjandi því, hvernig náttúruverndarráð er skipað. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það sé náttúruverndarþing, sem kýs náttúruverndarráðið, nema að því leyti, að formaður er skipaður af menntmrh. Við þetta hef ég í sjálfu sér ekkert að athuga. Ég tel það eðlilega skipun, en í brtt., sem fram hefur komið við þetta, brtt. nr. 2 á þskj. 539, er farið að binda kosningu náttúruverndarráðsmannanna við ákveðin kjörgengisskilyrði, þannig að tveir af þeim eiga að vera líffræðingar og tveir verkfræðingar. Ég held fyrir mitt leyti, að það sé ákaflega vafasamt að fara inn á þá braut að binda þetta þannig, ef á að fara inn á þá braut, þá kemst ég nú ekki hjá því að benda á það, að ekki væri nú fjarri sanni, að svo sem einn lögfræðingur ætti sæti í náttúruverndarráði. Má nú minna á það, að upphaflega var náttúruverndarráð þannig skipað, að það var lögboðið, að formaður þess væri embættisgengur lögfræðingur, ef ég man rétt, og stóð svo allar götur þangað til 1962 eða svo. Ég skýt þessu líka fram og það er ekki alveg út í bláinn, vegna þess að náttúruverndarráði er í þessu frv. ætlað að fara með veigamikið hlutverk, þ. á m. að ákveða um ýmsar friðlýsingar og fleira af því tagi, sem getur snert réttindi einstakra manna með ýmsum hætti og í því sambandi getur áreiðanlega stundum vaknað upp spurning, þar sem æskilegt er, að einhver lagakunnátta komi til. Mér er auðvitað ljóst, að það má segja, að náttúruverndarráð geti aflað sér þeirrar aðstoðar, þó að slíkur maður eigi ekki sæti í ráðinu, og það er út af fyrir sig rétt, en ég undirstrika, að ef á að fara að binda þetta kjör við ákveðna kunnáttu eða ákveðin fræði, þá held ég, að það sé í alla staði óeðlilegt að ganga fram hjá lögfræðingum í því sambandi. Það er að vísu svo, að það eru, eins og ég sagði áðan, talsverðar umbúðir í þessu frv. um friðlýsingu og framkvæmd friðlýsingar, en eftir sem áður stendur það, að það verður að lokum að grípa til eignarnáms; ef ekki næst samkomulag. Allar þessar reglur um það, hvernig eigi að fara að því að ná sáttum við rétthafa, þær eru út af fyrir sig góðra gjalda verðar, en þær segja ekki annað í raun og veru en það, sem sjálfsagt er, og þannig mundi auðvitað náttúruverndarráð fara að í flestum tilfellum og reyna með ýmsum hætti að ná samkomulagi um málið og bætur og fleira, sem þarna er fjallað um, en ef ekki gengur saman, þá er að lokum ekki annað fyrir hendi en að grípa til eignarnáms og það er náttúrlega ákvörðun, sem ekki væri óeðlilegt, að lögfræðingur hefði um að segja. Án þess að ég vilji sérstaklega vera að halda lögfræðingum fram, þá finnst mér nú rétt að benda á þetta í þessu sambandi.

Ég held nú reyndar, að það hefði gjarnan mátt í niðurlagi þessa frv. gera ráð fyrir setningu reglugerðar, sem menntmrh. setti að fengnum tillögum náttúruverndarráðs og ég held, að með þeim hætti hefði mátt draga þetta eitthvað saman og spara sumt af því, sem sett er inn í lagafrv. Það má segja, að auðvitað getur ráðherra sett þessar reglur eða reglugerðir, án þess að það sé tekið fram, en það, sem á ynnist með því að taka það fram og binda það sérstaklega við náttúruverndarráð, er þá það, að náttúruverndarráð ætti að hafa sérstaklega að segja um það, áður en slíkar almennar reglur væru settar, og ég held, að sumt í þessum greinum um framkvæmd friðlýsingarinnar ætti allt eins vel heima í reglugerð eins og hér í sjálfum lögunum, enda er það sýnilegt, að sum ákvæði í frv. hafa gefið mönnum tilefni til þess að koma fram með nokkrar brtt. þar við.

Mig langaði svo líka til þess að vekja athygli hv. nm. á 12. gr. Þar segir, að almenningi sé heimilt að lesa ber, sem vaxa villt á óræktuðu landi, til neyzlu á vettvangi. Mér finnst a. m. k., að það sé erfitt að tala um villt ber, sem vaxa á ræktuðu landi. Ég held, að það mætti nú breyta þessu orðalagi. Ég veit það vel, að þetta er ákaflega gömul regla, alla leið aftan úr Jónsbók, en áreiðanlega hafa nú aðstæðurnar hér á landi verið talsvert aðrar, þegar hún var sett í upphafi, heldur en nú er. Auðvitað er það nú í þessu tilfelli eins og víðar í sambandi við náttúruvernd og umhverfisvernd, að það getur orðið viss hagsmunaárekstur. Auðvitað hefur þéttbýlisfólk þörf fyrir það að geta haft aðgang að góðu umhverfi til þess að njóta þar náttúrunnar og auðvitað er æskilegt og skemmtilegt, að það geti tínt ber upp í sig á þeim stöðum. Það má kannske segja, að það geti ekki gert neinum til, að það geti ekki tínt svo mikið til neyzlu á staðnum, en ég er nú ekki viss um nema að jarðareigendum og bændum í nágrenni stærstu þéttbýlisstaða þyki hætta á því, að nokkur ágangur geti stafað af svona ákvæðum. Eitt er víst, að maður heyrir það oft — eða nokkrum sinnum a. m. k. — í fjölmiðlum, að það er verið að gefa út auglýsingar um það, að berjatínsla í landi þessarar og þessarar jarðar sé algerlega bönnuð. Miðað við þetta lagaákvæði, sem er í náttúruverndarlögunum, sem nú gilda, og er enn í þessu frv., þá eru slíkar auglýsingar út í hött. En ég býst við því, að þeir, sem gefa slíkar auglýsingar út, telji sig oft hafa fulla ástæðu til þess að gera það. Ég bendi aðeins á þetta til athugunar, að það getur verið ástæða til þess að huga að þessu. Ég held, að það sé nú á dögum annað mat á berjum og berjatínslu en í tíð forfeðra okkar, þegar þetta lagaákvæði var upphaflega sett. Ég held, að þau séu nú skoðuð sem dýrmætur jarðargróður, sem er alveg eins verðmætur í sjálfu sér eins og hvað annað, sem jörðinni og landinu tilheyrir. Hitt er svo auðvitað sjálfsagt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að öllum sé heimil berjatínsla utan landareigna lögbýla, það er sjálfsagt.

Ég ætla nú ekki að fara að gera þetta að kappsmáli í eina eða aðra átt, en ég bendi bara á þetta til athugunar fyrir n., og þannig hygg ég nú, að í raun og veru megi benda á fleiri ákvæði, sem væri a. m. k. gott að væru íhuguð, og í því sambandi má t. d. nefna þetta ákvæði, sem hæstv. dómsmrh. benti réttilega á hér áðan, og reyndar hafa verið nefnd fleiri atriði í þessum umr. En það, sem aðallega vakti fyrir mér, var að undirstrika það, að ég tel þau vinnubrögð sjálfsögð, að n. taki frv. til athugunar. ásamt þeim brtt., sem fram eru komnar, og hún geri það nú, áður en 2. umr. er lokið, og taki þá líka til athugunar þær ábendingar, sem hér hafa verið settar fram í umr.