24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

213. mál, náttúruvernd

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég tók það nú ábyggilega fram í framsögu minni í upphafi þessarar umr., að ég harmaði það, hve litinn tíma menntmn. hefði haft til þess að athuga þessi mál, svo að því leyti get ég tekið . . . (Gripið fram í.) Ég kem nú að því á eftir. Get ég tekið undir með hv. síðasta ræðumanni og 3. þm. Vestf. En við vitum, hvernig stendur á nú á hv. Alþ., þannig að ef á annað borð á að leggja áherzlu á það, að þetta frv. verði afgreitt á því þingi, sem nú situr, þá verður að hafa meiri hraða á málinu heldur en æskilegt er með tilliti til þess, að það fái sem bezta athugun. Nú er rétt að upplýsa það, að n. hefur þó haldið nokkra fundi um málið. Hún er enn fremur það vel sett, að einn hv. nm., 5. þm. Reykn., átti sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó málið, þannig að hún hefur frá honum getað fengið margar og góðar upplýsingar um undirbúning málsins. Enn fremur — og það mun hafa farið fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hann mun hafa verið kallaður frá, — hefur verið upplýst í þessum umr., að n. hafði nú í morgun langan fund, þar sem hún tók fyrir allar þær brtt., sem fram hafa komið til þessa. Auk þess voru ræddar í n. brtt., sem einstakir nm. hafa áhuga á að flytja, og sömuleiðis nokkrar tillögur, sem koma frá n. í heild, þannig að ef ekki er tekið tillit til þeirra ábendinga, sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni og hæstv. dómsmrh., sem ég tel sjálfsagt, að n. athugi, þá er mér ekki kunnugt um, að neinar brtt. liggi fyrir, sem n. hefur ekki þegar athugað. N. hafði þann hátt á, að það yrði upplýst við 3. umr. málsins, hvaða tillögur það eru, sem n. í heild mælir með. Þ. á m. munu verða ýmsar þær brtt., sem fluttar hafa verið á þskj. 539 og 562. Þær tillögur hins vegar, sem ekki væri fullt samkomulag um í n., hefðu nm. óbundnar hendur um. Nú er það auðvitað að mínu áliti ekkert atriði út af fyrir sig, hvort þessari umr. verður frestað og greidd atkv. um allar brtt., áður en henni lýkur. Ég hefði nú litið þannig á, að það mundi fremur verða til þess að flýta málinu, ef brtt. yrðu teknar aftur til 3. umr., eins og ég mæltist til í framsöguræðu minni og atkv. greidd um þær þá, en þeim brtt., sem einstakir nm. og n. í heild mun flytja, verður útbýtt á morgun. Ég tel, að það mundi flýta málinu, ef tillögurnar væru teknar aftur til 3. umr., en þó vil ég taka það fram, vegna þess að n. hefur, eins og hér hefur þegar verið upplýst, rætt brtt. á þskj. 536 frá hv. 5. þm. Reykn., að ég hef ekkert við það að athuga, að þær komi til atkvæða nú þegar. En um þær tillögur hefur n. óbundnar hendur, þannig að ég mundi lita svo á, að með tilliti til þess, að æskilegt er að hraða málinu, þá sé æskilegt, að þessi háttur verði hafður á, en tel það auðvitað ekki neitt atriði, sem máli skiptir.

Nú get ég enn fremur upplýst, að n. mun halda fund í fyrramálið, þar sem kennaraháskólafrv. verður á dagskrá ásamt fleiri málum, því að því miður er það nú ekki þannig, að þetta sé eina stóra málið, sem fyrir n. liggur. Þar er líka kennaraháskólafrv., útvarpslög höfum við afgreitt, en ekki með góðri samvizku, enn fremur hefur n. til meðferðar frv. til laga um höfundarétt, sem ýmsir aðilar leggja mikla áherzlu á að verði afgreidd á þessu þingi, auk fleiri smærri mála. Auk þess eiga flestir nm. sæti í öðrum n., sem nú hafa nógum verkefnum að sinna. Við verðum bara að horfast í augu við þessa staðreynd. Ég vænti þess samt, að á fundi n. á morgun gefist tími til þess að athuga ábendingarnar bæði frá hæstv. dómsmrh. og síðasta ræðumanni. Varðandi ábendingu hæstv. dómsmrh. við 19. gr. þá mundi ég nú líta þannig á, að þau spjöld, sem hæstv. dómsmrh. talaði um, kæmu undir það að vera spjöld með leiðbeiningum fyrir vegfarendur, því að eins og það, er á eftir fer, er orðað, þar sem segir: „svo sem um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði o. s. frv.“, skil ég þetta orðalag þannig, að þessi upptalning sé ekki tæmandi, þannig að eðlilegt væri að skýra þessi ákvæði þannig, að þau spjöld, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, kæmu undir þetta, en sjálfsagt er að ræða það í n. og um leið tel ég sjálfsagt, að n. ræði þær ábendingar, sem fram komu hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. við þetta tækifæri, en ég mundi nú líta þannig á, ef flm. brtt. á þskj. 539 og 562 fallast á það, að þær verði teknar aftur til 3. umr., því n. mun mæla með ýmsum af þessum tillögum, þó að ekki hafi orðið samkomulag um þær allar, sem þýðir, að nm. hafa óbundnar hendur. Hins vegar tel ég eðlilegt, að atkvæði gangi um brtt., sem n. hefur flutt á þskj. 597, og hef ekkert við það að athuga, að eins fari um brtt. á þskj. 536 frá hv. 5. þm. Reykn.