25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

213. mál, náttúruvernd

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði frá í gær við 2. umr. þessa máls, hefur menntmn. flutt nokkrar brtt. á þskj. 652 og 653. Enn fremur sagði ég, að ég mundi gera hér grein fyrir afstöðu n. til þeirra brtt., sem fram hafa komið og ekki voru afgreiddar við 2. umr. málsins, og enn fremur, að n. mundi ræða og taka afstöðu til ábendinga, sem fram komu við 2. umr. frá hæstv. dómsmrh. og hv. 3. þm. Norðurl. v.

Varðandi þær brtt., sem n. flytur, þá skulu fyrst teknar fyrir brtt. á þskj. 652. Það er í fyrsta lagi brtt. við 11. gr. frv., sem í felst að okkar dómi skýrara orðalag heldur en er á greininni eins og hún er orðuð nú, en enn fremur er sú efnisbreyting, að tekið er fram, að sé land girt, þá þurfi leyfi landeiganda til að ferðast um það og dvelja á því, en eins og greinin er nú, er aðeins tekið fram, að sé land girt, sé aðeins heimilt að fara um hlið á girðingunni.

14. gr. frv. samkv. brtt. n. er í rauninni brtt., sem þeir hafa flutt, hv. 3. þm. Vestf. og hv. 11. þm. Reykv. á þskj. 562., aðeins umorðuð, en n. hefur tekið hana upp umorðaða. Sama máli gegnir um brtt. við 25. gr., að hún er að efni til samhljóða brtt., sem þessir tveir hv. þm. hafa flutt á þskj. 562, en með öðru orðalagi. Þá er alllöng brtt. við 26. gr. En tilefni þessarar brtt. er ræða hv. 11. þm. Reykv., sem hann flutti við 1. umr. málsins, þar sem hann m. a. gerði sérstaklega að umtalsefni þau vandamál, sem kynnu að skapast, ef ákveðið væri að gera landsvæði á mörkum fleiri sveitarfélaga að fólkvangi. N. féllst á þau meginsjónarmið, sem komu fram varðandi þetta atriði í ræðu hv. 11. þm. Reykv. og var honum falið að semja þessa brtt. í samráði við formann Sambands ísl. sveitarfélaga, og er hún hér flutt af n. í heild. Ég fjölyrði ekki meira um þetta atriði, en vísa þar til ræðu hv. 11. þm. Reykv. við 1. umr. málsins, en e. t. v. mundi hann sjá ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessari brtt.

Þá er að lokum að geta brtt., sem útbýtt hefur verið frá n., brtt., á þskj. 653, en þar er í rauninni tekin upp brtt., sem flutt er á þskj. 539 af þeim hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Vestf., þó með þeirri breytingu, að hér er bætt við tveimur aðilum, sem óskað hafa eftir að verða aðilar að náttúruverndarráði, Búnaðarfélagi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það er ekki vegna þess, að n. hafi óskað að fara í kapp við hv. flm. þessarar tillögu um slíkan tillöguflutning, að hún hefur þannig tekið þeirra tillögu upp, heldur vegna þess, að n. taldi rétt að bæta við þessum tveimur aðilum og taldi þá eðlilegt, að greidd yrðu atkv. um það í einu lagi, og vænti ég því, að hv. flm. fallist á það að taka þessa tillögu aftur með tilliti til þess, að efni hennar er komið inn í aðra tillögu.

Þetta voru þær tillögur, sem n. flytur, en þá vil ég næst í örstuttu máli skýra frá afstöðu hennar til þeirra brtt., sem óafgreiddar eru hér í hv. d. og komnar voru fram, áður en hún í morgun hélt fund um þetta. Varðandi brtt. á þskj. 539 frá þeim hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Vestf., þá hef ég þegar gert 1. brtt., við 4. gr. 2. lið, skil. Enn fremur mælir n. einróma með því, að 4. brtt. við 24. gr., um það, að 2. málsl. orðist svo o. s. frv., verði samþ. Um 2. brtt., sem er við 6. gr. og felur í sér ákvæði um, að tveir af meðlimum náttúruverndarráðs skuli vera líffræðingar og tveir verkfræðingar, varð ekki samkomulag í n. og hafa nm. því óbundnar hendur um hana. Sama máli gegnir um 3. brtt. á þessu þskj., við 2. mgr. 13. gr.

Þá vík ég að brtt. þeim, sem fluttar hafa verið á þskj. 562 af hv. 3. þm. Vestf. og hv. 11. þm. Reykv. Hvað 1. brtt. snertir, sem er við 4. gr., þá mælir n. einróma með því, að hún verði samþ. 2. brtt. við 14. gr. hef ég þegar gert skil, n. hefur tekið hana upp sem sína brtt., en með breyttu orðalagi. Um 3. og 4. brtt., sem eru við 16. og 20. gr., hafa nm. hins vegar óbundnar hendur. Varðandi 5. brtt. við 21. gr., að þar komi viðbót, sem er orðuð á þann veg, sem þar segir í þskj., þá mælir menntmn. einróma með því, að hún verði samþ. 6. brtt. við 25. gr. hef ég þegar gert skil, n. hefur tekið hana upp sem sína brtt. með breyttu orðalagi. Um 7. brtt. við 32. gr. hafa nm. óbundnar hendur. Hvað 8. brtt. snertir, sem er aðeins leiðrétting, þá er n. sammála um, að sjálfsagt sé að samþykkja hana, en um 9. brtt., 37. gr., hafa nm. óbundnar hendur.

Þetta var varðandi þær brtt., sem fyrir lágu fyrir fund n. í morgun. Hér hefur einnig verið lögð fram brtt. á þskj. 654 við 17. gr. frá nokkrum þm. Þetta var lauslega rætt í n., en varðandi þessa tillögu hafa nm. óbundnar hendur.

Þá kem ég að athugasemdum frá hæstv. dómsmrh. og hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég lofaði í gær að n. skyldi ræða, og skal ég í örstuttu máli skýra frá afstöðu n. til þessara ábendinga. Þá kem ég fyrst að ábendingu hæstv. dómsmrh. varðandi 19. gr. frv. Um það vil ég aðeins segja, að það kom fram sem sameiginlegt álit n., að hún telur, að þau spjöld frá umferðarráði, sem hæstv. dómsmrh. talaði um, falli undir ákvæði 3. mgr. 19. gr., þannig að upptalning sú, sem á eftir fer, sé ekki tæmandi vegna þess, hvernig þetta er orðað, þar sem segir svo: „um leiðir, nöfn bæja o. s. frv.“ Enn fremur má ég vitna til 4. mgr. 19. gr., sem, með leyfi hv. forseta, hljóðar þannig: „Náttúruverndarráð setur reglur um auglýsingar og leiðbeiningar skv. þessari grein og úrskurðar vafaatriði“. N. var þeirrar skoðunar, að heimilt væri að setja þessi spjöld upp skv. ákvæðum 19. gr. Hins vegar er það gott, að þessu skyldi vera hreyft af hæstv. dómsmrh., því að ég hygg, að ef til einhvers ágreinings kæmi um þessi atriði, þá mundi verða tekið tillit til þess, að þetta er álit n., og mundi það, ef athugasemdir ekki koma fram þar, þá skoðast sem álit hv. d., en n. taldi ekki ástæðu til að bera fram sérstaka brtt. til þess að ákvarða þetta mál.

Varðandi þær ábendingar, sem fram komu frá hv. 3. þm. Norðurl. v., skildist mér, að það væri að efni til aðallega tvennt, sem hann benti á. Í fyrsta lagi, að ekki væru ákvæði í lögunum um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd þeirra, og í öðru lagi varðandi 37. gr., að ekki væru skýr ákvæði um það, hvaða aðilar ættu að leggja á dagsektir o. s. frv. Það er einmitt til þess að koma til móts við þessi sjónarmið, sem menntmn. hefur leyft sér að flytja svo hljóðandi brtt. við 37. gr., sem ég ætla, með leyfi hv. forseta, að lesa upp:

„Aftan við 37. gr. komi ný mgr., svo hljóðandi: Menntmrn. skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.“ Varðandi dagsektir og annað slíkt töldum við eðlilegt, að í reglugerð yrðu sett ákvæði um það. Þó að við viðurkennum fullkomlega það sjónarmið, þá höfum við ekki flutt sérstaka brtt. um það, hverjir hefðu þarna ákvörðunarvald o. s. frv. Við lítum þannig á, að þessi brtt. okkar ætti að koma á fullnægjandi hátt til móts við þær ábendingar, sem hv. þm. setti fram. En þessi brtt. er skrifleg og vil ég því leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. forseta, að hann leiti fyrir henni nauðsynlegra afbrigða, svo hún megi þá einnig koma fyrir þessa umræðu málsins.