25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

213. mál, náttúruvernd

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að þessu máli. Út af þeirri brtt., sem hv. menntmn. hefur flutt við 37. gr., að nokkru leyti vegna ábendingar hér, vil ég segja, að hún er góð svo langt sem hún nær. Hins vegar leysir hún ekki úr því vafaatriði, sem ég benti á hér fyrr í umr. Ég tel mjög hæpið, svo að ekki sé meira sagt, að menntmrh. geti í reglugerð ákveðið það, hver skuli beita eða leggja á dagsektir, þegar ekkert er um það tekið fram í lögum, hver það skuli vera og hv. menntmn. hefur ekki einu sinni treyst sér til að taka neina afstöðu til þess. En þetta er algert aukaatriði í sambandi við þetta mál og kemur ekki að sök. Afleiðingin verður aðeins sú, að þetta ákvæði um dagsektirnar verður dauður bókstafur. Þeim verður aldrei beitt. Það er nú ekki mikið atriði, en ég er því miður hræddur um, að þau verði fleiri, ákvæðin í þessu frv. og lögum, sem verða dauður bókstafur, og alveg sérstaklega, ef svo fer fram sem horfir, að verulegustu stoðinni undir þessari lagasetningu verður kippt burtu, en það er auðvitað náttúruverndarsjóðurinn. Þess vegna vil ég mjög undirstrika það, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 11. þm. Reykv., sagði hér áðan um það efni, að það er að mínum dómi stórkostlegur galli og ljóður á þessu frv. og þessari fyrirhuguðu lagasetningu, ef ákvæðunum um náttúruverndarsjóð verður með öllu kippt burt úr þessu frv. og það verður svo gengið frá þessari löggjöf, að náttúruverndarráði og þeim aðilum, sem eiga að sjá um framkvæmd þessara mála, verður ekki tryggt neitt fé til þeirra framkvæmda, sem þar er um að ræða. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að í þessari endurskoðuðu löggjöf hafi náttúruverndarsjóðurinn í raun og veru verið þungamiðja þess máls. Þegar búið er að kippa honum út úr, þá er að vísu um nokkrar breytingar að tefla frá núgildandi löggjöf, en þó í raun ekki svo ýkja miklar, því að vitaskuld gæti náttúruverndarráð beitt sér fyrir ráðstefnu til þess að skapa þann umræðuvettvang, sem náttúruverndarþingi er ætlað að vera, þannig að ég vil fyrir mitt leyti mjög eindregið mæla með samþykkt þeirrar brtt., sem hv. 11. þm. Reykv. lagði hér fram áðan og mælti fyrir.

Frá mínum bæjardyrum séð er kannske ekki svo sérstaklega rík ástæða til að leggja áherzlu á afgreiðslu þessa máls nú á þessu þingi, ef þetta ákvæði frv. er með öllu út úr því tekið. En það er auðsætt, eins og hann gerði rækilega grein fyrir, að ein grundvallarforsendan fyrir því, að starfsemi náttúruverndarráðs geti komið að gagni, er, að það hafi nokkurt fé, sem það geti grípið til, án þess að þurfa um það að sækja til annarra, því að reynslan sýnir, að sú leið hefur reynzt býsna seinfarin. Og vafalaust hefur af þeim sökum orðið minna úr framkvæmdum í þessum efnum heldur en náttúruverndarráð hefði viljað. Ég held þess vegna enn, að það sé full ástæða til að íhuga þessi mál og ég held, að það hefði nú ekki sakað að fylgja mínum ráðum um það, að það hefði verið látið bíða og fresta 2. umr. og n. hefði haft þetta mál til íhugunar. Ég held, að þá hefði henni gefizt meira tóm til að íhuga einmitt þetta atriði, sem nú er komið fram í þessari brtt. Ég held, að það væri nú ástæða til þess, að hún íhugaði einmitt það atriði rækilega, áður en atkv. eru hér látin ganga um þessa brtt., því að eins og ég sagði, ef ekki eru í þessu frv. nein ákvæði um að tryggja náttúruvernd fé, þá finnst mér meginatriðið úr þessu frv. vera horfið og þá geri ég fyrir mitt leyti ekki svo mikið með það, hvort þessi endurskoðaða löggjöf verður samþ. einu þinginu fyrr eða seinna.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, segja það út af því, sem hv. frsm. sagði um þá ábendingu, sem kom frá hæstv. dómsmrh., að sjálfsagt er það til bóta, að hann hefur lýst skilningi n. á þessu ákvæði. Hins vegar held ég, að það hefði nú verið skýrara að taka þetta beinlínis fram, því að þó að það sé ljóst, að upptalningin í greininni sé ekki tæmandi, þá held ég, að þau atriði, sem þar eru nefnd, séu nú öll nokkuð annars eðlis heldur en það, sem ráðh. benti á.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta mál.