01.04.1971
Neðri deild: 81. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

213. mál, náttúruvernd

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Menntmn. hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til laga um náttúruvernd, sem er 213. mál d. og prentað á þskj. 677. Þar sem máli þessu hafa verið gerð allítarleg skil, er það fyrst var lagt fram á síðasta þingi, skal hér farið fljótt yfir sögu um aðdraganda þess. Ekki verður þó hjá því komizt að rifja upp fáein atriði. Upphaf málsins var það, að hinn 18. apríl 1968 samþykkti Alþ. þáltill. um náttúruvernd og friðun Þingvalla og þjóðgarða. Með leyfi forseta hljóðar hún þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða lög nr. 59 1928, um friðun Þingvalla, og lög nr. 48 1956, um náttúruvernd, og semja fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. til nýrra laga um náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða. Endurskoðunin miði að því að auka náttúruvernd og auðvelda almenningi aðgang að heppilegum stöðum til útivistar og náttúruskoðunar. Einnig verði verk- og valdsvið náttúruverndarráðs og Þingvallanefndar skilgreint sem gleggst.“

Með bréfi dagsettu 28. júní 1968 skipaði menntmrh. nefnd í tilefni af þessari þáltill. Í nefndina voru skipaðir Birgir Kjaran, formaður, Benedikt Gröndal, Eysteinn Jónsson og Gils Guðmundsson. Nefndin réð sér til ráðuneytis dr. Guðmund Sigvaldason jarðfræðing, sem jafnframt var framkvæmdastjóri nefndarinnar, og Ragnar Jónsson hæstaréttarlögmann sem lögfræðilegan ráðgjafa. Nefndin sat alllengi að störfum, enda verkefnið viðamikið og víðtækt, þar sem umsteypa þurfti ærið gamaldags og sumpart úreltri löggjöf, sem voru lög um náttúruvernd frá 7. apríl 1956, sem að vísu hafa á sínum tíma verið góðra gjalda verð frumsmíð, en orðin harla úrelt miðað við nýja tíma, breyttar aðstæður og ný viðfangsefni.

Nefndin aðgreindi þegar í upphafi verkefni sitt í tvennt, annars vegar almenna náttúruverndarlöggjöf og hins vegar lagasetningu varðandi friðun Þingvalla. Taldi hún fyrra atriðið mest aðkallandi og einbeitti þess vegna störfum sínum að því máli og samningu frv. til laga um það efni. Því lauk hún, en varðandi síðara viðfangsefnið, nýja löggjöf um friðun Þingvalla, hefur hún enn ekki lokið störfum, en mun vonandi gera það innan tíðar. Seta nefndarinnar hefur verið alllöng. Þó held ég, að iðjuleysi verði þar ekki um kennt, því að fundahöld hafa verið tíð og margir kvaddir til ráðuneytis, enda tilætlunin að vanda til verksins eftir föngum. Þurfti þess vegna að afla upplýsinga og gagna víða að og kynna sér m. a. nýjustu löggjöf annarra þjóða á þessu sviði, en hér er um mjög sérhæfða löggjöf að ræða, sem einmitt á síðustu árum hefur verið að taka grundvallar-stakkaskiptum í nágrannalöndum okkar.

Það var kannske óskhyggja nefndarinnar, að málið næði fram að ganga á árinu 1970, sem var svo kallað náttúruverndarár Evrópu og Evrópuráð hafði helgað kjörorðinu „Maðurinn og náttúran“. Af þessu gat nú því miður ekki orðið, og er í sjálfu sér kannske ekki svo mikið um að sakast, enda ekki óeðlilegt, að slíkt, ef svo mætti að orði komast, stjórnarskrárfrv. um forvöltun þjóðarinnar á landinu þyrfti grandskoðunar og góðrar athugunar við. Frv. var lagt fram og sýnt á vorþinginu 1970. Síðan hefur það gengið í gegnum margþættan hreinsunareld, verið lagt breytt fram af ríkisstj. á þessu þingi og nú verið afgreitt frá Ed. Alþ. með enn fleiri breytingum. Ég skal játa það, að mér eru vonbrigði að ýmsum þeim breytingum, sem frv. hefur tekið í meðförum viðkomandi aðila, enda þótt ég geti að vísu viðurkennt, að sumt er þar þó til nokkurra bóta. En þau atriði vega í mínum huga miklum mun meira, sem niður hafa verið felld, en þau, sem hafa átt að betrumbæta frv. Á ég þar sérstaklega við greinarnar um náttúruverndarsjóð, sem ég mun síðar víkja að, og 32. gr., sem að mínu viti rýrir tilfinnanlega vald náttúruverndarráðs frá því, sem áður var, og ég tel vissulega mikinn ljóð á frv., eins og það nú er. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar, og ég mæli þar víst fyrir munn nefndarinnar í heild, að við viljum heldur stíga þetta spor, sem við teljum í rétta átt, þótt við séum allir sammála um, að þarna sé mörgu áfátt — við viljum heldur mæla með samþykkt þessa frv. í því formi, sem það er nú, örlítið breyttu, heldur en að láta málið niður falla.

Ég mun nú víkja að einstökum greinum frv. Í 4. gr. er fjallað um náttúruverndarþing og er þar bætt við nokkrum aðilum, sem ætlazt er til að fái þingsetu, en þeir eru þessir: Samband ísl. sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands, Búnaðarfélag Íslands, Arkitektafélag Íslands og Félagssamtökin Landvernd. Við þessu skal ekki amazt. Aðeins dálítið vafasamt, hvar línuna á að draga í þessum efnum, og kann mönnum kannske að vera spurn á því, hvers vegna önnur atvinnusamtök, svo sem t. d. Fiskifélag Íslands, Iðnaðarmálastofnunin o. fl. o.fl. ættu ekki einnig að eiga þarna fulltrúa eins og þeir, sem hér hafa verið nefndir. En þetta er í sjálfu sér aukaatriði. Það er hins vegar miklum mun lakara, að náttúruverndarsamtökin hafa af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þarna verið svipt aðild að þinginu. Og ættu þau þó öðrum fremur þar heima. Nú hafa verið stofnuð náttúruverndarsamtök á Norðurlandi, önnur fyrir Austurland, þau þriðju fyrir Reykjavík og nágrenni og að sögn mun vera áhugi á og í bígerð að stofna hliðstæð samtök á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurlandi og e. t. v. í Vestmannaeyjum. Ekki væri ótrúlegt, að öll þessi félög mundu á sínum tíma stofna með sér náttúruverndarsamband eða einhver heildarsamtök, og verður að teljast eðlilegt og raunar sjálfsagður hlutur, að slík samtök ættu sæti á svo nefndu náttúruverndarþingi, þar sem þau eru í raun og veru veigamesti aðilinn í náttúruverndarmálum landsins, því að þetta eru þau frjálsu samtök borgaranna, sem þarna fylgja fram sínum áhugamálum. Þess vegna höfum við nokkrir þm. borið hér fram brtt. við þetta efni, þar sem náttúruverndarsamtökunum er ætlað eðlilegt sæti, og mér er nær að halda, að þetta sé vangá, en ekki vilji, sem því hefur valdið, að það hefur fallið út og treysti því fastlega, að þm. breyti þessu atriði, en jafnframt mundi ég mjög vilja leggja á það áherzlu, að ekki yrði komið með fleiri eða flóknari brtt., sem hefðu það í för með sér, að þetta mál strandaði og næði ekki fram að ganga á þessu þingi, því að mínu viti er töluverðu fyrir það fórnandi, að málið komist fram, þó að það sé ekki kannske í þeim bezta búningi, sem menn hefðu getað hugsað sér. Nýmæli í þessari grein eru og, að hver þingflokkur eigi fulltrúa á náttúruverndarþingi, og sé ég ekkert því til fyrirstöðu og raunar æskilegt, að stjórnmálaflokkarnir fái sem bezt tækifæri til að fylgjast með náttúruverndarmálum, því að því fremur má vænta stuðnings Alþ. við náttúruverndarmálstaðinn almennt.

8. gr. frv. tel ég til bóta og raunar einn af betri þáttum frv., því að ef að lögum verður, mun náttúruverndarráð nú loksins eftir 15 ára starf — en lög um það voru einmitt samþ. frá Alþingi 7. apríl 1956 — fá fastan samastað og hafa leyfi til að ráða fulllaunaðan framkvæmdastjóra. Fram til þessa eða í 15 ár hefur þetta olnbogabarn íslenzka ríkisins verið á húsnæðishrakhólum og orðið að halda fundi í húsakynnum annarrar stofnunar og þess eina eign og „inventar“ þar er einn pjáturssmíðaður skjalaskápur — og starfið að mestu verið unnið af fremur láglaunuðum sérfræðingum og áhugamönnum fyrir hungurlús að aukagetu.

Versti ágalli þessa frv. er tvímælalaust niðurfelling 9. og 10. gr. hins upphaflega frv., ákvæðisins um náttúruverndarsjóð. Þær aðferðir til tekjuöflunar til handa sjóðnum, sem við gerðum tillögur um þeir, sem að samningu frv. stóðu, voru okkur ekkert aðalatriði. Sjóðinn töldum við hins vegar nauðsyn og álitum ábyrgðarlítið að benda ekki samtímis á neinar tekjuöflunarleiðir, enda þótt við værum fullkomlega ásáttir um, að ríkisstj. benti á aðra og fasta, tiltölulega örugga tekjustofna fyrir náttúruverndarsjóð. Hins vegar óttast ég, af fenginni reynslu, án þess að ætla með þeim orðum að reka nokkur horn í fjmrn. eða fjvn., að ef náttúruverndarráð hefði ekki að bakhjarli náttúruverndarsjóð, sem hefði fyrirfram áætlaðar tiltölulega árvissar tekjur, en ætti að sækja allt undir einhvern póst í fjárlögum, yrði starf og möguleikar ráðsins mjög ótryggt. Ég álít sem sagt, að með þessu ákvæði sé því miður mikið tjón unnið. Það er einmitt frumnauðsyn að gert sé ráð fyrir föstum tekjustofni eins og raunar svo margar aðrar hliðstæðar stofnanir í þjóðfélagi okkar hafa. Það þarf ekki að vísa mikið til talna í þessum efnum, en ég sé þó ástæðu til að benda á það, að ef við tökum þau 15 ár, sem náttúruverndarráð hefur starfað, þá hefur íslenzka ríkið ekki verið örlátara í þessum efnum en svo, að það hefur varið frá 0.04 til 0.14% af útgjöldum sínum eða til jafnaðar 0.07‰ af heildarútgjöldunum til náttúruverndarstarfa í einu eða öðru formi á sama tíma og aðrar þjóðir — eftir því, sem ég hef aflað mér nýrra upplýsinga um — verja ekki undir 1%, sumar hverjar upp í 3% — ekki promille, heldur prosent — og jafnvel á einstaka stað, ef allt er með tekið, upp í 5% af gjöldum sínum til náttúruverndarmála. Þetta er slík hneisa, að ég held, að við getum ekki blygðunarlaust horft á slíkt til lengdar.

Það er sagt, að peningar séu afl þeirra hluta, sem gera skal, og það er rétt að vissu marki. Hins vegar held ég, að menn geri sér ekki alltaf ljóst, að þeir peningar, sem varið er til náttúruverndar, renta sig ábyggilega ekki lakar heldur en aðrir fjármunir, sem þjóðin leggur fé sitt í. Við erum að tala um að gera íslenzkt atvinnulíf fjölbreyttara og árvissara. Það er verið að benda á ýmsar nýjar leiðir: iðnvæðingu, stóriðju og sitthvað annað. Allt er þetta vafalaust góðra gjalda vert. En sumir hafa bent á, að Ísland gæti haft nokkrar tekjur af því að verða það, sem kallað er ferðamannaland. Ég skal fúslega játa, að á því eru tvær hliðar. Það er sjálfsagt gott að hafa tekjur af ferðamönnum, en því fylgja líka stundum nokkrir agnúar. En um það er ekki að fást, vegna þess að það er greinilegt, hvað fara gerist í þeim efnum. Ísland er að verða ferðamannaland, hvort sem við viljum eða viljum ekki. Og þess vegna skiptir það miklu máli að beina þessari nýju atvinnugrein inn á réttar brautir. Og ég held, að þarna verðum við að byrja strax og gæta varfærni. Og einmitt þarna koma náttúruverndarlög og náttúruverndarstarf að gagni. Við þurfum að koma á ákveðnum umgengnisreglum fyrir innlenda og erlenda ferðamenn í sambandi við náttúru landsins og við þurfum líka að sjá um það, að ferðafólkið, bæði innlent og erlent, njóti hæfilegrar aðstöðu. Það er ágætt að friða lönd og það er ágætt að stofna þjóðgarða, en samtímis skulum við gera þetta þannig, að fólkið hafi þarna greiðan aðgang og aðstaða sé sköpuð hvað hreinlæti og aðra hluti snertir, sem nauðsynleg er.

Í 11. gr. eru lítils háttar breytingar, sem ekki er orð á hafandi. Við 17. gr. er slakað á ákvæðum varðandi malarnám og töku annarra jarðefna. Þá breytingu tel ég því miður til hins verra, þar sem í henni felst, að náttúruverndarráð fær ekki tækifæri til að fylgjast með þessum málum eins og gert var ráð fyrir í upphaflega frv. Sama er að segja um 25. og 26. gr. Þar er líka slakað á.

En þá kem ég að 32. gr., sem auk höfnunar á myndun náttúruverndarsjóðs er að mínum dómi mest lýti á þessu frv. Hún er okkur náttúruverndarmönnum mikill þyrnir í augum og kannske hvað mestur ákvæða þessa frv., vegna þess að með henni er allt vald varðandi friðlýsingu tekið úr höndum náttúruverndarráðs, þar sem jafnvel gömlu lögin frá 1956 heimiluðu ráðinu friðlýsingar, svo fremi að ágreiningur komi ekki upp eða kostnaður fari ekki fram úr ákveðinni hámarksupphæð. Nú er þessu sleppt. Virðist þetta ákvæði aðeins kalla á óþarfa skrifstofumennsku og geta orsakað seinagang mála og draga úr áhrifavaldi náttúruverndarráðs gagnvart almenningi. Með þessu virðist því aðeins ætlað það hlutverk að vera eftir þessu nokkurs konar hlaupatík milli þegna og rn. í smávægilegum málum, sem samkomulag kann að nást um án handleiðslu eða blessunar hins háa stjórnarráðs.

Einhverjum kann að koma það svo fyrir sjónir, að ég hafi verið hér nokkuð hvassyrtur í þessum aths. mínum um umrætt frv. En því er til að svara, að málið er mér kannske meira hugðarefni en sumum öðrum og mér finnst við náttúruverndarmenn ekki uppskera sem svarar því, sem sáð hefur verið til. Á hinn bóginn er ég svo gagnkunnugur þróun þessara mála í grannríkjum okkar, að mér er engin dul á því, að allt verður ekki fengið í einum áfanga eða atrennu. Náttúruvernd er nýtt hugtak, nýtt viðfangsefni, ný staðreynd, sem þjóð okkar þarf að horfast í augu við. Það þarf tíma til þess að kynna alþjóð náttúruverndarsjónarmiðin, gera henni ljóst, að náttúruvernd er engin spjátrungsleg sérvizka búin til á skrifpúltum lífsfirrtra lærdómsofvita með aðstoð tölvunnar, né heldur rómantískt hugsjónaskvaldur, heldur bláköld hagsmunastaðreynd veruleikans. Okkar kynslóð og sú næsta mun gegna og þurfa að gegna róttækum aðgerðum í náttúruverndarmálum. En komandi kynslóð mun ekki gera það, ef við svo búið verður látið standa, sem er í dag, og fram kann að vinda án þess að nokkuð sé staldrað við og hugað af alvöru og einurð að þessum þýðingarmiklu málum.

Við erum vissulega hamingjusamir, Íslendingar, að eiga enn kannske einir Evrópuþjóða óspillt land. Við eigum ekki mikið annað að undanskildum fámennum, en vel verkkunnandi mannafla og þeirri orku, sem felst í orkulindum landsins, vatnsafli og jarðhita. Og svo er það fegurð landsins, heilnæmt loft og tærar lindir, sem eru ómetanlegar. Þeim arfi verðum við að skila komandi kynslóðum óskertum og óspilltum, ef við viljum ekki, að þær ragni okkur fyrir augnabliks óhugsað fljótræði og óseðjandi auragræðgi.

Með þessu er ekki sagt, að náttúruvernd höfði gegn tæknilegum nýjungum, síður en svo, því að ef við viljum, verðum við að taka tæknina í vaxandi mæli í þjónustu okkar. Vélvæðing og tækni geta einnig auðveldlega átt samleið með náttúruvernd, ef í framkvæmdir er ráðizt með fyrirhyggju. Ódýrasta virkjunin þarf ekki alltaf að vera sú ákjósanlegasta, ef henni fylgir herför gegn náttúrufegurðinni og þeirri nautn, sem henni fylgir. Hanna þarf því hvert stórt mannvirki með hliðsjón af hagnaði og hagsæld þjóðarinnar í heild. Hundruð rafstöðva og orkuvera, stynjandi stórverksmiðjur, auraflóð og allsnægtir geta ekki fært þjóðinni aftur þá lífshamingju, sem grænt gras, lágvaxið kjarr, tröllaukin fossaföll og kliðmjúkar lækjalænur veita henni. Við megum ekki fórna náttúru Íslands á altari Mammons, því að ella verðum við rótslitin þjóð, sem ekki á lengur frumburðarrétt til þessa lands.

Máli mínu vil ég svo ljúka með því, að enda þótt ég sé víðs fjarri að vera ánægður með þetta frv. til náttúruverndar á Íslandi, þá tel ég það þó marka spor í rétta átt, enda er mér e. t. v. manna ljósast, svo lengi sem ég hef fengizt við þessi mál, að það þarf þolinmæði, þrautseigju til þess að þumlunga sig áfram, þrotlausa baráttu við þekkingarskort, baráttu við hagsmuni, baráttu við þröngsýni, auðshyggju og arfgenga fordóma. Þess vegna leyfi ég mér að leggja til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt með þeirri smávægilegu brtt., sem lögð hefur verið fram, og heiti á þm. að afgreiða málið á þessu þingi.